Tuesday, December 18, 2012

Hollar hnetusmjörskökur með banana

Tíminn er svo fljótur að líða á aðventunni.  Því miður er ekki nægur tími í tilraunir í eldhúsinu, þetta er líka tíminn þar sem maður heldur fast í gamlar hefðir.  Ég hef samt reynt að hollustuvæða gamlar og góðar smákökuuppskriftir eftir fremsta megni þó svo að sjálfsagt megi gera betur.  Hér á eftir fylgir með einföld og góð uppskrift af hnetusmjörskökum, sem eru næstum alveg sykurlausar.  Ég breytti hér gamalli sykur uppskrift frá mér eftir að hafa fengið góða hugmynd á netinu um hvernig best væri að hollustuvæða.  Breytingarnar gera það að verkum að kökurnar verða mjög mjúkar í sér, en bananinn í kökunum sér til þess að þær geymast ekki eins vel og þær þarf að geyma í kæli. En í staðin eru þær fullar af hollustu.

2-3 vel þroskaðir bananar
1/3 bolli hnetusmjör (lífrænt að sjálfsögðu)
2-3 msk mjólk (má nota soyja, rís eða möndlumjólk)
2 msk agavesýróp (má jafnvel minnka ef bananarnir eru mjög sætir)
1 stórt egg eða jafnvel 2 lítil
1 tsk vanilluduft
2 1/2 bolli haframjöl
1/3 bolli gróft spelt
1/2 tsk kanill
1/4 tsk negull
lófafylli af rúsinum

Byrja á að stappa bananana alveg í mauk. Blanda saman í hrærivél bönunum, hnetusmjöri, mjólk, agave og eggi.  Blanda vel saman.  Gæti þurft að skafa aðeins niður inn á milli þar sem hnetusmjörið getur verið dáldið stíft.  Bæta svo þurrefnunum saman við og blanda vel saman.  Setja með teskeið á plötu og þjappa örlítið niður.    Baka við 175° í 15-20 mínútur.

Thursday, November 29, 2012

Möndlubiscotti með súkkulaði og appelsínukeim

Mér finnast biscotti kökur alltaf jafn góðar.  Þær eru sérstaklega góðar hvort sem er með kaffi eða te, ekki of sætar en samt með örlitlum sætum keim oft nóg til að slökkva á sætindaþörfinni.  Biscotti kökur eru almennt séð ekki svo óhollar og auðvelt er að breyta flestum biscotti uppskriftum til hins betra.  Aðalmálið er hvíta hveitið og hvíti sykurinn fari út og setja inn hollara hráefni í staðin. Biscotti innihalda yfirleitt ekki mikla olíu, en mikilvægt er að huga að því að sú olía sem notuð er sé sem minnst unnin.
Hér kemur nokkuð einföld og góð uppskrift, sem ég nota sem grunnuppskrift en auðvelt er t.d. að skipta út hnetutegund, bæta við kryddi eða hvað það er sem hugurinn girnist.



2 bollar gróft spelt eða glúteinlaust mjöl að eigin vali
2/3 bolli kókossykur eða pálmasykur
1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk salt
1 tsk vanilluduft, hreint
3 egg
2 msk kókosolía
1/3 bolli gróft saxaðar möndlur
50 g smátt saxað dökkt súkkulaði
2 msk rifinn appelsínubörkur

Blanda saman þurrefnum í eina skál.  Setja egg og kókosolíu (fljótandi) í aðra skál og píska vel saman.  Blanda eggjablöndunni saman við þurrefnin, blanda vel saman og hnoða svo saman á borði.  Skipta deiginu í tvennt og gera tvær lengjur, hvor um 5-6 cm breið og 2-3 cm þykk (hjá mér varð lengdin ca. 15-18 cm).  Setja lengjurnar á pappírsklædda plötu og inn í ofn.  Bakað í 25-28 mínútur við 165°.  Taka þá lengjurnar út og leyfa þeim að kólna í ca. 10-15 mínútur. Lækka í ofninum niður í 150°.  Skera þær þá í sneiðar ca. 1 1/2 -2 cm þykkar.  Leggja sneiðarnar á bökunarplötu og baka í 10-12 mínútur (við 150°).  Taka aftur úr ofninum og leyfa þeim að kólna og storkna aðeins á plötunni.

Wednesday, November 28, 2012

Möndlusmákökur

Prófaði að gera þessar einföldu og fínu smákökur.  Þær komu bara nokkuð vel út. Fullar af góðum næringarefnum.  En þar sem að ég á erfitt með að finna möndlumjöl í búðunum hér þá hef ég malað sjálf möndlurnar í mél.  Þannig verður möndlumjölið þó talsvert grófara heldur en maður kaupir í búð.  Kökurnar verða því dáldið lausari í sér með grófara mjöli.  Ég hef því skipt út hluta af möndlumjölinu næstum helmingi fyrir fínna mjög eins og spelt.  En að sjálfsögðu má nota annað glútenlaust mjöl.



1 2/3 bolli möndlumjöl eða að hluta annað mjöl
1/4 bolli kókosolía við stofuhita
2 msk agavesýróp
1 1/2 tsk vanilluduft
1/2 tsk gróft salt
3/4 tsk vínsteinslyftiduft
50 g dökkt súkkulaði smátt saxað

Blanda saman í matvinnsluvél möndlumjöli, kókosolíu og agave og láta ganga í smá stund. Bæta hinum hráefnunum saman við og blanda vel saman.  Útbúa litlar kúlur og þrýsta svo létt á þær til að fletja þær örlítið út.  Setja á plötu og baka við 170° í 10-12 mínútur.

Wednesday, November 21, 2012

Holl og góð súkkulaðimús

Ég hef séð margar útgáfur af þessari súkkulaðimús á netinu.  Þetta er afskaplega einfalt og fljótlegt að útbúa.  Ég set hérna inn mína útgáfu sem ég er samt alltaf að breyta og reyna að bæta.  Aðaluppistaðan er avokado.  Til að sæta músina nota ég döðlur, agavesýróp og stundum smá banana.
Avokado er oftast flokkað sem grænmeti, en þó eru ekki allir á sama máli um það.  Avokado inniheldur talsvert af fitu, en það er góð fita sem við höfum bara gott af sé hún ekki í allt of miklu magni.  Að auki er avokado afskaplega næringarríkt og er góð uppspretta B- og C vítamína.  Það er því óhætt að láta eftir sér svona súkkulaðimús annars lagið.

Þessi uppskrift dugar fyrir 3-4.



2 vel þroskuð avokado
5-6 döðlur legg þær í bleyti í örlitlu vatni.
2-3 tsk agavesýróp. (set stundum 1 lítinn banana með og þá minnka ég sýrópið).
3 msk dökkt lífrænt kakó
smá klípa af grófu sjávarsalti
1 tsk vanilluduft
1 msk rifinn appelsínubörkur

Byrja á að vinna döðlur og avokado vel í matvinnsluvél það er í lagi þó að það fari örlítið vatn með döðlunum.  Bæta hinum hráefnunum saman við og hræra vel í matvinnsluvélinni.  Það borgar sig að smakka til og bæta út í smá agave sýrópi ef þarf.
Bera fram með ferskum ávöxtum.

Kjúklingur í kryddaðri ávaxtasósu

Já passið ykkur... það kemur svo yndislega góð lykt í kotið þegar þessi réttur er í pottinum. Í huganum er maður kominn til fjarlægra landa.  Rétturinn er sætur á bragðið með góðum kryddkeim.  Sæta bragðið kemur hins vegar eingöngu frá ávöxtunum þurrkuðum og ferskum.  Enginn sykur eða sætuefni eru notuð eins og svo oft í svipaða rétti.



1 rauðlaukur smátt skorinn
4 hvítlauksrif marin
2 msk kókosolía

salt
pipar
1-11/2 tsk garam masala
1-11/2 tsk paprikuduft
1 tsk túrmerik

4-6 kjúklingabringur skornar í bita

Mýkja lauk og hvítlauk aðeins í olíunni.  Setja kryddin á pönnuna og hræra vel.  Kjúklingabitum bætt við og brúnaðir í kryddblöndunni.  

1 dós kókosmjólk
1 bolli þurrkaðir ávextir, gróflega skornir. Mér finnst best að nota döðlur í grunninn en bæta svo í aprikósum eða rúsínum.
1 mangó vel þroskað skorið í bita
1 epli skorið í bita
1 persimon (khaki) smátt skorið (má sleppa)
1 dl kasjú hnetur (má sleppa)

Hella kókosmjólk yfir kjúklinginn ásamt ávöxtunum.  Leyfa þessu að malla dáldið vel eða í ca. 20 mínútur. Sósan þykknar og dökknar eftir því sem þetta sýður lengur.  
Svo er bara að smakka til og bæta við kryddi eftir þörfum.  

Bera fram t.d. með sætri kartöflumús og góðu salati.  


Thursday, November 15, 2012

Hressandi mangó smoothie

Það er yndislegt að byrja daginn á hollum og góðum smoothie.  Möguleikarnir eru svo margir.  Margir vilja bæta próteindufti út í sína drykki, en ég hef lítið verið að eltast við það enda er ég ekki að reyna að byggja upp vöðvamassa neitt sérstaklega.  Ég borða bæði kjöt og fisk, ásamt kornvöru og hnetum og fæ því talsvert af próteini þar sem ég læt yfirleitt duga.  En fyrir þá sem vilja auka próteininntöku þá er ekkert að því að bæta próteindufti út í drykkina.
Mangó er einn af mínum uppáhalds ávöxtum.  Það er bæði sætt, safaríkt og bragðgott, ásamt því að vera trefjaríkt og innihalda mikið af nauðsynlegum vítamínum og næringarefnum.



