Thursday, August 29, 2013

Sítrónu orkuboltar

Það er svo frábært að eiga svona holla bita þegar mikið er að gera. Mér finnst gott að taka nokkrar kúlur með mér í vinnuna og geta laumast í eina og eina inn á milli þess sem ég er að þjálfa.  Það hjálpar til við að halda orkunni uppi.  Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að þessar kúlur innihalda talsvert mikið af kaloríum.  Þannig að fyrir þá sem eru að telja er betra að fara varlega í kúlunum.  En það eru líka góðar fréttir.  Í kúlurnar set ég valhnetur og sesamfræ. Valhnetur eru góð uppspretta af omega-3 fitusýrum. Þær eru taldar vinna gegn krabbameini og ýmsum kvillum. Margir telja að valhnetur séu hollustu hneturnar sem við getum neytt.  Það sama má segja um sesamfræ, þau eru talin vera krabbameinshamlandi og talin lækka kólesteról og hjálpa til við að halda blóðþrýstingi í skefjum. Að eru þau rík af kalki sem mörgum okkar veitir víst ekki af að fá aðeins meira af.  Svo er það C-vítamín bomban sjálf sítrónan, ég gæti skrifað heila ritgerð hér um ágæti þessarar ofurfæðu.

Málið er bara að fara varlega í kúlurnar þær eru meinhollar, en ekki samt klára allan skammtinn á einum degi.  Þær geymast vel í ísskápnum í vel lokuðu íláti í nokkra daga.  Svo er um að gera að stinga einni og einni með í nestisbox fjölskyldumeðlima.1 bolli valhnetur
1 bolli döðlur
3/4 bolli sesamfræ
safi úr 1 sítrónu, ca. 1/4 bolli
2 tsk rifinn sítrónubörkur (bara guli hlutinn, ekki hvíta)
1/2 tsk vanilluduft
1/2 bolli kókosmjöl

Mér finnst best að leggja döðlurnar í bleyti í smá stund, í kalt vatn eða ylvolgt.  Það er hægt að rista sesamfræin á pönnu fyrst ef þið viljið.  Mér finnst það gera betra bragð og minnka beiska braðgið sem getur stundum fylgt sesamfræjunum.  En þetta flokkast þá ekki sem hráfæði.  En þetta er bara smekksatriði.

Öllu nema kókosmjöli er blandað saman í matvinnsluvél og unnið þar til að myndast gott dáldið klístrað mauk.  Þá er að móta kúlur með teskeið og höndunum. Velta upp úr kókosmjöli og kæla.

Tuesday, August 20, 2013

Hollt og gott í hádeginu

Frískandi og gott í hádeginu, einfalt að útbúa og þú vekur örugglega athygli vinnufélaganna í hádegishléinu. Það er einfalt að hafa með sér allt sem þarf í þennan girnilega hádegisverð.  1/2  kantalópa (melóna), má líka nota gula.
1/2 dós grísk jógúrt
1-2 dropar stevia eða örlítið hunang (má sleppa)
múslí helst lífrænt eða heimalagað
ferskir ávextir eða ber. Ég notaði bláber og jarðaber.

Hreinsa kjarnann úr melónunni. Ef þið viljið sæta jógúrtina þá blandið ykkar sætuefni saman við og setjið svo jógúrtina út í holuna á melónunni.  (það er líka gott að setja örlítið vanilluduft út í jógúrtina). Strá múslí og ferskum berjum yfir. 

Smoothie með ananas, appelsínu og hindberjum

Þetta er nýi uppáhalds drykkurinn minn.  Hann er svo ferskur og góður.  Fullkomnar heita sumarmorgna. Nú eða ef ekki er sól eða heitt, þá bara skreytir maður glasið meira og þykist vera í útlöndum :)
Annars er þetta fínasta orkuboost fyrir daginn.  Einfalt og fljótlegt að útbúa.

2 góðar og vænar sneiðar af ferskum ananas. 
Safi úr einni appelsínu
Handfylli af frosnum hindberjum

Setja allt í blandarann og blanda vel saman.  Hella í stórt glas og skreyta að vild :)

Wednesday, August 7, 2013

Simply Chocolate ávaxtapinnar

Við fjölskyldan skruppum til Kaupmannahafnar um daginn.  Fórum meðal annars í Tívolí að sjálfsögðu.  Þar sá ég lítinn stað "Simply Chocolate" þar sem hægt var að fá ávaxtapinna húðað með súkkulaði.  Það var talsverð röð þarna, þannig að ég ákvað að skella mér í röðina og prófa fínheitin.  Þetta var algjör draumur á priki.  Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir hollustudelluna í mér að þá er ég súkkulaðifíkill og á virkilega erfitt með að neita mér um súkkulaði.  Ég las einu sinni að 20 grömm af dökku súkkulaði á dag væru meinholl fyrir okkur.  Þannig að til öryggis passa ég mig á að borða alltaf aðeins meira en 20 grömm.  Ég er afskaplega þakklát fyrir dökkt, lífrænt sykurlaust súkkulaði ;)
En aftur að pinnunum.  Það er auðvitað afskaplega einfalt að útbúa sér sambærilega pinna heima.  Ég ákvað að prófa þegar ég var komin heim aftur.  Að sjálfsögðu með hollara súkkulaði og kanski ekki eins rosalega miklu.

