Thursday, September 20, 2012

Hafrabitar

Ótrúlega einfaldir og góðir bitar sem er gott að grípa í þegar manni langar í eitthvað að narta.  Það er enginn sykur eða sætuefni þessum bitum, döðlurnar sjá um að setja smá sætan keim í bitana. En hnetubragðið fær að njóta sín vel.  Þetta er því hollusta út í gegn.  Hægt er að leika sér svo mikið með hráefnin í þessari uppskrift, setja alls konar fræ, hnetur, þurrkaða ávexti og jafnvel banana og súkkulaði.  Ég hef prófað að setja pínu súkkulaði út í og það var rosalega gott.  Ég hef líka prófað að gera þessa uppskrift aðeins breytta og þá notað hana sem kökubotn með ferskum ávöxtum og rjóma.  Ég set fljótlega inn þá útgáfu.



3 1/2 dl haframjöl, ég nota tröllahafra
1 dl saxaðar valhnetur eða aðrar hnetur
1 dl döðlur skornar í bita, rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir
1/2 dl fræblanda, t.d. hörfræ, sesam, grasker, sólblóma.
1 tsk kanill
1 tsk sjávarsalt
1 tsk vanilluduft
1 egg
3 dl mjólk

Blanda saman þurrefnunum ásamt döðlum eða rúsínum. Hræra eggið og bæta mjólkinni í. Hella eggjablöndunni yfir þurrefnin og blanda vel.

Setja blönduna í lítið ferkantað form eða í eldfast mót.  Smyrja formið eða hafa bökunarpappír undir.  Baka í 35-40 mín. við 175°.

Leyfa bökunni að kólna í smá stund.  Skera svo í mátulega bita með pizzuhjóli eða góðum hníf.
Hægt er að pakka hverjum bita í plast og geyma í frysti, grípa svo með sér í nesti.


Tuesday, September 18, 2012

Kryddað haframúslí með hnetum

Morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins ekki satt?  Það er mikilvægt að byrja daginn á hollum og góðum morgunverði sem gefur manni rétta næringu og orku til að takast á við verkefni dagsins.  Oftast fæ ég mér einhvers konar útgáfu af hafragraut, chiagraut og/eða smoothie, en stundum er líka gott að breyta aðeins til.  Á Íslandi keypti ég oft múslí frá Himneskt og notaði út í ABmjólk eða jógúrt.  Hér úti hef ég hins vegar ekki fundið "rétta múslíið" ennþá. Þannig að þá er bara að búa það til, enda er það líka í langflestum tilfellum miklu hollara en búðarmúslíið.  Það er frekar einfalt að útbúa sitt eigið múslí og í raun getur maður leikið sér endalaust með hráefnin.  Ég ákvað að breyta til og hafa mitt aðeins kryddað með örlítið sætum keim og ilmurinn...maður lifandi, mætti halda að það væru komin jól bara ;)

3 dl tröllahafrar
4 msk hörfræ
1/2 dl kókosflögur
1/2 dl möndlur
1/2 dl valhnetur eða aðrar hnetur
1 1/2 tsk kanill
1 tsk vanilluduft
6 tsk kókosolía (fljótandi)
3 tsk agave sýróp

rúsínur/döðlur

Saxa hnetur og möndlur smátt.  Blanda saman öllum þurrefnum.  Blanda saman sýrópi og kókosolíu og hella svo yfir þurrefnin og blanda mjög vel saman.  Setja í eldfast mót og baka við 150° í um 1 klst eða þar til það er orðið vel þurrt.  En mikilvægt er að hræra vel upp í blöndunni á um 15 mínútna fresti.
Þegar múslíið hefur kólnað er rúsínum eða döðlubitum bætt í.

Múslíið er svo geymt í góðu íláti.  Notað á AB mjólkina eða í jógúrtina með ávöxtum.  Svo er líka hægt að útbúa svona sætt parfait ;)


Monday, September 17, 2012

Bakaður lax með sinnepsgljáa

Enn og aftur kem ég með uppskrift af lax.  En við hjónin höfum ekki enn fundið aðra fisktegund hér í Noregi sem okkur finnst virkilega góð.  Við höfum aðeins notað þorskinn, en okkur finnst báðum vera eitthvert aukabragð af honum sem við kunnum ekki við.  En laxinn hér er virkilega góður og getur verið nokkuð ódýr máltíð ef maður kaupir frosin laxafile.  Ég hef því verið að prófa mig áfram með ólíkar uppskriftir af laxinum.  Þessi uppskrift er algjört sælgæti, þó svo að mér finnnist þurfa fullmikið af hunangi í hana, en það skaðar kanski ekki svona stundum.