1 lítið mangó, eða 1/2 stórt (mátulega þroskað)
1 stór appelsína (rúmlega 1 dl af safa)
1 tsk rifið engifer
2 msk sítrónusafi
1/2 tsk rifinn sítrónubörkur
ísmolar

Byrja á að skera mangóið í teninga og setja í blandarann.  Pressa safann úr appelsínunni og sítrónunni í gamaldags handpressu (það nota allir safavélar orðið). Rífa engiferið og sítrónubörkin og bæta öllu í blandarann.  Vinna vel í ca. 1 mínútu.  Gott að bæta ísmolum saman við.  Hella blöndunni í glas og njóta þess að drekka í sig alla hollustuna.

Athugið að það er auðveldlega hægt að útbúa þennan drykk þó að ekki sé til blandari á heimilinu.  Vel þroskað mangó er það mjúkt að það er auðvelt að skella því hreinlega bara í hrærivélina ásamt hinum hráefnunum, nú eða í matvinnsluvél.

Wednesday, November 14, 2012

Muffins með höfrum og rúsínum

Muffins þurfa ekki alltaf að vera dísætar og sykurhúðaðar til að vera góðar.  Oftast er auðvelt að breyta gömlu uppskriftunum og minka sykurmagnið eða jafnvel breyta um sætuefni, eins má skipta út hveiti fyrir spelt eða jafnvel eitthvað annað.  Þetta er gömul uppskrift sem ég átti í fórum mínum sem ég er búin að breyta aðeins og hollustuvæða.  Þessar muffins verða ekki of sætar og mér finnst þær bestar volgar með smjöri og osti, en þær eru líka fínar án þess.  Þær geymast líka ágætlega í frysti.



1 1/2 bolli vatn
1 1/2 bolli hafrar helst tröllahafrar
120 g smjör
2 egg þeytt
1/2 bolli hunang (ég nota aðeins minna hunang en bæti aðeins við rúsínurnar í staðin)
1 tsk salt
1 tsk kanill
1 1/2 tsk natrón
1 1/2 tsk vanilluduft
1 bolli gróft spelt
1 bolli rúsínur

Hita vatnið að suðu og bæta höfrum út í.  Láta standa í 2-3 mínútur.  Bæta smjöri út í bræða það í hafrablöndunni og hræra í á meðan.  Leyfa blöndunni að kólna í stutta stund. Bæta hunangi út í og blanda vel saman. Þeyta eggin og blanda saman við.  Bæta svo öllum þurrefnum saman við og blanda vel. Að lokum eru rúsínurnar settar út í.  Skella þessu í muffinsform.  Baka við 170° í ca. 20 mínútur.

Wednesday, November 7, 2012

Súkkulaðisósa

Set hér inn að gamni uppskrift af súkkulaðisósu sem ég hef stundum gert svona spari og nota þá ofan á ferska ávexti, kökur og fleira.

2 dl kókosolía fljótandi
1 1/2 dl kakó helst dökkt og lífrænt
1/2 dl agavesýróp

Bræða kókosolíuna yfir vatnsbaði ef hún er í föstu formi. Hræra svo öll hráefnin rólega en vel saman.  Það getur verið mjög gott að setja smátt saxaðar hnetur um 1/2 dl út í sósuna til tilbreytingar.

Orku jólakúlur

Póstkassinn er fullur af alls konar jólabæklingum á hverjum degi og maður þarf að kíkja á dagatalið bara til að vera viss um að það sé örugglega bara nóvember ennþá og nægur tími til jóla.  Því miðað við ógrynnið af jólatilboðum sem kemur hér inn gæti maður haldið að jólin væru bara í næstu viku. En það er víst nægur tími til stefnu.  En það er nú samt þannig að þó svo maður byrji nokkuð snemma á jólaundirbúningi þá vill samt alltaf verða dáldið mikið að gera hjá manni þegar nær dregur.  Þá er voða gott að hafa orkuríkar jólakúlur til að narta í þegar annríkið verður sem mest.  Þær eru sætar og bragðgóðar og innihalda ekki þessi leiðindaefni sem eiga það til að hreinlega sjúga úr manni orkuna.  Það tekur ekki nema örfáar mínútur að útbúa kúlurnar.  Til að gera kúlurnar að enn meira sælgæti er hægt að velta þeim upp úr súkkulaðisósu sjá t.d. uppskrift hér.  Það er rosalega gott, en ég geri það bara svona alveg spari, enda eru kúlurnar líka fínar bara svona án sósu.

Uppistaðan í þessum kúlum eru kasjúhnetur og rúsínur.  Orkurík hráefni sem innihalda jafnframt mikið af nauðsynlegum vítamínum og steinefnum ásamt því að innihalda andoxunarefni.  Kærkomin blanda fyrir aðventuna.



3 1/2 dl kasjúhnetur
3 tsk kanill
2 tsk kardimommur
1 tsk múskat
1 tsk vanilluduft
2 dl rúsínur
2 msk agavesýróp

Vinna hneturnar í matvinnsluvél þar til þær eru orðnar gróft mjöl.  Bæta þá í kryddum og blanda aðeins saman.  Setja rúsínur út í og agavesýrópið og vinna vel saman.  Ef blandan er of þurr til að hægt sé að móta kúlur úr henni er hægt að setja 1-2 msk af vatni út í, bara bæta við örlitlu í einu.  Þá er bara að móta kúlur úr blöndunni.  Ég fæ um 12-15 kúlur úr þessari blöndu.  

Saturday, November 3, 2012

Gulrótakúlur (hráar)

Yndislegar litlar hráar kúlur sem minna helst á gulrótarkökur. Algjört sælgæti en samt hollt.  Uppistaðan í kúlunum ásamt gulrótum eru möndlur.  Möndlur eru afskaplega próteinríkar og eru ríkar m.a. af E vítamínum, magnesium og járni.  Þær innihalda líka mikið magn af kalki og eru einn besti kalkgjafinn úr jurtaríkinu og því kjörnar fyrir þá sem ekki neyta mjólkurafurða.  Þær eru einnig ríkar af omega 3 fitusýrum.  Möndlur eru orkuríkar og því tilvaldar fyrir t.d. hlaupara og annað íþróttafólk.  Nú eða bara sem nammi :)



3/4 bolli möndlur
6-8 döðlur (ég nota stórar mjúkar), gott að bleyta aðeins í volgu vatni áður
1/3 bolli kókosflögur (má líka nota kókosmjöl)
2 meðalstórar gulrætur rifnar
1/2 msk kanill
1/4 tsk negull
nokkur korn mulið sjávarsalt
4 msk kókosmjólk (má nota kókosolíu líka, mér finnst best að nota hvoru tveggja)

Möndlurnar eru malaðar í mjöl í matvinnsluvél.  Fjarlægja mjölið úr skálinni.  Vinna döðlur og kókosflögur í gott mauk í matvinnsluvélinni.  Ef þarf er hægt að bæta aðeins kókosmjólk út í eða olíu.
Bæta möndlumjölinu aftur út í ásamt kryddi og gulrótum.  Blanda vel saman.  Bæta við kókosmjólk eða kókosolíu eftir þörfum.
Móta litlar kúlur og geyma þær í kæli.

Friday, November 2, 2012

Appelsínumarineraður lax

Einfaldur og góður laxaréttur.  Þessa uppskrift fann ég á gömlum handskrifuðum miða hjá mér, þar var reyndar púðursykur í uppskriftinni.  Ég prófaði hreinlega að sleppa honum alveg. En fyrir þ.á sem vilja hafa marineringuna sætari þá mæli ég með að nota örlítið hunang eða annað náttúrulegt sætuefni.  En það ætti ekki að þurfa. Tamarisósan eða sojasósan milda fitubragðið sem stundum er af laxinum og hann verður mjúkur og góður.  Appelsínusafinn gefur afskaplega gott bragð.



6-8 laxabitar

Raða laxabitunum í eldfast mót.

safi úr einni stórri appelsínu
rifinn appelsínubörkur um 1 msk.
5 msk tamarisósa eða soyjasósa
2 marin hvítlauksrif
1-2 cm rifinn engifer
1/2 púrrulaukur eða 4-5 vorlaukar, smátt skorið

Blanda öllu vel saman og hella yfir laxinn. Leyfa laxinum að standa í marineringunni í 1-2 klst.  Baka svo í ofni við 200° í 15 -20 mín.  Bera fram með góðu salati, appelsínusneiðum, sætum kartöflum og grófum hrísgrjónum.

Tuesday, October 30, 2012

Holl og góð heimagerð pastasósa

Það er reyndar ekki borðað mikið af pasta á mínu heimili, en þó stöku sinnum svona til tilbreytingar.  Sjálfri finnst mér ágætt að geta gripið í pastarétti þegar brjálað er að gera og lítill tími í eldamennsku.  Ég kaupi nánast alltaf gróft speltpasta og þá heilhveitipasta ef hitt fæst ekki.
Pastasósan sem hér kemur á eftir er einfalt og fljótlegt að útbúa og er alls ekki síðri en tilbúnar pastasósur úr búðinni og auðvitað hollari.  Það er svo hægt að nota kjúkling, túnfisk eða eitthvað annað með sósunni.

1 stór laukur
4 hvítlauksrif
2 msk olía (kókos)
3 gulrætur meðalstórar
salt
pipar
basilika fersk ca. 2 stilkar smátt saxað
1-2 grænmetisteningar lífrænir
2 dósir lífrænir niðursoðnir tómatar eða ferskir tómatar.  (ég nota oft eina dós og svo ca. 3 ferska með).
1-2 dl vatn

Byrja á að skera lauk og hvítlauk mjög smátt.  Ég skelli þessu oft bara aðeins í matvinnsluvélina til að spara tíma.  Mýkja svo laukinn aðeins í olíunni við vægan hita.  Bæta rifnum gulrótum út í ásamt ferskri basiliku.  Þá er að setja tómatana út í.  Ef þeir eru ferskir þarf að gera ráð fyrir aðeins lengri tíma í suðu. Best finnst mér að blanda saman niðursoðnum og ferskum.  Nú er bætt í örlitlu vatni ásamt salti, pipar og grænmetiskrafti.   Svo er bara að smakka til.  Stundum hefur mér þótt sósan aðeins of súr og þá hef ég sett örlítið af hunangi út í, kanski 1/2 - 1 tsk.   Í lokin set ég sósuna örstutt í blandarann eða matvinnsluvélina til að fá betri áferð á hana.

