Thursday, August 29, 2013

Sítrónu orkuboltar

Það er svo frábært að eiga svona holla bita þegar mikið er að gera. Mér finnst gott að taka nokkrar kúlur með mér í vinnuna og geta laumast í eina og eina inn á milli þess sem ég er að þjálfa.  Það hjálpar til við að halda orkunni uppi.  Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að þessar kúlur innihalda talsvert mikið af kaloríum.  Þannig að fyrir þá sem eru að telja er betra að fara varlega í kúlunum.  En það eru líka góðar fréttir.  Í kúlurnar set ég valhnetur og sesamfræ. Valhnetur eru góð uppspretta af omega-3 fitusýrum. Þær eru taldar vinna gegn krabbameini og ýmsum kvillum. Margir telja að valhnetur séu hollustu hneturnar sem við getum neytt.  Það sama má segja um sesamfræ, þau eru talin vera krabbameinshamlandi og talin lækka kólesteról og hjálpa til við að halda blóðþrýstingi í skefjum. Að eru þau rík af kalki sem mörgum okkar veitir víst ekki af að fá aðeins meira af.  Svo er það C-vítamín bomban sjálf sítrónan, ég gæti skrifað heila ritgerð hér um ágæti þessarar ofurfæðu.

Málið er bara að fara varlega í kúlurnar þær eru meinhollar, en ekki samt klára allan skammtinn á einum degi.  Þær geymast vel í ísskápnum í vel lokuðu íláti í nokkra daga.  Svo er um að gera að stinga einni og einni með í nestisbox fjölskyldumeðlima.



1 bolli valhnetur
1 bolli döðlur
3/4 bolli sesamfræ
safi úr 1 sítrónu, ca. 1/4 bolli
2 tsk rifinn sítrónubörkur (bara guli hlutinn, ekki hvíta)
1/2 tsk vanilluduft
1/2 bolli kókosmjöl

Mér finnst best að leggja döðlurnar í bleyti í smá stund, í kalt vatn eða ylvolgt.  Það er hægt að rista sesamfræin á pönnu fyrst ef þið viljið.  Mér finnst það gera betra bragð og minnka beiska braðgið sem getur stundum fylgt sesamfræjunum.  En þetta flokkast þá ekki sem hráfæði.  En þetta er bara smekksatriði.

Öllu nema kókosmjöli er blandað saman í matvinnsluvél og unnið þar til að myndast gott dáldið klístrað mauk.  Þá er að móta kúlur með teskeið og höndunum. Velta upp úr kókosmjöli og kæla.

Tuesday, August 20, 2013

Hollt og gott í hádeginu

Frískandi og gott í hádeginu, einfalt að útbúa og þú vekur örugglega athygli vinnufélaganna í hádegishléinu. Það er einfalt að hafa með sér allt sem þarf í þennan girnilega hádegisverð.  



1/2  kantalópa (melóna), má líka nota gula.
1/2 dós grísk jógúrt
1-2 dropar stevia eða örlítið hunang (má sleppa)
múslí helst lífrænt eða heimalagað
ferskir ávextir eða ber. Ég notaði bláber og jarðaber.

Hreinsa kjarnann úr melónunni. Ef þið viljið sæta jógúrtina þá blandið ykkar sætuefni saman við og setjið svo jógúrtina út í holuna á melónunni.  (það er líka gott að setja örlítið vanilluduft út í jógúrtina). Strá múslí og ferskum berjum yfir. 

Smoothie með ananas, appelsínu og hindberjum

Þetta er nýi uppáhalds drykkurinn minn.  Hann er svo ferskur og góður.  Fullkomnar heita sumarmorgna. Nú eða ef ekki er sól eða heitt, þá bara skreytir maður glasið meira og þykist vera í útlöndum :)
Annars er þetta fínasta orkuboost fyrir daginn.  Einfalt og fljótlegt að útbúa.