6-8 laxastykki

Raðað á ofnplötu eða stórt eldfast mót

1/2 dl dijon sinnep
2-3 tsk hunang

Hrært saman og smurt ofan á laxinn.

2 tsk dill
salt
pipar

Strá yfir laxinn.

1 rauðlaukur
4 hvítlauksgeirar

Saxa smátt niður og dreifa yfir laxabitana.

Baka í ofni við ca. 180° í 20 mínútur.
Bera fram með brúnum hrísgrjónum, grænmeti og góðri jógúrtsósu.

Saturday, September 15, 2012

Möndlukaka

Þessi kaka er afskaplega einföld og fljótleg.  Einnig er hægt að útbúa botn fyrirfram og eiga í frysti.  Uppistaðan er möndlumjöl, það fæst í heilsubúðum. En það er einnig hægt að útbúa mjölið með því að mala möndlur í fínan salla í matvinnsluvél.  Mér finnst betra að setja örlítið gróft spelt með í uppskriftina, finnst kakan annars verða lausari í sér, en það er vel hægt að sleppa speltinu alveg og þá er kakan glútenlaus.  Möndlur eru afskaplega næringaríkar og hafa góð áhrif á kólesteról.  Þær eru jafnframt taldar vinna gegn krabbameini.  Ég hef útbúið botninn bæði með xylosweet, kókossykri og hrásykri, en það er líka hægt að nota pálmasykur. Svo er hægt að leika sér með mismunandi útfærslur á fyllingu á kökuna.




65 g kókosolía (fljótandi)
1 egg
1 1/4 dl mjólk (gott að velgja hana aðeins)
100 g möndlumjöl, eða möndlur malaðar vel í matvinnsluvél
4 msk gróft spelt
3 tsk vínsteinslyftiduft
75 g pálmasykur, kókossykur, xylosweet eða annað slíkt

50 g dökkt lífrænt súkkulaði
ferskir ávextir

Blanda vel saman með handþeytara kókosolíu og eggi.  Passa að eggið sé ekki alveg kalt, því þá fer kókosolían í kekki.  Blanda mjólkini saman við.

Í annarri skál, blanda saman þurrefnunum.  Bæta þeim svo saman við vökvann og blanda vel.
Setja blönduna í smurt form (ca. 20-24 cm) og baka við 200° í ca. 25 mín.

Bræða 50 g af dökku lífrænu súkkulaði yfir vatnsbaði og setja þunnt lag af súkkulaði yfir botninn.  Skreyta svo með ferskum ávöxtum og bera ef til vill fram með þeyttum rjóma.

Sunday, September 9, 2012

Sætt helgarnammi

Í helgarlok vill sætindaþörfin vera dáldið sterk.  Þá er gott að útbúa sér sætindi, sem þagga alveg niður í sykurpúkanum hjá manni, en er samt sætt og gott.  Þessar kúlur innihalda döðlur sem gefa mjög sætt bragð og möndlur sem hafa jákvæð áhrif á blóðsykurinn.  Það er svo hægt að leika sér með annað innihald allt eftir því hvað manni finnst gott.  Ég hef líka sett stundum pínu haframjöl út í eða fræ.  Svo er ekki slæmt að stinga eins og tveimur kúlum með í nestispakkann.



14-15 döðlur (frekar stórar)
80 g möndlur
70 g kókosmjöl
3 msk dökkt lífrænt kakó
1 tsk vanilluduft
2 msk kókosolía
1 msk agave sýróp

Allt sett saman í matvinnsluvél og maukað vel saman.  Þetta verður dáldið laust í sér en það á samt að vera hægt að móta kúlur.  Ef það gengur illa, þá er bara að skvetta örlitlu vatni út í og blanda betur.  Þetta ættu að verða svona 15-18 kúlur.

Það er svo hægt að leika sér aðeins með hráefnin í þessu og setja jafnvel örlítið hnetusmjör út í, kakónibs eða jafnvel aðrar hnetur eða fræ. Ef vill er líka hægt að velta kúlunum upp úr kókosmjöli, kakói eða muldum hnetum.

Friday, September 7, 2012

Grænmetisbaka

Það er einfaldara en maður heldur að útbúa holla og góða grænmetisböku.  Upplagt að nýta líka grænmetisafganga sem til eru á heimilinu í bökuna.  Mér finnst gott að nota zucchini, þar sem það er bragðmilt og börnin því ekkert að kvarta.  Góð baka sómar sér vel sem kvöldmatur með góðu salati, eins getur hún verið gott meðlæti með öðrum mat.  Afgangar nýtast vel í nestisboxið.