Tuesday, October 16, 2012

Októbersúpa með graskeri og rauðu karrý

Það er svo yndislegt að fá góða súpu sem yljar manni um kroppinn í haustkuldanum.  Hér í Noregi hjá mér hefur snöggkólnað síðustu daga og nú rignir líka endalaust.  Heit og góð súpa var því kærkomin.  Október er auðvitað tími graskeranna og því upplagt að grípa með fallegt grasker í búðinni.  Grasker nýtast líka vel. Hægt er að nota aldinkjötið sjálft í súpu eins og þessa sem kemur hér á eftir og í alls konar rétti, fræin eru svo góð í salöt, bakstur eða bara ristuð á pönnu og borðuð sem snakk. Graskerin eru trefjarík og hafa jákvæð áhrif á kólesteról í líkamanum. Þau innihalda mikið magn af hinum nauðsynlegu betakarótínum, sem eru meðal annars góð fyrir sjónina, frumuskiptingar, bein og húð.
Ég kem örugglega með fleiri graskersuppskriftir á næstunni, enda er enn talsvert eftir af graskerinu.

7-800 g grasker (aldinkjötið) skorið í bita.  (ég var með grasker sem var tæp 3 kg og notaði tæplega helminginn af því sem gaf þá um 800 g af aldinkjöti).

2 msk olía, t.d. kókosolía

Byrja á að skera graskerið í bita eða teninga.  Setja þá í eldfast mót og smá olíu yfir.  Baka í ca. 30 mín við 180°C.

1 stór laukur
3 hvítlauksrif
2 msk rautt karrýmauk (farið samt varlega, getur verið missterkt eftir tegundum)
salt
pipar
1 l vatn
11/2 teningur kjúklingakrafur lífrænn
1 krukka af niðursoðnum kjúklingabaunum eða soðnar heima svipað magn.
kókosmjólk, bæta í eftir smekk, ég notaði um 2 1/2 dl.
1/2 tsk cumin duft
1/2 tsk múskat

Á meðan graskerið mýkist í ofninum er súpan sjálf löguð.  Skera lauk og hvítlauk smátt.  Mýkja í olíu í góðum potti.  Bæta við karrímaukinu, salti og pipar.  Setja vatn út í ásamt kjúklingabaunum og krafti.  Leyfa að sjóða í nokkrar mínútur.  Krydda með cumin og múskati.
Þegar graskersbitarnir eru tilbúnir í ofninum er þeim bætt út í súpuna ásamt dálítilli kókosmjólk.  Þá er að mauka súpuna með töfrasprota eða setja hana í smáskömmtum í matvinnsluvélina.
Ná svo suðunni aftur upp í pottinum, þynna með kókosmjólk ef þarf og auðvitað smakka til.

Thursday, September 20, 2012

Hafrabitar

Ótrúlega einfaldir og góðir bitar sem er gott að grípa í þegar manni langar í eitthvað að narta.  Það er enginn sykur eða sætuefni þessum bitum, döðlurnar sjá um að setja smá sætan keim í bitana. En hnetubragðið fær að njóta sín vel.  Þetta er því hollusta út í gegn.  Hægt er að leika sér svo mikið með hráefnin í þessari uppskrift, setja alls konar fræ, hnetur, þurrkaða ávexti og jafnvel banana og súkkulaði.  Ég hef prófað að setja pínu súkkulaði út í og það var rosalega gott.  Ég hef líka prófað að gera þessa uppskrift aðeins breytta og þá notað hana sem kökubotn með ferskum ávöxtum og rjóma.  Ég set fljótlega inn þá útgáfu.



3 1/2 dl haframjöl, ég nota tröllahafra
1 dl saxaðar valhnetur eða aðrar hnetur
1 dl döðlur skornar í bita, rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir
1/2 dl fræblanda, t.d. hörfræ, sesam, grasker, sólblóma.
1 tsk kanill
1 tsk sjávarsalt
1 tsk vanilluduft
1 egg
3 dl mjólk

Blanda saman þurrefnunum ásamt döðlum eða rúsínum. Hræra eggið og bæta mjólkinni í. Hella eggjablöndunni yfir þurrefnin og blanda vel.

Setja blönduna í lítið ferkantað form eða í eldfast mót.  Smyrja formið eða hafa bökunarpappír undir.  Baka í 35-40 mín. við 175°.

Leyfa bökunni að kólna í smá stund.  Skera svo í mátulega bita með pizzuhjóli eða góðum hníf.
Hægt er að pakka hverjum bita í plast og geyma í frysti, grípa svo með sér í nesti.


Tuesday, September 18, 2012

Kryddað haframúslí með hnetum

Morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins ekki satt?  Það er mikilvægt að byrja daginn á hollum og góðum morgunverði sem gefur manni rétta næringu og orku til að takast á við verkefni dagsins.  Oftast fæ ég mér einhvers konar útgáfu af hafragraut, chiagraut og/eða smoothie, en stundum er líka gott að breyta aðeins til.  Á Íslandi keypti ég oft múslí frá Himneskt og notaði út í ABmjólk eða jógúrt.  Hér úti hef ég hins vegar ekki fundið "rétta múslíið" ennþá. Þannig að þá er bara að búa það til, enda er það líka í langflestum tilfellum miklu hollara en búðarmúslíið.  Það er frekar einfalt að útbúa sitt eigið múslí og í raun getur maður leikið sér endalaust með hráefnin.  Ég ákvað að breyta til og hafa mitt aðeins kryddað með örlítið sætum keim og ilmurinn...maður lifandi, mætti halda að það væru komin jól bara ;)

3 dl tröllahafrar
4 msk hörfræ
1/2 dl kókosflögur
1/2 dl möndlur
1/2 dl valhnetur eða aðrar hnetur
1 1/2 tsk kanill
1 tsk vanilluduft
6 tsk kókosolía (fljótandi)
3 tsk agave sýróp

rúsínur/döðlur

Saxa hnetur og möndlur smátt.  Blanda saman öllum þurrefnum.  Blanda saman sýrópi og kókosolíu og hella svo yfir þurrefnin og blanda mjög vel saman.  Setja í eldfast mót og baka við 150° í um 1 klst eða þar til það er orðið vel þurrt.  En mikilvægt er að hræra vel upp í blöndunni á um 15 mínútna fresti.
Þegar múslíið hefur kólnað er rúsínum eða döðlubitum bætt í.

Múslíið er svo geymt í góðu íláti.  Notað á AB mjólkina eða í jógúrtina með ávöxtum.  Svo er líka hægt að útbúa svona sætt parfait ;)


Monday, September 17, 2012

Bakaður lax með sinnepsgljáa

Enn og aftur kem ég með uppskrift af lax.  En við hjónin höfum ekki enn fundið aðra fisktegund hér í Noregi sem okkur finnst virkilega góð.  Við höfum aðeins notað þorskinn, en okkur finnst báðum vera eitthvert aukabragð af honum sem við kunnum ekki við.  En laxinn hér er virkilega góður og getur verið nokkuð ódýr máltíð ef maður kaupir frosin laxafile.  Ég hef því verið að prófa mig áfram með ólíkar uppskriftir af laxinum.  Þessi uppskrift er algjört sælgæti, þó svo að mér finnnist þurfa fullmikið af hunangi í hana, en það skaðar kanski ekki svona stundum.



6-8 laxastykki

Raðað á ofnplötu eða stórt eldfast mót

1/2 dl dijon sinnep
2-3 tsk hunang

Hrært saman og smurt ofan á laxinn.

2 tsk dill
salt
pipar

Strá yfir laxinn.

1 rauðlaukur
4 hvítlauksgeirar

Saxa smátt niður og dreifa yfir laxabitana.

Baka í ofni við ca. 180° í 20 mínútur.
Bera fram með brúnum hrísgrjónum, grænmeti og góðri jógúrtsósu.

Saturday, September 15, 2012

Möndlukaka

Þessi kaka er afskaplega einföld og fljótleg.  Einnig er hægt að útbúa botn fyrirfram og eiga í frysti.  Uppistaðan er möndlumjöl, það fæst í heilsubúðum. En það er einnig hægt að útbúa mjölið með því að mala möndlur í fínan salla í matvinnsluvél.  Mér finnst betra að setja örlítið gróft spelt með í uppskriftina, finnst kakan annars verða lausari í sér, en það er vel hægt að sleppa speltinu alveg og þá er kakan glútenlaus.  Möndlur eru afskaplega næringaríkar og hafa góð áhrif á kólesteról.  Þær eru jafnframt taldar vinna gegn krabbameini.  Ég hef útbúið botninn bæði með xylosweet, kókossykri og hrásykri, en það er líka hægt að nota pálmasykur. Svo er hægt að leika sér með mismunandi útfærslur á fyllingu á kökuna.




65 g kókosolía (fljótandi)
1 egg
1 1/4 dl mjólk (gott að velgja hana aðeins)
100 g möndlumjöl, eða möndlur malaðar vel í matvinnsluvél
4 msk gróft spelt
3 tsk vínsteinslyftiduft
75 g pálmasykur, kókossykur, xylosweet eða annað slíkt

50 g dökkt lífrænt súkkulaði
ferskir ávextir

Blanda vel saman með handþeytara kókosolíu og eggi.  Passa að eggið sé ekki alveg kalt, því þá fer kókosolían í kekki.  Blanda mjólkini saman við.