2 góðar og vænar sneiðar af ferskum ananas. 
Safi úr einni appelsínu
Handfylli af frosnum hindberjum

Setja allt í blandarann og blanda vel saman.  Hella í stórt glas og skreyta að vild :)

Wednesday, August 7, 2013

Simply Chocolate ávaxtapinnar

Við fjölskyldan skruppum til Kaupmannahafnar um daginn.  Fórum meðal annars í Tívolí að sjálfsögðu.  Þar sá ég lítinn stað "Simply Chocolate" þar sem hægt var að fá ávaxtapinna húðað með súkkulaði.  Það var talsverð röð þarna, þannig að ég ákvað að skella mér í röðina og prófa fínheitin.  Þetta var algjör draumur á priki.  Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir hollustudelluna í mér að þá er ég súkkulaðifíkill og á virkilega erfitt með að neita mér um súkkulaði.  Ég las einu sinni að 20 grömm af dökku súkkulaði á dag væru meinholl fyrir okkur.  Þannig að til öryggis passa ég mig á að borða alltaf aðeins meira en 20 grömm.  Ég er afskaplega þakklát fyrir dökkt, lífrænt sykurlaust súkkulaði ;)
En aftur að pinnunum.  Það er auðvitað afskaplega einfalt að útbúa sér sambærilega pinna heima.  Ég ákvað að prófa þegar ég var komin heim aftur.  Að sjálfsögðu með hollara súkkulaði og kanski ekki eins rosalega miklu.

Þetta er í raun ekki uppskrift heldur bara hugmyndir um hvernig hægt er að útbúa pinnana.



Þú þarft:

Nokkra tré grillpinna
Ávexti að eigin vali, allt sem er auðvelt að þræða upp á prik kemur til greina, endalausir möguleikar.
(ég notaði, banana, ananas, jarðaber, bláber, og þurrkaðar aprikósur)
Dökkt súkkulaði að eigin vali ca. 100-120 g á fjóra pinna.
Kókosmjöl eða saxaðar hnetur að eigin vali til að strá yfir.  Einnig gott með þurrkuðum jarðaberjum ef þið finnið þau einhversstaðar.

Skera ávextina í góða bita.  Þræða upp á pinna. Bræða súkkulaði yfir vatnsbaði.  Nota skeið til að hjúpa pinnana með súkkulaði.  Strá kókosmjöli eða hnetum yfir.  Leggja pinnana á bökunarpappír og geyma í kæli í ca. 10 mínútur, svo að súkkulaðið nái að storkna.



Þetta er dásamlegur eftirréttur eða bara kvöldsnarl.  Möguleikarnir eru endalausir.  Gaman að hver og einn fái að útbúa sinn pinna.  Í Köben var hægt að velja úr dökku súkkulaði, mjólkur og hvítu. Eins var í boði að setja sætindi eins og núggat, marshmellows og lakkrís með á pinnana.  Ég reyndar prófaði með sultuðum engifer og það var rosalega gott.  En með því að halda sér við ávextina og gott dökkt súkkulaði förum við ekki fram úr sjálfum okkur í óhollustunni, þó svo að gaman sé að prófa aðrar útgáfur stöku sinnum ekki satt ;)


Hvítlauks bakað zucchini

Ég kaupi stundum zucchini og hugsa með mér að það sé fínt að eiga þetta ef ég er að grilla grænmeti eða steikja á pönnu.  En ég er bara hrikalega gjörn á að gleyma þessu blessaða zucchini í ísskápnum.  Stundum þarf ég hreinlega að henda því, eða þá að ég geri eins og svo oft, set það í eldfast mót með sætum kartöflum og baka í ofni.  Ég veit að það er svo margt hægt að gera úr þessum græna þannig að það er algjör synd að ég skuli alltaf bara gleyma honum og enda svo með því nota hann alltaf á sama hátt.

Um daginn skellti ég mér í búðina og keypti zucchini eins og svo oft áður.  Að þessu sinni var ég staðráðin í því að malla eitthvað sniðugt úr því strax og ég kæmi heim, áður en það myndi gleymast.  Ég ákvað að prófa að elda það á svipaðan hátt og ég hef stundum gert með sætar kartöflur.  Útkoman var mjög fín. Zucchini er svo hlutlaust þannig að það tekur einfaldlega í sig bragð af kryddum og því sem maður notar með.  Hér fær því hvítlauksbragðið að njóta sín vel.

Ég er hreinlega ekki viss hvort zucchini flokkist sem grænmeti eða ávöxtur, það virðist vera eitthvað misjafnt. En hvað sem því líður þá inniheldur það mikið af trefjum og margar gerðir stein- og snefilefna sem eru mikilvæg fyrir okkur.  Það er ríkt af bæði C- og A- vítamínum.  Það inniheldur nánast engar kaloríur, svona fyrir þá sem eru að telja.  Zucchini er talið hjálpa til við að halda blóðþrýstingnum í skefjum þar sem það inniheldur potassium. Potassium þarf að vera í réttu hlutfalli við sodium.  En sodium er talið hafa einmitt neikvæð áhrif á blóðþrýsting.  Skyndibitamatur og mikið unninn matur inniheldur að öllu jöfnu hátt hlutfall af sodium.  Þannig að neysla á zucchini og potassium hjálpar til við að ná réttu jafnvægi þarna.


