Monday, December 12, 2011

Steiktir bleikjubitar

Einfaldur og fljótlegur kvöldverður, ekki veitir af í jólaönnum.  Ég er líka mjög ánægð þegar ég get eldað holla og góða máltíð fyrir okkur börnin fyrir innan við 2000 kr.  Ég steiki orðið allt úr blöndu af íslensku smjöri og kókosolíu.  Það gerir svo gott bragð.  Kókosolían er afbragðsholl og það er íslenska smjörið víst líka.

800 g bleikjuflök
1/2 dl gróft spelt
salt
pipar
smjör / kókosolía

Skera bleikjuflökin í frekar litla bita. Lítið flak skar ég í 4-5 bita.  Setja speltið á disk ásamt salt og pipar og velta bleikjubitunum upp úr.  Steikja bitana við vægan hita á pönnu upp úr smjöri og kókosolíu í ca. 3-5 mínútur á hvorri hlið.  Bera fram með góðu salati, kaldri jógúrtsósu og hýðishrísgrjónum.

Hollari súkkulaðibitakökur

Jæja, það er hægara sagt en gert að verða sér út um uppskriftir sem eru ekki löðrandi í sykri og óhollustu.  Þessar fínu súkkulaðibitakökur eru þó eitthvað í áttina.  Þær innihalda agave-sýróp og döðlur sem að sjá um sæta bragðið ásamt dökku súkkulaði.  Þetta er uppskrift sem kemur frá henni Sollu Eiríks á Gló.  Mér fannst deigið vera helst til þurrt, svo að ég bætti aðeins af vatni útí til að auðveldara væri að móta kúlur.  Hugsanlega er það mátulegt ef maður lætur döðlurnar liggja í bleyti áður en þær fara út í. 
En ég var mjög sátt við útkomuna, bragðgóðar og fínar kökur og ég gat meira að segja leyft mér að fá mér tvær kökur í svona eftirmorgunmat, enda eru þær sjálfsagt ekkert mikið óhollari heldur en cheeriosið sem ég áður lét ofan í mig á morgnanna.

2 dl döðlur, smátt saxaðar
1 dl lífræn kókosolía
1 dl agave-sýróp
300 g spelt
200 g heslihnetur, þurrristaðar, gróft saxaðar (til að flýta fyrir setti ég þær bara í matvinnsluvélina)
100 g kókosmjöl, þurrristað í ofni (í bráðlæti mínu notaði ég bara p0önnuna)
1 tsk. vanilla
Smá sjávarsalt
200 g lífrænt 70% súkkulaði, smátt saxað

Setjið döðlur, kókosolíu og agave-sýróp í matvinnsluvél (notið þá hnoðarann, ekki hnífinn) eða hrærivél og blandið saman. Bætið út í spelti, heslihnetum, kókosmjöli, vanillu, smá sjávarsalti og súkkulaði og klárið að hræra deigið saman. Látið bökunarpappír á ofnplötu og mótið litlar kökur með teskeið eða í höndunum og setjið á plötuna. Bakið við 175°C í 10-12 mín.

Saturday, December 10, 2011

Hollar ömmukúlur

Er að gera nokkrar tilraunir fyrir jólin með hollari útgáfur af konfekti og smákökum.  Þessi uppskrift stendur alveg fyrir sínu og er einföld og fljótleg.

2 dl döðlur
1 dl kókosmjöl
1 dl rúsínur
1 dl möndlur
250 g dökkt súkkulaði

Saxa döðlur og möndlur.  Bræða súkkulaðið yfir heitu vatnsbaði.  Blanda öllu saman við súkkulaðið.  Setja í lítil form og kæla.