Í annarri skál, blanda saman þurrefnunum.  Bæta þeim svo saman við vökvann og blanda vel.
Setja blönduna í smurt form (ca. 20-24 cm) og baka við 200° í ca. 25 mín.

Bræða 50 g af dökku lífrænu súkkulaði yfir vatnsbaði og setja þunnt lag af súkkulaði yfir botninn.  Skreyta svo með ferskum ávöxtum og bera ef til vill fram með þeyttum rjóma.

Sunday, September 9, 2012

Sætt helgarnammi

Í helgarlok vill sætindaþörfin vera dáldið sterk.  Þá er gott að útbúa sér sætindi, sem þagga alveg niður í sykurpúkanum hjá manni, en er samt sætt og gott.  Þessar kúlur innihalda döðlur sem gefa mjög sætt bragð og möndlur sem hafa jákvæð áhrif á blóðsykurinn.  Það er svo hægt að leika sér með annað innihald allt eftir því hvað manni finnst gott.  Ég hef líka sett stundum pínu haframjöl út í eða fræ.  Svo er ekki slæmt að stinga eins og tveimur kúlum með í nestispakkann.



14-15 döðlur (frekar stórar)
80 g möndlur
70 g kókosmjöl
3 msk dökkt lífrænt kakó
1 tsk vanilluduft
2 msk kókosolía
1 msk agave sýróp

Allt sett saman í matvinnsluvél og maukað vel saman.  Þetta verður dáldið laust í sér en það á samt að vera hægt að móta kúlur.  Ef það gengur illa, þá er bara að skvetta örlitlu vatni út í og blanda betur.  Þetta ættu að verða svona 15-18 kúlur.

Það er svo hægt að leika sér aðeins með hráefnin í þessu og setja jafnvel örlítið hnetusmjör út í, kakónibs eða jafnvel aðrar hnetur eða fræ. Ef vill er líka hægt að velta kúlunum upp úr kókosmjöli, kakói eða muldum hnetum.

Friday, September 7, 2012

Grænmetisbaka

Það er einfaldara en maður heldur að útbúa holla og góða grænmetisböku.  Upplagt að nýta líka grænmetisafganga sem til eru á heimilinu í bökuna.  Mér finnst gott að nota zucchini, þar sem það er bragðmilt og börnin því ekkert að kvarta.  Góð baka sómar sér vel sem kvöldmatur með góðu salati, eins getur hún verið gott meðlæti með öðrum mat.  Afgangar nýtast vel í nestisboxið.




Botn:

220 g gróft spelt
6 msk volgt vatn
4 msk ólífuolía
1 tsk sjávarsalt

Hræra öllu saman í skál, hnoða svo betur saman á borði. Passa að hnoða ekki of mikið samt.  Ef degið er þurrt þá bæta við aðeins meira vatni og olíu.  Fletja deigið út þannig að það nái að hylja bökuformið. Ætli ég sé ekki að nota form sem er um 22 cm.  Deigið á að ná vel upp á barmana.  Mér finnst best að fletja deigið út með plasti undir og yfir, þannig að það þarf minna hveiti og það klessist síður og er mun snyrtilegra.  Þrýsta deiginu svo vel niður í formið.

Fylling:

3-4 meðalstórar gulrætur
1 stórt zucchini
4 egg
1/4 dl mjólk
salt og pipar (mér finnst gott að nota herbamare salt)
smá rifinn ostur eða t.d. kotasæla. Ég setti um 1 dl af kotasælu. Má samt sleppa.

Hreinsa gulrætur og skera þær í litlar sneiðar.  Raða þeim ofan á botninn.  Skera zucchini í þunnar sneiðar (ég nota flysjara) og raða þeim yfir botninn.

Hræra vel saman egg, mjólk og krydd. Bæta osti út í ef hann er notaður og blanda vel saman.  Hella blöndunni yfir grænmetið og botninn.

Baka í ofni við 200° í ca 30 mín.


Wednesday, September 5, 2012

Muffins með gulrótum og rúsínum

Skólinn hjá börnunum er byrjaður með öllu tilheyrandi, heimalærdómi og nesti.  Þau fá ekki hádegismat í skólanum hérna eins og heima á Íslandi, þannig að ég þarf að senda þau með gott nesti í skólann.  Þau fá reyndar ávöxt í skólanum á morgnana, en allt annað þurfa þau að koma með að heiman.  Mér finnst mikilvægt að börnin fái góða næringu í skólanum og legg mig því fram við að gera gott og girnilegt nesti fyrir þau.  Ég tala nú ekki um þegar maður er með táning á heimilinu.  Því miður sér maður alltof mikið af krökkum úti í sjoppu eða bakaríi á skólatíma og við vitum vel að þau eru ekki þar til þess að kaupa sér grófkornabrauð og grænmetislasagne.

Til að börnin (já eða við hin) borði nestið sitt sem þau taka með sér að heiman verður það að vera eitthvað sem þeim finnst gott, skikkanlega sett fram (svo ég hljómi nú eins og gamall leiðarvísir fyrir húsmæður frá 1950) og auðvitað þarf nestið að vera svolítið fjölbreytt.  Það er lítið spennandi að taka alltaf upp bónusbrauð með osti eða einn banana.



Hér fyrir neðan er uppskrift af muffins sem eru hollar og góðar og sóma sér vel í hvaða nestisboxi sem er.  Þær eru ekki mjög sætar en samt með svona smá sætabrauðsbragði.  Það er hægt að skera þær í sundur og setja alls konar álegg á þær.  Það er líka hægt að setja meira af grófum fræjum í uppskriftina.



1 1/2 bolli gróft spelt
1/2 bolli haframjöl
3 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk salt (sjávarsalt)
1 tsk kanill

Öllu þessu er blandað saman í eina skál.

1 msk hörfræ
1 msk chia fræ
1 1/3 bolli léttmjólk eða soyjamjólk
1/3 bolli ólífuolía
2 egg
2 tsk agave sýróp

Blanda þessum hráefnum saman í aðra skál og hræra lítillega. Leyfa að standa í ca. 5 mínútur.

1 stór vel þroskaður banani
1 tsk vanilluduft
3-5 rifnar gulrætur (meðalstórar) verða ca. 2 bollar

Stappa bananann og blanda þessum hráefnum saman í þriðju skálina.

Blanda banana- og gulrótarblöndunni saman við vökvann.  Blanda því svo öllu saman við þurrefnin.  Hræra vel saman en gæta þess að hræra ekki of mikið.

3/4 bolli rúsínur

Bæta rúsínum út í blönduna og blanda vel saman við.

Setja í muffinsform og baka við 175° í um 25 mín.

Athugið að þær lyfta sér ekki mikið þessar, þannig að ég set aðeins meira í muffinsformin heldur en ég geri venjulega þegar ég baka muffins.

Þar sem að þessar muffins eru ekki mjög sætar, þá eru þær mjög góðar með smjöri og osti.

Tuesday, September 4, 2012

Hafrakex

Ég hef alltaf verið hrifin af hafrakexi.  Mér þykir það afskaplega gott með góðum osti, sultu eða jafnvel með ávöxtum.  Það fer líka vel með hvort sem er kaffi eða tei.  Hafrakexin sem maður kaupir úti í búð eru hins vegar með hvítt hveiti og sykur sem aðaluppistöðu, svo koma hafrarnir.

Ég hef verið að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem bragðið nýtur sín, en hollustugæðin eru líka í fyrirrúmi.  Hér birti ég eina af útgáfum mínum.  Aldrei að vita nema ég komi með fleiri útgáfur af hafrakexum hér síðar.  Þessi uppskrift er venjulega um 14-15 kökur, þannig að oft tvöfalda ég uppskriftina til að eiga nóg til því þær klárast nokkuð fljótt þessar.


 

2 bollar tröllahafrar
1/2 bolli gróft spelt
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk fínt sjávarsalt
1 stórt egg, við stofuhita helst
3 msk brætt smjör
2 msk hunang eða agave

Hafrarnir eru fínmalaðir í matvinnsluvél.  Síðan er öllum þurrefnum blandað saman í skál.
Blanda eggi, bræddu smjöri og hunangi saman við þurrefnin og blanda vel saman með sleif.  Þegar degið er farið að loða vel saman er það hnoðað á borði.

Athugið að bollamál hjá fólki geta verið mismunandi. Deigið á það til að verða full þurrt hjá mér, þá bæti ég örlitlu smjöri út í til viðbótar, jafnvel smá vatni.  Annars er mikilvægt að nota stórt egg, eða þá jafnvel tvö lítil.

Þegar deigið er komið vel saman er það flatt út þar til það er um 1/2 cm á þykkt.  Mér finnst best að fletja út með plast undir og yfir, það klessist mun minna og þá þarf ekki þetta auka hveiti sem gerir kexið bara þurrara.



Svo er að skera kökurnar út með góðu kökumóti.  Hnoða upp afskorningana og fletja út aftur.  Raða kökunum á pappírsklædda plötu og baka við 160° í 15-20 mín.  Leyfa kökunum að kólna og geyma þær svo í vel loftþéttu boxi, nú eða bara að borða þær strax.

Saturday, September 1, 2012

Norsk skyrterta

Ekki það að þessi uppskrift sé neitt norsk.  Mér hefur bara gengið dáldið illa að finna hráefnin í skyrterturnar sem ég geri venjulega, þannig að ég hef aðeins aðlagað mig að norsku vöruúrvali.  Venjulega geri ég botninn úr sykurlitlu hafrakexi sem ég hef keypt í heilsubúðum og stundum í Hagkaup, jafnvel blandað það með sykurlausu kexi með kanilbragði.  Kexúrvalið hér úti er hins vegar lítið og hvað þá af sykurlausum.  Þá er bara að bjarga sér og breyta aðeins út af vananum.  Ég er líka auðvitað með norskt skyr í þessu, en íslenska skyrið er að sjálfsögðu langbest.



