Sunday, March 11, 2012

Klattar

Þetta er nú ekki svona beint uppskrift heldur meira hugmynd um hvernig hægt er að útfæra klatta úr hinum ýmsu afgöngum.  Í sveitinni í gamla daga voru stundum búnir til svona kartöfluklattar úr afgangs kartöflum og stundum var bætt einhverju kjöti eða hrísgrjónum út í.  Þar sem ég vil hafa allt frekar hollt þessa dagana og sem mest hrein hráefni þá ákvað ég að reyna að útfæra þetta á annan hátt. Ekki það að þetta hafi ekki verið hollt í sveitinni á sínum tíma, en mig langaði bara að breyta aðeins.  Það er hins vegar hægt að nota nánast hvaða hráefni sem er.  Þetta getur því hentað þeim sem ekki vilja kjöt líka.  Grunnurinn samanstendur af sætum kartöflum, lauk, eggjum og spelti. Svo er hægt að bæta við t.d. kjúkling, hrísgrjónum, grænmeti, baunum og öllu mögulegu kryddi. Aðalmálið er að gera deig sem ekki verður of blautt en samt þannig að það hangi vel saman.  Degið er síðan mótað í höndunum í lítil buff sem eru svo steikt á pönnu.



Þau hráefni sem ég notaði í klattana hér á myndinni eru:
Sætar kartöflur
Laukur
Afgangur af kjúkling í litlum bitum
Salt og pipar
Timian
Spelt ca. 2- 3 msk
2 egg

Mikilvægt að kartöflurnar séu mjög smátt skornar og ágætt að stappa þær gróflega fyrst.  Blanda svo bara öllum hráefnunum saman.  Móta lítil buff með höndunum og steikja við vægan hita á pönnu upp úr smjöri og kókosolíu.  Bera svo fram með góðu salati.

Bananalummur

Það er svona amerískur stíll yfir þessum lummum eða pönnukökum.  Hins vegar er búið að laga uppskriftina til þannig að hún er orðin meinholl en samt sæt og góð.  Flottur morgunverður á sunnudagsmorgni ásamt góðum smoothie, já eða bara kaffibolla.




3 bananar (frekar litlir)
safi úr 1/2 sítrónu
2 msk fljótandi kókosolía
1 tsk hunang
2 egg
1 bolli haframjölshveiti (1 bolli af mjöli sett í matvinnsluvél og malað)
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk kanill
1/4 tsk múskat
1/2 tsk salt

Byrja á að stappa bananana samam í skál. Bæta út í sítrónusafa, olíu og hunangi og hræra vel í með sleif.  Bæta eggjum út í og hræra vel.  Í annari skál er þurrefnunum blandað saman.  Vökvanum er svo hellt rólega yfir þurrefnin og blandað vel saman en passa að hræra ekki of mikið.
Gott er að leyfa þessu að standa í nokkrar mínútur.  Upplagt að ganga aðeins frá í eldhúsinu á meðan og gera pönnuna klára.
Mér finnst best a steikja upp úr blöndu af kókosolíu og íslensku smjöri.  Bara passa að hafa ekki of mikið af því.  Þeir sem eru með svona viðloðunarfríar pönnur þurfa auðvitað ekki mikið af olíu.
Þegar pannan og feitin eru orðin heit, þá skelli ég einni lítilli ausu af degi á pönnuna.  Þetta á að vera um það bil lófastórt.  Steiki lummuna í ca. 3 mínútur og sný henni svo við og steiki hana þar í svona rúmlega mínútu.  Ég kem tveimur til þremur lummum á pönnuna í einu.  Passa bara upp á hitann á pönnunni.  Gott að byrja með góðan hita, en lækka hann svo strax.
Það er svo auðvitað smekksatriði hvað hver og einn setur ofan á lummuna sína.  Krakkarnir vildu auðvitað bara strax fá sýróp.  Ég fór aðra leið og skellti ferskum jarðberjum ofan á hjá mér, ásamt smá gervirjóma, af því að það er sunnudagur.  Þær eru líka góðar með bananabitum, möndluflögum, kókos já og öllu mögulegu.

Saturday, March 10, 2012

Risotto með kjúkling

Upplagt að nota afgangskjúkling í þennan rétt.  Ég hins vegar steikti heilan kjúkling og skar svo niður.  Auðvitað er svo hægt að nota nánast hvaða grænmeti sem er.  Að sjálfsögðu er svo hægt að sleppa kjúklingnum alveg og hafa þetta sem grænmetisrétt.



1/2 bolli vatn
1 laukur
1 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
5 bollar vatn
1-2 teningar gerlaus grænmetiskraftur
2 1/2 dl hýðishrísgrjón
1 bolli skorið brokkólí
1 bolli kjúklingakjöt
salt og pipar
timían

Byrja á að skera niður lauk og hvítlauk.  Setja í pott ásamt 1/2 bolla af vatni og leyfa þessu aðeins að krauma.  Bæta svo vatni út í ásamt krafti og hrísgrjónum.  Sjóða þetta í svona 30 mínútur. Skera steiktan kjúklinginn í litla bita á meðan.  Skera brokkólíið í litla bita.  Bæta þessu í eftir 30 mínútna suðutímann.  Krydda eftir þörfum.  Leyfa þessu að malla 10 til viðbótar.
Bera fram með góðu salati og sætum kartöflum.

