Sunday, May 13, 2012

Kjúklingur í kryddaðri smjörsósu

Nýlega las ég grein á netinu þar sem fjallað var um muninn á hreinu smjöri og smjörlíki.  Smjörlíki var upphaflega framleitt sem svínafóður, en þar sem það gekk ekki sem skildi var reynt að breyta því þannig að það hentaði til manneldis.  Vissuð þið að smjörlíki er einu mólíkúli frá því að vera plast.  Allavega ég hef forðast smjörlíki í dáldinn tíma og sakna þess ekkert.  Í langflestum tilfellum er hægt að nota íslenskt smjör í staðin fyrir smjörlíkið og jafnvel kókosolíu.

Uppskriftin hér á eftir er mín útgáfa af svona butter chicken.  Auðvitað mun hollara en að kaupa krukku af butter chicken sósu úti í búð.  Þið aðlagið kryddmagnið bara að ykkar smekk.  Mér finnst gott að hafa dáldið mikið kryddbragð en vil ekki hafa réttinn of sterkan samt.



2 msk smjör
800 - 1000 g kjúklingabringur, lundir eða læri skorið í bita

Bræða smjör á pönnu og brúna kjúklinginn í nokkrar mínútur.

2 msk smjör
2 tsk garam masala
2 tsk paprika
2 tsk kóríander
1 msk rifinn ferskur engifer
1/4 tsk chili duft
1 1/2 - 2 tsk kanill
1 1/2 - 2 tsk kardimommur

Bræða smjörið á pönnunni og bæta öllu kryddi út á og blanda vel saman við smjörið. Leyfa að malla í 1-2 mínútur eða þar til ilmurinn stígur vel upp.  Setja kjúklinginn aftur á pönnuna og blanda við kryddblönduna.

1 dós niðursoðnir tómatar

Bæta niðursoðnum tómötum á pönnuna og leyfa að malla í nokkrar mínútur.

1 dós kókosmjólk
1 msk sítrónusafi

Setja kókosmjólk og sítrónusafa út á pönnuna.  Blanda vel og leyfa að malla í 15 mínútur.

Bera fram með brúnum hrísgrjónum, sætum kartöflum og góðu salati.

Tuesday, May 8, 2012

Krydduð blómkáls- og tómatsúpa

Blessuð börnin mín líða stundum fyrir það að eiga hollustuóða mömmu.  Í góða veðrinu í dag var angandi ilmur af grilluðum pylsum um allt hverfið.  Spurningin "mamma... hvað er í matinn" kom auðvitað í kjölfarið.  Ég get svo svarið það að það eru meiri líkur á því að þessi spurning komi á hverjum degi heldur en líkurnar eru á því að sólin komi upp dag hvern.  Það stóð heldur ekki á svari hjá mömmunni: "Grænmetissúpa í kvöld, holl og góð".  Vonsvikin börnin spyrja auðvitað hvort við getum ekki haft pylsur. Hollustuóða mamman kemur þá auðvitað með sína venjulegu ræðu um að það sé nú miklu betra að fá hollan og góðan mat sem er fullur af nauðsynlegum næringarefnum en ekki fullur af alls konar aukaefnum sem fara illa með líkamann.  Börnin eru farin að átta sig á því að það þýðir ekkert að ræða þetta nánar þegar mamman kemur með þessa ræðu.

Í dag var því matreidd holl og góð blómkáls- og tómatsúpa.  Það tókst mjög vel til í þetta skiptið og þrátt fyrir orðaskiptin við börnin áður, þá borðuðu þau súpuna með bestu lyst.  Hin grænmetisfælna dóttir mín hreinlega skóflaði í sig þremur skálum af súpu.  Galdurinn var bragðgóð súpa og eitt soðið egg ofan í súpuskálina.  Súpan er stútfull af næringarefnum, seðjandi, bragðgóð með mjúka áferð. Í súpunni er meðal annars blómkál sem er ríkt af B-vítamínum, fólínsýru og C-vítamíni. Það síðastnefnda C-vítamínið hefur meðal annars það hlutverk að vernda líkamann gegn sindurefnum sem skaðað geta frumur, prótein og vefi.  Í blómkáli eru jafnframt efni sem talin eru geta komið í veg fyrir myndun krabbameins.



1 msk kókosolía
1 laukur skorinn
3 hvítlauksrif skorin smátt
1 tsk engifer rifinn
2 tsk karrý (má vera aðeins meira ef þið viljið meira bragð)
1 tsk cumin duft
hnífsoddur chili krydd
1/2 meðalstór sæt kartafla skorin í litla bita
2 meðalstórar gulrætur skornar í bita
salt
pipar nýmalaður
3 bollar vatn
3 msk grænmetiskraftur
1 dós kókosmjólk (lite)
1 dós niðursoðnir tómatar
1 blómkálshaus í minni kantinum (svona rúmlega hálfur haus af þeim sem oftast eru í búðinni)

1 soðið egg á mann
steinselja fersk

Mýkja lauk, hvítlauk og engifer í olíunni í smá stund. Bæta kryddinu við og leyfa þessu að malla í 1-2 mínútur.  Hræra vel í á meðan.

Bæta við sætum kartöflum og gulrótum, ásamt vatni og krafti. Leyfa suðunni að koma upp.  Setja þá kókosmjólk og niðursoðna tómata út í. Sjóða við vægan hita í um það bil 15 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.

Setja smátt skorið blómkálið út í pottinn og sjóða nokkrar mínútur til viðbótar.  Smakka svo bara súpuna til.

Það er auðvitað hægt að bera súpuna fram svona með grænmetinu grófsöxuðu.  Ég hins vegar ákvað að mauka súpuna þar sem að ég er mikið fyrir að fara í feluleik með grænmetið fyrir hin grænmetisfælnu börn. Áferðin á súpunni verður líka svo silkimjúk. Hægt er að mauka súpuna með töfrasprota, í blandara eða matvinnsluvél.

Ég bar súpuna fram með soðnu eggi, steinselju og setti örlítið af lífrænni grískri jógúrt með.