Botn:

150 g möndlur
100 g haframjöl (gott að nota tröllahafra eða blanda saman)
1 tsk kanill
6 msk kókosolía
2 msk agave sýróp
örlítið af grófu salti mulið í.

Setja möndlur og haframjölið í matvinnsluvél og mala það nokkuð smátt.  Bæta hinum hráefnunum út í og setja vélina aðeins í gang aftur til að blanda þessu vel saman.  Þetta á ekki að verða að deigi, en á samt að geta klístrast örlítið saman.  Má bæta smá olíu út í og jafnvel smá vatni til að það loði betur saman.  Blandan er sett í botninn á bökuformi eða eldföstu móti.

Fylling:

2 litlar skyrdósir ( ég nota oftast vanillu eða bláberja, en í Noregi notaði ég vanillu/bláberjaskyr)
1 peli af rjóma
ávextir til að skreyta, t.d. bláber, vínber, bananar, jarðaber, kíwí, ég nota bara það sem til í ísskápnum.
smá dökkt súkkulaði rifið yfir. Það er sko enginn eftirréttur án súkkulaðis, enda er það meinhollt.

Þeyta rjómann og hræra skyrinu svo rólega saman við.  Dreyfa úr blöndunni yfir botninn og skreyta með ávöxtum.

Tuesday, August 28, 2012

Ofnbakaður lax með ristuðum möndlum, kókos og ferskjumauki

Við höfum ekki enn alveg fundið okkur í fiskinum hérna í Noregi, enda góðu vön heima á Íslandi.  Við kaupum aðallega frosinn þorsk og lax.  Þorskinn notum við aðallega í ofnrétti, en laxinn hér er verulega góður og gott að matreiða hann á alla vegu.  Nú var ákveðið að gera tilraun með ferskjumaukið góða sem gert var úr garðávöxtunum um daginn.  Útkoman var mjög góð.  Að sjálfsögðu er hægt að nota annars konar mauk í réttinn, s.s. mango chutney úr búð.



8 litlir laxabitar (má líka vera bleikja)
salt og pipar

8 tsk ferskjumauk eða annað chutney

1/2 dl möndlur saxa gróft niður
1/2 dl  kókosflögur

Laxinum er raðað í eldfast mót og kryddaður með salti og pipar.  Ég nota mikið Herbamare saltið í matargerð, það er sjávarsalt með kryddjurtum.

1 tsk af ferskjumauki er sett ofan á hvern laxabita og dreift úr.

Gott er að leyfa þessu að standa í smá stund ef tími gefst til.  Ég leyfi þessu að standa á meðan ég útbý meðlæti. Þá er að setja þetta inn í ofn á ca 180° í ca. 15 - 20 mín.

Á meðan laxinn er í ofninum rista ég saxaðar möndlurnar og kókosflögurnar á heitri pönnu í stutta stund.  Þegar um 5 mínútur eru eftir af bökunartímanum strái ég þessu svo yfir laxinn og leyfi að bakast með síðustu mínúturnar.

Laxinn er svo borinn fram með sætum kartöflum, hrísgrjónum, góðu salati og jafnvel jógúrtsósu.


Ferskjumauk - bragðmikið og gott

Í garðinum hjá okkur hér í Noregi er ferskjutré. Einhvern veginn virðist það vera þannig að allar ferskjurnar eru tilbúnar á sama tíma.  Það var því farið út að tína af trénu.  Við fylltum stóran pott af ferskjum.  Þær eru alveg rosalega sætar og bragðgóðar, en því miður þá geymast þær ekki nema nokkra daga í ísskápnum.  Það voru því góð ráð dýr að reyna að gera eitthvað sniðugt úr ferskjunum áður en þær skemmast.
Ég ákvað að reyna að gera einhvers konar chutney úr ferskjunum, eitthvað líkt og mango chutney.  Ég elska mango chutney, en því miður er yfirleitt svo mikill sykur í því, þannig að ég nota það sjaldan nú orðið.  Ég las innihaldslýsingu á mango chutney krukku í búðinni um daginn og reyndi að líkja eitthvað eftir því.  Ég var bara nokkuð sátt með útkomuna.  Ferskjuchutney með krydduðum undirtón sem er gott sem meðlæti með ýmsu kjöti eða fisk.  Það er örugglega líka gott að skipta ferskjunum út fyrir mangó eða jafnvel epli.  Ég skrifaði uppskriftina ekki nákvæmlega hjá mér, þannig að ég er aðallega að reyna að setja hana hér inn eftir minni.  En það er líka um að gera að smakka maukið til og bæta út í kryddum eftir eigin smekk.  



10 ferskjur afhýddar, steinhreinsaðar og skornar í bita.
1 stór laukur smátt skorinn
3 hvítlauksrif
1-2 cm af rifnum engifer
1/2 - 1 tsk kardimommur
1/2 - 1 tsk negull
1/2 tsk karrý
1/4 tsk cayanne pipar
1/2 dl eplaedik
2-3 tsk agave sýróp
smá salt

Öllu er skellt í pott og hrært vel í þar til suðan kemur upp.  Ég leyfði þessu að malla í um 40 mínútur á vægum hita og hrærði í annars lagið.  Svo er bara að skella maukinu í vel sótthreinsaðar krukkur og geyma í ísskáp.

Ferskjurnar voru mjög safaríkar, þannig að mér fannst ekki ástæða til að setja neinn auka vökva í uppskriftina, en líklega þyrfti að bæta í smá vatni eða jafnvel eplasafa ef um er að ræða ekki eins safaríka ávexti.  

Athugið að hér á blogginu má finna uppskrift af laxi þar sem þetta mauk er notað sem krydd.

Thursday, August 23, 2012

Hollari vöfflur

Vöfflur eru alltaf góðar.  Það er líka svo auðvelt að hollustuvæða hina hefðbundnu vöffluuppskrift.  Ég hef nokkrum sinnum fengið mér vöfflur í morgunmat.  Hollar og góðar heimagerðar vöfflur eru til dæmis mun betri kostur heldur en mörg af brauðunum sem við kaupum út í búð í góðri trú.  Það er líka svo margt hægt að setja ofan á vöfflurnar, þær þurfa ekki alltaf að vera með sultu og rjóma.  Best finnst mér að nota ferska ávexti í bitum og rífa síðan örlitið dökkt súkkulaði yfir.  Ef ég nota sultu kaupi ég sykurlausar sultur t.d. frá St. Dalfour eða að ég nota heimatilbúnar sykurminni sultur.  Svo er rjóminn auðvitað alltaf góður með vöfflunum, en hann er ekki nauðsynlegur.  Ég mæli með því að prófa að nota kókosrjóma, en hann er hægt að gera með því að geyma kókosmjólk í kæli, þá skilur hún sig að þannig að rjóminn stífnar en safanum er hellt frá.  Svo er bara að hræra vel í rjómanum til að hann verði aðeins loftkenndari.  (Það þýðir ekki að nota light kókosmjólk í þetta).  Vöffluuppskriftin sem hér fylgir er sú grunnuppskrift sem ég nota oftast, en stundum geri ég smá breytingar á henni.  T.d. skipti út hluta af speltinu fyrir malað haframjöl, eða annað mjöl.  Set jafnvel fræ út í degið.  Sólblómafræ eru til dæmis mjög góð með.  Nota mismunandi mjólkurtegundir fer bara eftir því hvað er til.  Eins er gott að skipta út hluta af smjörinu fyrir kókosolíu.  Ég hef líka prófað að setja einn vel þroskaðan banana út í, en á móti sleppt þá agave sýrópinu.  Það er bara um að gera að prófa sig áfram.  Þessi uppskrift dugar vel fyrir okkur fjölskylduna en við erum fjögur.  Svo er bara að margfalda þegar það koma gestir ;)

2 egg
1 msk agave
250 g spelt (helst gróft)
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk vanilluduft (má líka setja smá kardimommur með)
ca. 4 dl léttmjólk (má nota soyamjólk líka og jafnvel fleiri gerðir)
80 g smjör (ekki verra að nota kókosolíu að hluta)

Hræra saman eggin og sýrópið.  Bæta þurrefnum út í og síðan mjólkinni, og hrært rólega þar til degið er orðið mátulega þykkt.  Að lokum er smjörið brætt og því bætt við degið.  Svo er bara að skella þessu á vöfflujárnið.

Saturday, August 11, 2012

Rifsberjahlaup - minni sykur

Þó ágúst sé ekki langt komin eru rifsberin í garðinum hjá mér hér í Noregi orðin vel þroskuð og rauð.  Eiginlega er það þannig að þau liggja fyrir skemmdum.  Við krakkarnir drifum okkur því út að tína.  Ég geri nú oft rifsberjahlaup á haustin, en alltaf með vænum skammti af sykri.  Nú ákvað ég að fara í smá tilraunastarfsemi og reyna að útbúa hlaupið með minni sykri og jafnvel án þess að nota hvítan unninn sykur.  Úr varð að ég prófaði að nota Xylo Sweet (xylitol) sem er náttúrulegur sykur og hefur ekki eins mikil áhrif á blóðsykur og venjulegur sykur.  (mætti jafnvel líka nota pálmasykur). Ásamt því notaði ég nokkrar döðlur og epli til að fá sætara og betra bragð.  Þar sem berin hjá mér voru orðin svo rosalega rauð og engin græn ber að finna á runnanum, varð ég að sjóða hlaupið upp aftur og bæta örlitlum hleypi í, en heima á Íslandi hef ég aldrei þurft að nota hleypi.  Úr varð þetta fína rifsberjahlaup, þar sem rifsberjabragðið nýtur sín vel og ekki of sætt.