Hrákaka með döðlum og ávöxtum

Eins og ég hef örugglega oft áður sagt, þá elska ég hollustu sem bragðast eins og óhollusta.  Þessi gómsæta hrákaka flokkast algjörlega þar undir.  Hún er stútfull af næringarefnum og hollustu. Það er einfalt og fljótlegt að búa hana til.  Ekkert mál að eiga botninn í frysti og grípa til hans og skreyta ef gesti ber að garði.  
Ofan á kökuna set ég granatepli.  Granatepli innihalda mikið af andoxunarefnum, mun meira heldur en t.d. bláber og grænt te.  Það er um það bil 10 sinnum meira magn af andoxunarefnum í granateplum heldur en í appelsínum og 40 sinnum meira heldur en í venjulegum eplum.  Rannsóknir hafa sýnt að granatepli styrkja ónæmiskerfið og eru talin vinna gegn krabbameini meðal annars í blöðruhálskirtli.






Botn
250 gr. döðlur (má líka blanda með rúsínum eða öðrum þurrkuðum ávöxtum)
1/2 dl fljótandi kókosolía
1 stór banani (má vera orðinn dáldið brúnn)
1 msk hunang eða agave
1 1/2  - 2 dl tröllahafrar
2 msk  kakóduft dökkt lífrænt

Allt maukað saman í matvinnsluvél og sett í form.  Skella forminu í frysti á meðan ávextirnir eru skornir niður. 

Ofan á kökuna er hægt að setja allt mögulegt.  Ég notaði, 2 lítil epli, 1 peru, nokkur jarðarber og granatepli.
Gott er líka að nota kíwí, bláber, banana, hnetur og kókosflögur.

Ég bræddi síðan örlítið (ca 40 g) af dökku súkkulaði og setti yfir kökuna.

Best er að geyma kökuna í kæli eða í frysti.  Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma eða þá svona "gervirjóma".  En hún er samt líka góð svona ein og sér.

Hindberja- og möndluterta

Það er orðið dáldið langt síðan ég gerði þessa yndislegu köku.  Vona að ég sé að muna uppskriftina alveg rétt.  Hindber eru svokölluð ofurfæða, full af andoxunarefnum og vítamínum.  Það er um að gera að nota þau fersk þegar hægt er að fá þau falleg og fersk í búðunum.  En þau fást frosin allt árið um kring, svo það er alltaf hægt að búa sér til eitthvað gott úr þeim.







1 ½ bolli möndlur
½ bolli valhnetur
2 tsk appelsínuýði rifið
½ tsk vanilluduft
1 ½ bolli döðlur (ég mýki þær aðeins í volgu vatni)
100-150 g 70% lífrænt súkkulaði eða sykurlaust súkkulaði

Setjið möndlur og hnetur í matvinnsluvél og malið svona milli gróft. Bæta döðlum og appelsínuhýði ásamt vanilludufti eða dropum útí og blandið þar til degið klístrast vel saman. Saxið súkkulaðið smátt og hrærið útí deigið. Þrýstið niður í form og setjið inn í frysti 

Fylling:
3 dl kasjúhnetur, (best að leggja í bleyti í 2-4 klst)
1 -1½ dl agave
1½  dl kaldpressuð kókosolía
2 tsk vanilluduft
smá himalaya eða sjávarsalt
500 g frosin hindber, en taka dáldið af þeim frá til skreytingar.

Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt agavesýrópi og kókosolíu og blandið vel saman, þar til þetta er orðið kremkennt.  Bætið síðan frosnu hindberjunum útí og blandið þar til þetta er orðin fín og mjúk blanda.   Setjið fyllinguna ofan á  botninn og setjið kökuna inn í kæli í 2-3 klst eða í frysti í 1 klst. 
Skreytið með fullt fullt af ferskum eða frosnum hinberjum.  Ég setti líka pínu pons af dökku súkkulaði.
 

Friday, March 2, 2012

Kjúklingur í hnetusmjörssósu

Þessi uppskrift varð til svona alveg óvart hjá mér þegar ég var að reyna að nýta afganga og búa til einhvern dýrindisrétt úr eiginlega engu.  Það tókst líka bara nokkuð vel þó ég segi sjálf frá. Upplagt er að nota allt afgangs grænmeti sem finnst á heimilinu og afgangs kjúkling.  Svo er auðvitað hægt að kaupa, bringur eða lundir eða eitthvað annað fínerí og skella í réttinn.  Uppskriftin sem hér fer á eftir sýnir það hráefni sem ég notaði í réttinn, en það er auðveldlega hægt að leika sér með það.  Gleymdi svo að taka mynd af þessu en ég reyni að bæta úr því fljótlega.

Kjúklingur, afgangar í bitum, 3-4 bringur eða annað.
Kókosolía eða ólífuolía
Brokkolí
Gulrætur
Rauðlaukur

Vatn
Kjúklingakraftur (úr heilsudeildinni auðvitað)
2 msk hnetusmjör (frá Himneskt)
salt og pipar
smá skvetta af soyjasósu eða tamarisósu.
Kasjúwhnetur svona 1 lítil lúka

Skera kjúklinginn í bita og brúna aðeins á pönnu.  Skera grænmetið og skella út á.  Krydda með salti og pipari og leyfa að malla aðeins.  Setja vatn, kraft og hnetusmjör út á pönnuna og leyfa þessu að malla vel.  Nauðsynlegt að hræra í annars lagið svo að hnetusmjörið blandist vel við. Setja smá soyjasósu eða tamarisósu út á.  Hneturnar yfir og leyfa þeim að sjóða aðeins með.  Smakka svo bara vel til og bæta við salti og hnetusmjöri eftir smekk.

Borið fram með heilhveitnúðlum eða pasta og grænmeti.