2 zucchini skorin í bita
3-4 hvítlauksrif
1-2 msk kókosolía (eða græn jómfrúarolía) 
salt og pipar
örlítið rósmarin

Skera zucchini í bita og setja í skál.  Merja hvítlaukinn og setja út á. Krydda eftir smekk og setja að lokum olíuna út á.  Þarna er mikilvægt að kókosolían sé í fljótandi formi. Hún harðnar um leið farið er að blanda henni saman við.  Ég var því með skálina yfir heitu vatni á meðan ég blandaði öllu vel saman. 
Setja bökunarpappír á bökunarplötu.  Dreifa vel úr blöndunni á pappírinn.  Baka í ofni í ca. 20 mín við 180° C eða þar til zucchini fær á sig gylltan blæ. 

Þetta er frábært meðlæti með nánast hverju sem er.  Ég hafði þetta hreinlega sem aðalrétt með góðu salati.  


Thursday, August 1, 2013

Tamari möndlur í helgar nartið

Það eru tvö ár síðan að ég ákvað að taka sjálfa mig í gegn og gera tilraunir til heilbrigðara lífs.  Það var erfitt til að byrja með og ég var alltaf eitthvað svo hugmyndasnauð með það hvað ég gæti eldað og borðað.  Í kjölfarið setti ég í gang þessa bloggsíðu til þess að halda utan um það sem ég var að fikra mig áfram með í eldhúsinu.  Um leið varð bloggsíðan meiri hvatning fyrir mig að halda áfram.

Til að byrja með var erfitt að finna snarl og eitthvað til að narta í á milli mála.  Flögur, kex og fleira í þeim dúr var liðin tíð.  Í staðin komu inn grænmeti, ávextir, hnetur, fræ og fleira í þeim dúr.  Mér var ráðlagt að borða möndlur til að byrja með til að halda blóðsykrinum í skefjum og hjálpa mér í gegnum fyrstu vikurnar á "afeitruninni".  Það gekk bara nokkuð vel, en stundum langaði mér í eitthvað aðeins meira bragð og svona.  Ég keypti stundum til tilbreytingar Tamari möndlur úti í búð sem voru að sjálfsögðu rándýrar.  Ég hafði heyrt að það væri ekkert mál að útbúa sjálf svona tamari möndlur, þannig að þegar ég fjárfesti í fyrsta skiptið í Tamari sósu ákvað ég að prófa. Og já þetta var sko ekkert mál, enda er ég alveg hætt að kaupa Tamari möndlur úti í búð.

Tamari sósa er í raun japanskt afbrigði af sojasósu, búin til úr miso.  Hún er talsvert dekkri og bragðmeiri en venjuleg sojasósa.  Hún er inniheldur ekki glúten og er að öllu jöfnu laus við öll óæskileg aukaefni.  Hún er því góður kostur fyrir þá sem vilja sneiða hjá glúteini.

Möndlur eru meinhollar og stútfullar af næringarefnum á borð við fólinsýru, kalk, magnesium og E-vítamín.  Og já þær innihalda slatta af fitu, en engar áhyggjur því þetta er holla og góða fitan sem líkaminn okkar þarfnast (ómettaðar fitusýrur).


Handfylli, ca. 100 g af möndlum með hýði. 
smá skvetta af Tamari soja sósu  (ca 2 msk)

Möndlurnar eru settar á heita pönnu og ristaðar þar í stutta stund. Kanski 1-2 mínútur eða þar til þið finnið yndislega möndluangan.
Taka pönnuna af hitanum og hella Tamari sósunni yfir möndlurnar á pönnunni.  Setja aftur á vægan hita og hræra stanslaust í.  Brúna þar til sósan er uppþornuð á pönnunni. (tekur mjög stutta stund).  Það lítur út fyrir þarna að allt sé að brenna við pönnuna.  Þá er bara að stoppa og hella möndlunum yfir á smjörpappír og leyfa þeim að standa þar í smá stund.  Engar áhyggjur það er lítið mál að hreinsa pönnuna.  Ég hef líka prófað að setja möndlurnar inn í ofn í smá stund og rista þær betur þar, (minna álag á pönnuna þannig), en yfirleitt læt ég bara duga að brúna þær á pönnunni. 