2 kg. rifsber (með stilkum og jafnvel laufum)
2-3 epli gróflega skorin
800 g xylo sweet (fæst í hagkaup og í heilsubúðum)
100-200 g döðlur

Rifsberin sett í pott ásamt xylo sweet, döðlum og eplum.  Hræra vel í og leyfa þessu að malla í nokkrar mínútur eða þar til allt er orðið vel maukað.  Þá er að sía vökvann frá hratinu.  Best er að nota taubleyju, eða gott viskastykki og binda yfir pott. Leyfa þessu að standa í nokkra tíma.  Hratið geymi ég svo og síð upp aftur og bý til saft.

Þegar vökvinn hefur síast frá, síð ég hann upp aftur, bæti í smá sætu ef þörf er á og eins hleypi ef þess þarf.  Skelli þessu svo í litlar krukkur og leyfi hlaupinu að kólna þar.  Ef það hleypur ekki er hægt að sjóða upp aftur og bæta í hleypi.

Hratið set ég svo í pott og bæti við vatni þannig að fljóti aðeins yfir.  Leyfi þessu að malla í smá stund við vægan hita. Bæti í sætu ef þarf.  Sía hratið þá aftur frá og helli vökvanum í flösku eða könnu.  Þetta er hinn fínasti sumardrykkur.  Það er svo bara smekksatriði hvort hann er þynntur frekar með vatni eða ekki.  Mér finnst gott að blanda þessu út í sódavatn og bera fram með vel kalt með klaka.

Saturday, June 23, 2012

Ferskur og grænn þeytingur

Morgunstund gefur gull í mund ekki satt.  Og morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins.  Ég hef  núna síðastliðinn vetur verið að prófa nokkrar tegundir af "smoothies" en finnst alveg með ólíkindum hversu oft það er í uppskriftum sem maður finnur á netinu að það er verið að bæta sykri eða hunangi út í drykkinn alveg að óþörfu.  Ef maður notar sætan ávöxt með í drykkinn þá á yfirleitt ekki að þurfa að setja frekari sætuefni út í.
Ég hef verið algjör gikkur að prófa græna drykki þar.  Gat bara ekki ýmindað mér að drekka grænmetið mitt.  Eftir talsvert fikt og nokkrar prufur fann ég minn græna smoothie.  Meira að segja dóttir mín elskar þennan drykk.  Aðaluppistaðan er spínat, sem er frekar bragðmilt og leyfir ávaxtabragðinu að njóta sín í drykknum.  Spínatið er hins vegar bráð hollt, inniheldur bæði trefjar og prótein ásamt því að vera ríkt af K og A vítamíni og eins af C vítamíni.  Spínatið inniheldur líka mikið af nauðsynlegum steinefnum eins og kalki og magnesíum.  Spínat er talið vinna gegn krabbameini og hefur andoxunaráhrif.  Hver man ekki eftir Stjána bláa og spínatinu.  Í drykkinn nota ég svo banana og peru, til að fá sætt og gott bragð.  Ég nota líka frosin vínber.  Frosin vínber eru algjört æði, þannig að fyrir ykkur sem ekki hafa prófað þau, þá mæli ég með að kippa með ferskum vínberjum í næstu búðarferð, skola þau og skella í frystinn.  Börnin stelast í þetta eins og nammi.



1 lúka ferskt spínat
1/2 - 1 banani
1/2 pera
safi úr 1/2 appelsínu
smá sítrónusafi (1 msk kanski)
frosin vínber nokkur stk.  Má samt sleppa og setja smá klaka útí í staðin.

Þá er bara að skella öllu í blandarann og græna blandan er tilbúin.

Hugsanlega verður eitthvað minna af póstum frá mér næstu vikurnar, þar sem að fjölskyldan stendur í flutningum og því minni tími fyrir tilraunir í eldhúsinu.  En ég mæti hress aftur á bloggið í byrjun ágúst með nýjar og hollar uppskriftir frá nýja norska eldhúsinu mínu.  Þangað til þá, hafið það gott og njótið sumarsins :)

Sunday, May 13, 2012

Kjúklingur í kryddaðri smjörsósu

Nýlega las ég grein á netinu þar sem fjallað var um muninn á hreinu smjöri og smjörlíki.  Smjörlíki var upphaflega framleitt sem svínafóður, en þar sem það gekk ekki sem skildi var reynt að breyta því þannig að það hentaði til manneldis.  Vissuð þið að smjörlíki er einu mólíkúli frá því að vera plast.  Allavega ég hef forðast smjörlíki í dáldinn tíma og sakna þess ekkert.  Í langflestum tilfellum er hægt að nota íslenskt smjör í staðin fyrir smjörlíkið og jafnvel kókosolíu.

Uppskriftin hér á eftir er mín útgáfa af svona butter chicken.  Auðvitað mun hollara en að kaupa krukku af butter chicken sósu úti í búð.  Þið aðlagið kryddmagnið bara að ykkar smekk.  Mér finnst gott að hafa dáldið mikið kryddbragð en vil ekki hafa réttinn of sterkan samt.



2 msk smjör
800 - 1000 g kjúklingabringur, lundir eða læri skorið í bita

Bræða smjör á pönnu og brúna kjúklinginn í nokkrar mínútur.

2 msk smjör
2 tsk garam masala
2 tsk paprika
2 tsk kóríander
1 msk rifinn ferskur engifer
1/4 tsk chili duft
1 1/2 - 2 tsk kanill
1 1/2 - 2 tsk kardimommur

Bræða smjörið á pönnunni og bæta öllu kryddi út á og blanda vel saman við smjörið. Leyfa að malla í 1-2 mínútur eða þar til ilmurinn stígur vel upp.  Setja kjúklinginn aftur á pönnuna og blanda við kryddblönduna.

1 dós niðursoðnir tómatar

Bæta niðursoðnum tómötum á pönnuna og leyfa að malla í nokkrar mínútur.

1 dós kókosmjólk
1 msk sítrónusafi

Setja kókosmjólk og sítrónusafa út á pönnuna.  Blanda vel og leyfa að malla í 15 mínútur.

Bera fram með brúnum hrísgrjónum, sætum kartöflum og góðu salati.

Tuesday, May 8, 2012

Krydduð blómkáls- og tómatsúpa

Blessuð börnin mín líða stundum fyrir það að eiga hollustuóða mömmu.  Í góða veðrinu í dag var angandi ilmur af grilluðum pylsum um allt hverfið.  Spurningin "mamma... hvað er í matinn" kom auðvitað í kjölfarið.  Ég get svo svarið það að það eru meiri líkur á því að þessi spurning komi á hverjum degi heldur en líkurnar eru á því að sólin komi upp dag hvern.  Það stóð heldur ekki á svari hjá mömmunni: "Grænmetissúpa í kvöld, holl og góð".  Vonsvikin börnin spyrja auðvitað hvort við getum ekki haft pylsur. Hollustuóða mamman kemur þá auðvitað með sína venjulegu ræðu um að það sé nú miklu betra að fá hollan og góðan mat sem er fullur af nauðsynlegum næringarefnum en ekki fullur af alls konar aukaefnum sem fara illa með líkamann.  Börnin eru farin að átta sig á því að það þýðir ekkert að ræða þetta nánar þegar mamman kemur með þessa ræðu.

Í dag var því matreidd holl og góð blómkáls- og tómatsúpa.  Það tókst mjög vel til í þetta skiptið og þrátt fyrir orðaskiptin við börnin áður, þá borðuðu þau súpuna með bestu lyst.  Hin grænmetisfælna dóttir mín hreinlega skóflaði í sig þremur skálum af súpu.  Galdurinn var bragðgóð súpa og eitt soðið egg ofan í súpuskálina.  Súpan er stútfull af næringarefnum, seðjandi, bragðgóð með mjúka áferð. Í súpunni er meðal annars blómkál sem er ríkt af B-vítamínum, fólínsýru og C-vítamíni. Það síðastnefnda C-vítamínið hefur meðal annars það hlutverk að vernda líkamann gegn sindurefnum sem skaðað geta frumur, prótein og vefi.  Í blómkáli eru jafnframt efni sem talin eru geta komið í veg fyrir myndun krabbameins.



1 msk kókosolía
1 laukur skorinn
3 hvítlauksrif skorin smátt
1 tsk engifer rifinn
2 tsk karrý (má vera aðeins meira ef þið viljið meira bragð)
1 tsk cumin duft
hnífsoddur chili krydd
1/2 meðalstór sæt kartafla skorin í litla bita
2 meðalstórar gulrætur skornar í bita
salt
pipar nýmalaður
3 bollar vatn
3 msk grænmetiskraftur
1 dós kókosmjólk (lite)
1 dós niðursoðnir tómatar
1 blómkálshaus í minni kantinum (svona rúmlega hálfur haus af þeim sem oftast eru í búðinni)

1 soðið egg á mann
steinselja fersk

Mýkja lauk, hvítlauk og engifer í olíunni í smá stund. Bæta kryddinu við og leyfa þessu að malla í 1-2 mínútur.  Hræra vel í á meðan.

Bæta við sætum kartöflum og gulrótum, ásamt vatni og krafti. Leyfa suðunni að koma upp.  Setja þá kókosmjólk og niðursoðna tómata út í. Sjóða við vægan hita í um það bil 15 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.

Setja smátt skorið blómkálið út í pottinn og sjóða nokkrar mínútur til viðbótar.  Smakka svo bara súpuna til.

Það er auðvitað hægt að bera súpuna fram svona með grænmetinu grófsöxuðu.  Ég hins vegar ákvað að mauka súpuna þar sem að ég er mikið fyrir að fara í feluleik með grænmetið fyrir hin grænmetisfælnu börn. Áferðin á súpunni verður líka svo silkimjúk. Hægt er að mauka súpuna með töfrasprota, í blandara eða matvinnsluvél.

Ég bar súpuna fram með soðnu eggi, steinselju og setti örlítið af lífrænni grískri jógúrt með.