Botn:

220 g gróft spelt
6 msk volgt vatn
4 msk ólífuolía
1 tsk sjávarsalt

Hræra öllu saman í skál, hnoða svo betur saman á borði. Passa að hnoða ekki of mikið samt.  Ef degið er þurrt þá bæta við aðeins meira vatni og olíu.  Fletja deigið út þannig að það nái að hylja bökuformið. Ætli ég sé ekki að nota form sem er um 22 cm.  Deigið á að ná vel upp á barmana.  Mér finnst best að fletja deigið út með plasti undir og yfir, þannig að það þarf minna hveiti og það klessist síður og er mun snyrtilegra.  Þrýsta deiginu svo vel niður í formið.

Fylling:

3-4 meðalstórar gulrætur
1 stórt zucchini
4 egg
1/4 dl mjólk
salt og pipar (mér finnst gott að nota herbamare salt)
smá rifinn ostur eða t.d. kotasæla. Ég setti um 1 dl af kotasælu. Má samt sleppa.

Hreinsa gulrætur og skera þær í litlar sneiðar.  Raða þeim ofan á botninn.  Skera zucchini í þunnar sneiðar (ég nota flysjara) og raða þeim yfir botninn.

Hræra vel saman egg, mjólk og krydd. Bæta osti út í ef hann er notaður og blanda vel saman.  Hella blöndunni yfir grænmetið og botninn.

Baka í ofni við 200° í ca 30 mín.


Wednesday, September 5, 2012

Muffins með gulrótum og rúsínum

Skólinn hjá börnunum er byrjaður með öllu tilheyrandi, heimalærdómi og nesti.  Þau fá ekki hádegismat í skólanum hérna eins og heima á Íslandi, þannig að ég þarf að senda þau með gott nesti í skólann.  Þau fá reyndar ávöxt í skólanum á morgnana, en allt annað þurfa þau að koma með að heiman.  Mér finnst mikilvægt að börnin fái góða næringu í skólanum og legg mig því fram við að gera gott og girnilegt nesti fyrir þau.  Ég tala nú ekki um þegar maður er með táning á heimilinu.  Því miður sér maður alltof mikið af krökkum úti í sjoppu eða bakaríi á skólatíma og við vitum vel að þau eru ekki þar til þess að kaupa sér grófkornabrauð og grænmetislasagne.

Til að börnin (já eða við hin) borði nestið sitt sem þau taka með sér að heiman verður það að vera eitthvað sem þeim finnst gott, skikkanlega sett fram (svo ég hljómi nú eins og gamall leiðarvísir fyrir húsmæður frá 1950) og auðvitað þarf nestið að vera svolítið fjölbreytt.  Það er lítið spennandi að taka alltaf upp bónusbrauð með osti eða einn banana.



Hér fyrir neðan er uppskrift af muffins sem eru hollar og góðar og sóma sér vel í hvaða nestisboxi sem er.  Þær eru ekki mjög sætar en samt með svona smá sætabrauðsbragði.  Það er hægt að skera þær í sundur og setja alls konar álegg á þær.  Það er líka hægt að setja meira af grófum fræjum í uppskriftina.



1 1/2 bolli gróft spelt
1/2 bolli haframjöl
3 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk salt (sjávarsalt)
1 tsk kanill

Öllu þessu er blandað saman í eina skál.

1 msk hörfræ
1 msk chia fræ
1 1/3 bolli léttmjólk eða soyjamjólk
1/3 bolli ólífuolía
2 egg
2 tsk agave sýróp

Blanda þessum hráefnum saman í aðra skál og hræra lítillega. Leyfa að standa í ca. 5 mínútur.

1 stór vel þroskaður banani
1 tsk vanilluduft
3-5 rifnar gulrætur (meðalstórar) verða ca. 2 bollar

Stappa bananann og blanda þessum hráefnum saman í þriðju skálina.

Blanda banana- og gulrótarblöndunni saman við vökvann.  Blanda því svo öllu saman við þurrefnin.  Hræra vel saman en gæta þess að hræra ekki of mikið.

3/4 bolli rúsínur

Bæta rúsínum út í blönduna og blanda vel saman við.

Setja í muffinsform og baka við 175° í um 25 mín.

Athugið að þær lyfta sér ekki mikið þessar, þannig að ég set aðeins meira í muffinsformin heldur en ég geri venjulega þegar ég baka muffins.