Þá er þetta tilbúið.  Geyma möndlurnar í glerkrukku.  Ekki borða þetta allt á einu kvöldi :)
Það er t.d. fínt að hafa með sér nokkrar möndlur í nestisboxinu, brytja þær niður og setja út á salat nú eða bara narta í þær á milli mála þegar snakkþörfin er að taka völdin.

Wednesday, July 31, 2013

Ýsa með timian og appelsínu

Soðinn ýsa með kartöflum og gulrótum er alltaf vinsælasti fiskrétturinn á mínu heimili.  Manninum mínum finnst ég hreinlega vera að eyðileggja fiskinn með því að reyna að gera einhverja fína ofnrétti úr honum.  En stundum bara verð ég að breyta aðeins til og prófa mig áfram með nýja rétti.  Ég mundi eftir að hafa séð einhversstaðar uppskrift af ýsu í appelsínulegi, en fann uppskriftina svo hvergi aftur.  Ákvað því bara að prófa mig áfram sjálf.  Ég á nánast alltaf fisk í frystinum og yfirleitt leynast ein eða tvær appelsínur einhvers staðar.  Hráefnin í þessa uppskrift eru því oftast til í kotinu.  Útkoman varð þessi fíni fiskréttur sem að allir voru ánægðir með, meira að segja eiginmaðurinn.

 
 


1 - 1,2 kg ýsuflök eða annar fiskur svo sem þorskur.
safi úr einni stórri appelsínu
1 1/2 msk rifinn appelsínubörkur
1/2 - 1 tsk salt (ég notaði herbamare)
1/2 tsk nýmalaður svartur pipar
1 1/2 tsk timian (aðeins meira ef ferskur)
örlítið rósmarín

Hreinsa fiskinn, skera í bita og raða í eldfast mót.  Hella appelsínusafa yfir.  Strá yfir kryddi og appelsínuberki.  Bakað í ofni við 180° C í 15-20 mínútur.  Berið fram t.d. með sætum kartöflum og góðu salati.

Wednesday, July 24, 2013

Muffins í ferðalagið

Dóttir mín sem er 8 ára er yfirbakari þegar þessar eru bakaðar.  Þetta er góð grunnuppskrift sem er svo hægt að leika sér með.  Þær eru sætar og góðar án þess að vera of sætar.  Einfaldar og fljótlegar muffins sem er upplagt að taka með sér í bústaðinn eða útileguna.



50 g smjör
3/4 dl kókossykur
1 egg
3 dl gróft spelt
3 tsk vínsteinslyftiduft
1 1/2 tsk vanilluduft
1 dl mjólk (venjuleg, soja eða hvað sem hentar best)

100 g dökkt súkkulaði, hnetur, rúsínur, bláber eða annað sem ykkur finnst gott að setja út í.

Bræða smjörið og setja í skál.  Bæta kókossykri út í og hræra vel saman.
Bæta egginu saman við og blanda vel saman við.
Setja þurrefnin út í og blanda vel.  Vætið í með mjólkinni.  Þá er að bæta við súkkulaði, hnetum eða öðru ef þið viljið og blanda vel saman við deigið.



Deigið er sett í muffinsform.  Bakað við 175° í ca. 12-16 mín.

Við höfum stundum brætt dökkt súkkulaði og sett yfir.  Eins er gott að bæta við 1-2 msk af dökku kakói út í deigið.  Bara um að gera að prófa sig áfram.

Wednesday, June 12, 2013

Ávaxtaskál

Eins og ég hef örugglega sagt hér áður elska ég morgunverð sem bragðast eins og desert en hefur alla þá hollustu sem góður morgunverður þarf að hafa.  Ég gerði tilraun með ávexti um daginn og bætti við möndlum og hörfræjum.  Smá kanill yfir gerði gæfumuninn og úr varð sannkallaður draumur úr skál.  Upplagt að útbúa sér svona ávaxtaskál hvort sem er í morgunverð, sem millimál nú eða jafnvel sem nesti.  Til tilbreytingar er hægt að fá sér örlitla gríska jógúrt með.