Saturday, April 21, 2012

Sumarleg og hrá bananakaka

Á fallegum vordögum er yndislegt að sitja úti með kaffibolla og góða köku.  Ekki er verra ef kakan er þess eðlis að maður getur hámað hana í sig með nokkuð góðri samvisku.  Í dag ákvað ég að gera bananaköku þar sem að ávaxtaskálinn var orðin vel full af bönunum sem aðeins farnir að láta á sjá.  Bananar eru fullir af næringu, sérstaklega kalíum.  Eins eru þeir einstaklega trefjaríkir.  Sætt bragð þeirra getur að miklu leyti komið í stað sykurs.



Botn:
1 bolli möndlur
1 bolli döðlur
1 bolli rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir

Láta döðlur og rúsínur standa í volgu vatni í stutta stund.  Láta mesta vökvann renna af og setja í matvinnsluvél ásamt möndlum og vinna vel þar.  Þrýsta blöndunni vel ofan í mót.

2 bananar 

Skornir í bita og raðað ofan á botninn.  

Krem:
2 bananar
1/4 -1/2 bolli vatn
1 bolli kókosmjöl
6-8 döðlur sem legið hafa í bleyti
1 tsk vanilluduft
1-2 tsk hunang ef þarf

Blanda öllu vel saman í matvinnsluvél.  Ég bæti aðeins vatni í ef ég vil hafa blönduna þynnri.  Betra að byrja með ekki of mikið vatn.  Ef bananarnir eru vel þroskaðir finnst mér alveg óþarfi að setja hunang í kremið.  En það er auðvitað bara smekksatriði hversu sætt þið viljið hafa þetta.  
Blandan er svo sett yfir botninn.  

Þá er bara að skreyta með ávöxtum og því sem manni dettur til hugar og til er í skápunum hverju sinni. Ég notaði jarðaber, vínber, smá súkkulaði og kókos.
Berið svo fram með rjóma ef þið viljið.  

Gómsæt aspassúpa

Ég held í alvöru að ég hafi varla kunnað að gera súpur hérna áður fyrr nema að baka þær upp úr hveiti og bæta svo að minnsta kosti hálfum lítra af rjóma í ásamt tilheyrandi óhollustu.  Nú er ég hins vegar farin að prófa mig áfram í nýjum aðferðum í súpugerð þar sem að rjómanum og hveitinu er helst sleppt.  Þessa uppskrift er ég búin að vera að fikra mig áfram með og held að ég sé að verða nokkuð sátt við útkomuna. Aspasinn er reyndar úr dós og er þá mikilvægt að velja aspas sem er án rotvarnarefna og annars óþverra.   Ég nota kókosmjólk til þess að fá þessa rjómakenndu áferð á súpuna.  Svo er bara að muna eftir því að fylla ekki blandarann um of af heitri súpu, því hún þarf sitt pláss í blandaranum þegar hann fer að vinna.  Hluti af eldhúsinu mínu varð grænt eftir þessa matargerð.  Það er víst ástæðan fyrir því að ég steingleymdi að taka mynd af súpunni.  Ég verð því að útbúa súpuna fljótlega aftur svo að hægt sé að skella inn mynd af grænu súpunni fínu.  Þessi uppskrift ætti að vera fyrir u.þ.b. fjóra.

3 msk smjör
1 laukur smátt saxaður
1/2 tsk salt
1/2 tsk karrý
1/4 tsk engifer (ég notaði ferskan, en má nota duft líka)
safi úr 1/2 sítrónu
börkur af 1/2 sítrónu (bara guli hlutinn, ekki nota þetta hvíta)
3 bollar vatn
3 msk grænmetiskraftur (smakka svo bara til og bæta í ef þarf)
1 bolli kókosmjólk (lite)
2 litlar dósir aspas, geymi vökvann og bæti aðeins í síðar ef þarf.
pipar grófur nýmalaður
sýrður rjómi til skreytingar

Byrja á að saxa lauk og mýkja hann í smá stund í smjörinu.  Bæta við kryddi og engifer. Bæta svo út í sítrónusafa og berki.  Leyfa þessu að malla í 2-3 mínútur.  Bæta vatni út í og krafti.  Ná upp suðu og sjóða í 5 mínútur.  Setja kókosmjólk út í og hita að suðu.  Bæta loks aspas saman við og hræra varlega í.  Kæla stutta stund og setja svo í blandara eða matvinnsluvél og mauka súpuna.  Muna að setja lokið á og ekki setja of mikið magn í einu í tækið.  Hita súpuna aftur, bæta smá safa af aspas saman við ef hún er of þykk.      Krydda með smá nýmöluðum pipar.  Setja smá sýrðan rjóma út á áður en hún er borin fram.  Berist fram með góðu brauði.

Sunday, April 15, 2012

Appelsínumuffins með súkkulaðibitum

Það er einfalt og fljótlegt að útbúa góðar muffins. Þar sem muffins geymast líka vel í frysti, er gott að grípa í þær þegar gesti ber að garði.  Í þessari uppskrift eru notaðar maukaðar döðlur ásamt smá hunangi í staðin fyrir sykur. Ég læt líka dökka súkkulaðibita í uppskriftina, en þeim má líka sleppa eða nota alveg sykurlaust súkkulaði í staðin.



2 bollar gróft spelt
4 msk kakó, dökkt og lífrænt
3 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsalt
1 tsk vanilluduft

2 egg
6 msk hunang
8 msk olía (kókos eða ólífu)

1 bolli döðlur (gróft saxaðar)
1/2 bolli jógúrt eða ab mjólk.

2-3 msk appelsínubörkur rifinn (um 1/4 af appelsínu)
50 g möndlur eða hnetur saxaðar (má sleppa)
100 g 70% dökkt súkkulaði gróft saxað

Blanda saman öllum þurrefnum í skál.

Í annari skál blanda vel saman eggjum, hunangi og olíu.

Í matvinnsluvel þarf að vinna vel saman döðlur og ab mjólk, þannig að það verði gott mauk.  Mér finnst best að láta döðlurnar liggja í bleyti í volgu vatni í smá stund áður. Þær vinnast alltaf betur þannig.  Maukinu er svo blandað saman við hinn vökvann.

Blanda vökvanum þá saman við þurrefnin og bæta í berki, hnetum og súkkulaði. Hræra vel í með sleif.  Ef degið er of þykkt, þá getur verið gott að bæta 1-2 msk af appelsínusafa út í, eða auka við jógúrt eða ab.

Setja deigið í muffinsform og baka við 180° í 15 -20 mínútur.  Þetta ættu að verða 15-20 muffins.

Saturday, April 14, 2012

Hnetusmjörsbitar

Stundum er bara svo gott að eiga eitthvað gott í til að narta í sem er hæfilega sætt en samt ekki of óhollt.  Þessir bitar eru hráir og fullir af hollustu.  Bitarnir geymast í 1-2 vikur í kæli.

2 1/2 bolli tröllahafrar
1/2 bolli sólblómafræ (gott að rista þau á pönnu fyrst)
1/2 bolli rúsínur og gojiber (gott að leggja í bleyti í volgt vatn í nokkrar mínútur)
1/2 bolli caco nibs (má sleppa)
2/3 bolli hnetusmjör (hreint t.d. frá Himneskt)
1/2 bolli agave

Blanda saman höfrum, fræjum, rúsínum, berjum og cacao nibs í skál.  Hræra saman hnetusmjöri og agave. Blanda svo saman við þurrefnin.  Þrýsta blöndunni vel ofan í mót og kæla í 1-2 klst.  Skera í hæfilega bita og pakka þeim vel inn.

Bakað haframjöl með banana og ávöxtum

Mín litla dama er ekkert allt of hrifin af hafragraut.  Hér má hins vegar segja að gamli góði hafragrauturinn sé kominn í annan búning, sem að mín kunni betur að meta og aðrir á heimilinu voru alsælir með þessa tilbreytingu.  Það er hægt að leika sér með hráefnið í þessari uppskrift.  Ég notaði bláber, en litlu skvísu fannst þau dáldið súr, þannig að ég hugsa að ég noti jafnvel bara epli næst.



2 bananar (mega vera vel þroskaðir)
1 1/2 bolli bláber frosin eða fersk
1/4 bolli agave sýróp eða hunang
1 bolli haframjöl
1/4 bolli valhnetur gróft saxaðar
1 tsk vínsteinslyftiduft
1tsk kanill
smá salt
1 bolli mjólk eða soyjamjólk
1 egg
1 tsk vanilluduft

Skera bananana í sneiðar og dreifa þeim á botninn á eldföstu móti.  Setja hluta af bláberjunum yfir.  Strá helmingnum af kanilnum  og smá af agave sýrópi.  Skella þessu inn í ofn á 180 ° í nokkrar mínútur.  Á meðan er allt þurrefnið sem er eftir sett saman í skál og blandað vel.  Í aðra skál fer allur vökvi og blandast vel saman, þ.e. sýróp, mjólk og egg.
Nú er formið tekið út úr ofninum og þurrefninu hellt yfir bananana þar.  Vökvanum er svo hellt jafnt og rólega yfir allt saman.  Strá svo restinni af bláberjunum yfir.
Baka í 20 mínútur við 180°.

Tuesday, April 3, 2012

Hollur og góður Chia grautur

Chia fræ eru algjör ofurfæða.  Þau eru rík af omega-3 fitusýrum, ásamt því að vera mjög próteinrík.  Það er í raun allt of mikið að telja upp hér allt sem þau eiga að gera fyrir okkur, þannig að ég bendi á þessa frétt frá Heilsuhúsinu um Chia-fræin.  Fræin er hægt að nota í alla mögulega matreiðslu.  Sjálf er ég nýfarin að fikra mig áfram í notkun þeirra.  Set stundum 1 skeið út í þeytinginn minn á morgnana eða í hafragrautinn.  Nú er ég hins vegar farin að gera graut úr fræjunum, sem að mér finnst alveg rosalega góður.  Hann er líka svo einfaldur.