Þar sem að þessar muffins eru ekki mjög sætar, þá eru þær mjög góðar með smjöri og osti.

Tuesday, September 4, 2012

Hafrakex

Ég hef alltaf verið hrifin af hafrakexi.  Mér þykir það afskaplega gott með góðum osti, sultu eða jafnvel með ávöxtum.  Það fer líka vel með hvort sem er kaffi eða tei.  Hafrakexin sem maður kaupir úti í búð eru hins vegar með hvítt hveiti og sykur sem aðaluppistöðu, svo koma hafrarnir.

Ég hef verið að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem bragðið nýtur sín, en hollustugæðin eru líka í fyrirrúmi.  Hér birti ég eina af útgáfum mínum.  Aldrei að vita nema ég komi með fleiri útgáfur af hafrakexum hér síðar.  Þessi uppskrift er venjulega um 14-15 kökur, þannig að oft tvöfalda ég uppskriftina til að eiga nóg til því þær klárast nokkuð fljótt þessar.


 

2 bollar tröllahafrar
1/2 bolli gróft spelt
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk fínt sjávarsalt
1 stórt egg, við stofuhita helst
3 msk brætt smjör
2 msk hunang eða agave

Hafrarnir eru fínmalaðir í matvinnsluvél.  Síðan er öllum þurrefnum blandað saman í skál.
Blanda eggi, bræddu smjöri og hunangi saman við þurrefnin og blanda vel saman með sleif.  Þegar degið er farið að loða vel saman er það hnoðað á borði.

Athugið að bollamál hjá fólki geta verið mismunandi. Deigið á það til að verða full þurrt hjá mér, þá bæti ég örlitlu smjöri út í til viðbótar, jafnvel smá vatni.  Annars er mikilvægt að nota stórt egg, eða þá jafnvel tvö lítil.

Þegar deigið er komið vel saman er það flatt út þar til það er um 1/2 cm á þykkt.  Mér finnst best að fletja út með plast undir og yfir, það klessist mun minna og þá þarf ekki þetta auka hveiti sem gerir kexið bara þurrara.



Svo er að skera kökurnar út með góðu kökumóti.  Hnoða upp afskorningana og fletja út aftur.  Raða kökunum á pappírsklædda plötu og baka við 160° í 15-20 mín.  Leyfa kökunum að kólna og geyma þær svo í vel loftþéttu boxi, nú eða bara að borða þær strax.

Saturday, September 1, 2012

Norsk skyrterta

Ekki það að þessi uppskrift sé neitt norsk.  Mér hefur bara gengið dáldið illa að finna hráefnin í skyrterturnar sem ég geri venjulega, þannig að ég hef aðeins aðlagað mig að norsku vöruúrvali.  Venjulega geri ég botninn úr sykurlitlu hafrakexi sem ég hef keypt í heilsubúðum og stundum í Hagkaup, jafnvel blandað það með sykurlausu kexi með kanilbragði.  Kexúrvalið hér úti er hins vegar lítið og hvað þá af sykurlausum.  Þá er bara að bjarga sér og breyta aðeins út af vananum.  Ég er líka auðvitað með norskt skyr í þessu, en íslenska skyrið er að sjálfsögðu langbest.



Botn:

150 g möndlur
100 g haframjöl (gott að nota tröllahafra eða blanda saman)
1 tsk kanill
6 msk kókosolía
2 msk agave sýróp
örlítið af grófu salti mulið í.

Setja möndlur og haframjölið í matvinnsluvél og mala það nokkuð smátt.  Bæta hinum hráefnunum út í og setja vélina aðeins í gang aftur til að blanda þessu vel saman.  Þetta á ekki að verða að deigi, en á samt að geta klístrast örlítið saman.  Má bæta smá olíu út í og jafnvel smá vatni til að það loði betur saman.  Blandan er sett í botninn á bökuformi eða eldföstu móti.

Fylling:

2 litlar skyrdósir ( ég nota oftast vanillu eða bláberja, en í Noregi notaði ég vanillu/bláberjaskyr)
1 peli af rjóma
ávextir til að skreyta, t.d. bláber, vínber, bananar, jarðaber, kíwí, ég nota bara það sem til í ísskápnum.
smá dökkt súkkulaði rifið yfir. Það er sko enginn eftirréttur án súkkulaðis, enda er það meinhollt.

Þeyta rjómann og hræra skyrinu svo rólega saman við.  Dreyfa úr blöndunni yfir botninn og skreyta með ávöxtum.