Þetta er í raun ekki uppskrift heldur bara hugmyndir um hvernig hægt er að útbúa pinnana.Þú þarft:

Nokkra tré grillpinna
Ávexti að eigin vali, allt sem er auðvelt að þræða upp á prik kemur til greina, endalausir möguleikar.
(ég notaði, banana, ananas, jarðaber, bláber, og þurrkaðar aprikósur)
Dökkt súkkulaði að eigin vali ca. 100-120 g á fjóra pinna.
Kókosmjöl eða saxaðar hnetur að eigin vali til að strá yfir.  Einnig gott með þurrkuðum jarðaberjum ef þið finnið þau einhversstaðar.

Skera ávextina í góða bita.  Þræða upp á pinna. Bræða súkkulaði yfir vatnsbaði.  Nota skeið til að hjúpa pinnana með súkkulaði.  Strá kókosmjöli eða hnetum yfir.  Leggja pinnana á bökunarpappír og geyma í kæli í ca. 10 mínútur, svo að súkkulaðið nái að storkna.Þetta er dásamlegur eftirréttur eða bara kvöldsnarl.  Möguleikarnir eru endalausir.  Gaman að hver og einn fái að útbúa sinn pinna.  Í Köben var hægt að velja úr dökku súkkulaði, mjólkur og hvítu. Eins var í boði að setja sætindi eins og núggat, marshmellows og lakkrís með á pinnana.  Ég reyndar prófaði með sultuðum engifer og það var rosalega gott.  En með því að halda sér við ávextina og gott dökkt súkkulaði förum við ekki fram úr sjálfum okkur í óhollustunni, þó svo að gaman sé að prófa aðrar útgáfur stöku sinnum ekki satt ;)


Hvítlauks bakað zucchini

Ég kaupi stundum zucchini og hugsa með mér að það sé fínt að eiga þetta ef ég er að grilla grænmeti eða steikja á pönnu.  En ég er bara hrikalega gjörn á að gleyma þessu blessaða zucchini í ísskápnum.  Stundum þarf ég hreinlega að henda því, eða þá að ég geri eins og svo oft, set það í eldfast mót með sætum kartöflum og baka í ofni.  Ég veit að það er svo margt hægt að gera úr þessum græna þannig að það er algjör synd að ég skuli alltaf bara gleyma honum og enda svo með því nota hann alltaf á sama hátt.

Um daginn skellti ég mér í búðina og keypti zucchini eins og svo oft áður.  Að þessu sinni var ég staðráðin í því að malla eitthvað sniðugt úr því strax og ég kæmi heim, áður en það myndi gleymast.  Ég ákvað að prófa að elda það á svipaðan hátt og ég hef stundum gert með sætar kartöflur.  Útkoman var mjög fín. Zucchini er svo hlutlaust þannig að það tekur einfaldlega í sig bragð af kryddum og því sem maður notar með.  Hér fær því hvítlauksbragðið að njóta sín vel.

Ég er hreinlega ekki viss hvort zucchini flokkist sem grænmeti eða ávöxtur, það virðist vera eitthvað misjafnt. En hvað sem því líður þá inniheldur það mikið af trefjum og margar gerðir stein- og snefilefna sem eru mikilvæg fyrir okkur.  Það er ríkt af bæði C- og A- vítamínum.  Það inniheldur nánast engar kaloríur, svona fyrir þá sem eru að telja.  Zucchini er talið hjálpa til við að halda blóðþrýstingnum í skefjum þar sem það inniheldur potassium. Potassium þarf að vera í réttu hlutfalli við sodium.  En sodium er talið hafa einmitt neikvæð áhrif á blóðþrýsting.  Skyndibitamatur og mikið unninn matur inniheldur að öllu jöfnu hátt hlutfall af sodium.  Þannig að neysla á zucchini og potassium hjálpar til við að ná réttu jafnvægi þarna.


2 zucchini skorin í bita
3-4 hvítlauksrif
1-2 msk kókosolía (eða græn jómfrúarolía) 
salt og pipar
örlítið rósmarin

Skera zucchini í bita og setja í skál.  Merja hvítlaukinn og setja út á. Krydda eftir smekk og setja að lokum olíuna út á.  Þarna er mikilvægt að kókosolían sé í fljótandi formi. Hún harðnar um leið farið er að blanda henni saman við.  Ég var því með skálina yfir heitu vatni á meðan ég blandaði öllu vel saman. 
Setja bökunarpappír á bökunarplötu.  Dreifa vel úr blöndunni á pappírinn.  Baka í ofni í ca. 20 mín við 180° C eða þar til zucchini fær á sig gylltan blæ. 

Þetta er frábært meðlæti með nánast hverju sem er.  Ég hafði þetta hreinlega sem aðalrétt með góðu salati.