1/2 bolli kalt vatn
4 msk chia fræ
 
Ég blanda þessu bara saman í skál á morgnana og leyfi þessu að standa rétt á meðan ég skelli mér í sturtu. Þetta þarf að fá að standa í ca. 10 mínútur, þá þykknar þetta og verður gelkennt (minnir dáldið á sagógrjón).

1/2 epli skorið í litla bita
2-3 msk rúsínur
2 msk muldar valhnetur
smá kanill
1/2 tsk hunang eða agave.

Bæti þessu öllu út í og blanda saman.

Þetta er virkilega hollur, frískandi og saðsamur morgunverður.

Sunday, March 11, 2012

Klattar

Þetta er nú ekki svona beint uppskrift heldur meira hugmynd um hvernig hægt er að útfæra klatta úr hinum ýmsu afgöngum.  Í sveitinni í gamla daga voru stundum búnir til svona kartöfluklattar úr afgangs kartöflum og stundum var bætt einhverju kjöti eða hrísgrjónum út í.  Þar sem ég vil hafa allt frekar hollt þessa dagana og sem mest hrein hráefni þá ákvað ég að reyna að útfæra þetta á annan hátt. Ekki það að þetta hafi ekki verið hollt í sveitinni á sínum tíma, en mig langaði bara að breyta aðeins.  Það er hins vegar hægt að nota nánast hvaða hráefni sem er.  Þetta getur því hentað þeim sem ekki vilja kjöt líka.  Grunnurinn samanstendur af sætum kartöflum, lauk, eggjum og spelti. Svo er hægt að bæta við t.d. kjúkling, hrísgrjónum, grænmeti, baunum og öllu mögulegu kryddi. Aðalmálið er að gera deig sem ekki verður of blautt en samt þannig að það hangi vel saman.  Degið er síðan mótað í höndunum í lítil buff sem eru svo steikt á pönnu.



Þau hráefni sem ég notaði í klattana hér á myndinni eru:
Sætar kartöflur
Laukur
Afgangur af kjúkling í litlum bitum
Salt og pipar
Timian
Spelt ca. 2- 3 msk
2 egg

Mikilvægt að kartöflurnar séu mjög smátt skornar og ágætt að stappa þær gróflega fyrst.  Blanda svo bara öllum hráefnunum saman.  Móta lítil buff með höndunum og steikja við vægan hita á pönnu upp úr smjöri og kókosolíu.  Bera svo fram með góðu salati.

Bananalummur

Það er svona amerískur stíll yfir þessum lummum eða pönnukökum.  Hins vegar er búið að laga uppskriftina til þannig að hún er orðin meinholl en samt sæt og góð.  Flottur morgunverður á sunnudagsmorgni ásamt góðum smoothie, já eða bara kaffibolla.




3 bananar (frekar litlir)
safi úr 1/2 sítrónu
2 msk fljótandi kókosolía
1 tsk hunang
2 egg
1 bolli haframjölshveiti (1 bolli af mjöli sett í matvinnsluvél og malað)
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk kanill
1/4 tsk múskat
1/2 tsk salt

Byrja á að stappa bananana samam í skál. Bæta út í sítrónusafa, olíu og hunangi og hræra vel í með sleif.  Bæta eggjum út í og hræra vel.  Í annari skál er þurrefnunum blandað saman.  Vökvanum er svo hellt rólega yfir þurrefnin og blandað vel saman en passa að hræra ekki of mikið.
Gott er að leyfa þessu að standa í nokkrar mínútur.  Upplagt að ganga aðeins frá í eldhúsinu á meðan og gera pönnuna klára.
Mér finnst best a steikja upp úr blöndu af kókosolíu og íslensku smjöri.  Bara passa að hafa ekki of mikið af því.  Þeir sem eru með svona viðloðunarfríar pönnur þurfa auðvitað ekki mikið af olíu.
Þegar pannan og feitin eru orðin heit, þá skelli ég einni lítilli ausu af degi á pönnuna.  Þetta á að vera um það bil lófastórt.  Steiki lummuna í ca. 3 mínútur og sný henni svo við og steiki hana þar í svona rúmlega mínútu.  Ég kem tveimur til þremur lummum á pönnuna í einu.  Passa bara upp á hitann á pönnunni.  Gott að byrja með góðan hita, en lækka hann svo strax.
Það er svo auðvitað smekksatriði hvað hver og einn setur ofan á lummuna sína.  Krakkarnir vildu auðvitað bara strax fá sýróp.  Ég fór aðra leið og skellti ferskum jarðberjum ofan á hjá mér, ásamt smá gervirjóma, af því að það er sunnudagur.  Þær eru líka góðar með bananabitum, möndluflögum, kókos já og öllu mögulegu.

Saturday, March 10, 2012

Risotto með kjúkling

Upplagt að nota afgangskjúkling í þennan rétt.  Ég hins vegar steikti heilan kjúkling og skar svo niður.  Auðvitað er svo hægt að nota nánast hvaða grænmeti sem er.  Að sjálfsögðu er svo hægt að sleppa kjúklingnum alveg og hafa þetta sem grænmetisrétt.



1/2 bolli vatn
1 laukur
1 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
5 bollar vatn
1-2 teningar gerlaus grænmetiskraftur
2 1/2 dl hýðishrísgrjón
1 bolli skorið brokkólí
1 bolli kjúklingakjöt
salt og pipar
timían

Byrja á að skera niður lauk og hvítlauk.  Setja í pott ásamt 1/2 bolla af vatni og leyfa þessu aðeins að krauma.  Bæta svo vatni út í ásamt krafti og hrísgrjónum.  Sjóða þetta í svona 30 mínútur. Skera steiktan kjúklinginn í litla bita á meðan.  Skera brokkólíið í litla bita.  Bæta þessu í eftir 30 mínútna suðutímann.  Krydda eftir þörfum.  Leyfa þessu að malla 10 til viðbótar.
Bera fram með góðu salati og sætum kartöflum.

Hrákaka með döðlum og ávöxtum

Eins og ég hef örugglega oft áður sagt, þá elska ég hollustu sem bragðast eins og óhollusta.  Þessi gómsæta hrákaka flokkast algjörlega þar undir.  Hún er stútfull af næringarefnum og hollustu. Það er einfalt og fljótlegt að búa hana til.  Ekkert mál að eiga botninn í frysti og grípa til hans og skreyta ef gesti ber að garði.  
Ofan á kökuna set ég granatepli.  Granatepli innihalda mikið af andoxunarefnum, mun meira heldur en t.d. bláber og grænt te.  Það er um það bil 10 sinnum meira magn af andoxunarefnum í granateplum heldur en í appelsínum og 40 sinnum meira heldur en í venjulegum eplum.  Rannsóknir hafa sýnt að granatepli styrkja ónæmiskerfið og eru talin vinna gegn krabbameini meðal annars í blöðruhálskirtli.






Botn
250 gr. döðlur (má líka blanda með rúsínum eða öðrum þurrkuðum ávöxtum)
1/2 dl fljótandi kókosolía
1 stór banani (má vera orðinn dáldið brúnn)
1 msk hunang eða agave
1 1/2  - 2 dl tröllahafrar
2 msk  kakóduft dökkt lífrænt

Allt maukað saman í matvinnsluvél og sett í form.  Skella forminu í frysti á meðan ávextirnir eru skornir niður. 

Ofan á kökuna er hægt að setja allt mögulegt.  Ég notaði, 2 lítil epli, 1 peru, nokkur jarðarber og granatepli.
Gott er líka að nota kíwí, bláber, banana, hnetur og kókosflögur.

Ég bræddi síðan örlítið (ca 40 g) af dökku súkkulaði og setti yfir kökuna.

Best er að geyma kökuna í kæli eða í frysti.  Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma eða þá svona "gervirjóma".  En hún er samt líka góð svona ein og sér.

Hindberja- og möndluterta

Það er orðið dáldið langt síðan ég gerði þessa yndislegu köku.  Vona að ég sé að muna uppskriftina alveg rétt.  Hindber eru svokölluð ofurfæða, full af andoxunarefnum og vítamínum.  Það er um að gera að nota þau fersk þegar hægt er að fá þau falleg og fersk í búðunum.  En þau fást frosin allt árið um kring, svo það er alltaf hægt að búa sér til eitthvað gott úr þeim.







1 ½ bolli möndlur
½ bolli valhnetur
2 tsk appelsínuýði rifið
½ tsk vanilluduft
1 ½ bolli döðlur (ég mýki þær aðeins í volgu vatni)
100-150 g 70% lífrænt súkkulaði eða sykurlaust súkkulaði

Setjið möndlur og hnetur í matvinnsluvél og malið svona milli gróft. Bæta döðlum og appelsínuhýði ásamt vanilludufti eða dropum útí og blandið þar til degið klístrast vel saman. Saxið súkkulaðið smátt og hrærið útí deigið. Þrýstið niður í form og setjið inn í frysti 

Fylling:
3 dl kasjúhnetur, (best að leggja í bleyti í 2-4 klst)
1 -1½ dl agave
1½  dl kaldpressuð kókosolía
2 tsk vanilluduft
smá himalaya eða sjávarsalt
500 g frosin hindber, en taka dáldið af þeim frá til skreytingar.

Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt agavesýrópi og kókosolíu og blandið vel saman, þar til þetta er orðið kremkennt.  Bætið síðan frosnu hindberjunum útí og blandið þar til þetta er orðin fín og mjúk blanda.   Setjið fyllinguna ofan á  botninn og setjið kökuna inn í kæli í 2-3 klst eða í frysti í 1 klst. 
Skreytið með fullt fullt af ferskum eða frosnum hinberjum.  Ég setti líka pínu pons af dökku súkkulaði.