1 lítill banani
1/2 pera
nokkur bláber
1 tsk hörfræ
6-8 möndlur
1/2 tsk kanill

Skera banana og peru í litla bita og setja í litla skál ásamt bláberjum. Ef þú getur mulið hörfræin þá er það fínt annars bara að nota þau eins og þau eru og strá yfir.  Saxa möndlurnar og strá yfir.  Strá að lokum kanil yfir og blanda öllu saman.  Njótið :)

Tuesday, May 28, 2013

Bara rabarbarapæ með eplum

Ég elska hreinlega að hafa rabarbara í garðinum. Það minnir mig óneitanlega á gamla góða tíma í sveitinni þar sem hlaupið var út í garð og náð í nokkra rabarbarastilka til að búa til graut eða gott pæ þegar gesti bar að garði.  Gallinn er bara þetta súra bragð sem maður hefur víst vanist á að dempa niður með sykri og þá engu smá magni.  Þessa dagana er ég að prófa mig áfram með að vinna úr rabarbaranum og draga þá úr sykurmagni eða nota náttúrulegan sykur hefur lítil sem engin áhrif á blóðsykur.  Þetta er ekki auðvelt...en þetta er allt að koma.   Mér finnst nefnilega rabarbarinn góður þrátt fyrir allt og ekki skemmir að hann er bara nokkuð hollur, t.d. ríkur af C og K vítamínum og rauði hlutinn af stilknum er ríkur af A vítamínum.  Nú og svo inniheldur þetta ódýra hráefni nánast engar kaloríur (svona fyrir þá sem eru að telja).  Hér birtist fyrsta rabarbarauppskriftin en vonandi tekst mér að setja saman fleiri á næstu dögum.




4 góðir rabarbarastilkir ca. 2-300g
3 epli
2 tsk kanill
2 msk hörfræ
1 dl möndlur saxaðar

Skera rabarbara og epli í smáa bita og setja í eldfast mót.  Strá yfir kanil, hörfræjum og söxuðum möndlum.

1 1/2 dl tröllahafrar
1 1/2 dl gróft spelt
1 dl kókossykur
125 g smjör (ekta íslenskt)

Setja þurrefni í skál og mylja smjörið yfir og hnoða gróflega saman.  Þetta má alveg vera pínu þurrt.  Deigið er svo mulið gróflega yfir rabarbarann og eplin í eldfasta mótinu. Dreifa vel yfir allt.

Handfylli kókosflögur

Dreift yfir allt.  Baka í ofni við 180° C í ca. 20 mínútur.  Bera fram með t.d. kókosrjóma, kasjúrjóma, venjulegum þeyttum rjóma, hollum ís eða eins og ég gerði með blöndu af þeyttum rjóma, jógúrt og vanillu. En þá þeyti ég rjómann og bæti svo öðru eins af hreinu jógúrti út í og hræri saman við ásamt vanilludufti.


Thursday, May 9, 2013

Bakaður fiskur með grænmeti og sætum kartöflum

Það er ótrúlegt hvað ég var farin að sakna þess að fá ekki íslenskan fisk.  Kanski maður hafi tekið honum sem of sjálfsögðum hlut heima á Íslandi.  Ég gerði mér ekki grein fyrir að ég myndi sakna þess svona mikið á fá ekki góðan fisk.  Fiskurinn hérna í Noregi er bara ekki eins góður.  Ég veit ekki hvað það er.  Við höfum gert nokkrar tilraunir þá aðallega með þorsk og hann hefur verið misgóður (já eða vondur).  Það var því mikil gleði þegar við fundum út hvar við gætum keypt íslenskan fisk. Nú vill frúin helst elda fisk alla daga. Í uppskriftinni sem hér kemur á eftir er hægt að nota nánast hvaða hvíta fisk sem er hvort sem hann er íslenskur eða ekki.  Ég hef notað bæði ýsu og þorsk.

1 kg flök af hvítum fiski s.s. ýsu eða þorsk

Roðfletta og beinhreinsa ef þar. Skera flökin í litla bita og raða í botninn á eldföstu móti.

1 sæt kartafla
3 gulrætur
1 paprika
1 laukur
1 msk kókosolía

Hreinsa grænmeti og skera í frekar smáa bita. Steikja á pönnu upp úr kókosolíunni.

Salt ( ég nota Herbamare)
pipar
oregano
Basil, ekki verra að nota ferskt
1 lítil dós tómatmauk (organic helst) ca 100 g.
1 organic grænmetisteningur
4 bollar vatn

Bæta kryddi á pönnuna. Setja svo tómatmauk, vatn og kraft út í.  Leyfa þessu að malla í um það bil 15 mínútur. Smakka til og krydda eftir þörfum.

Hella grænmetisblöndunni yfir fiskinn í mótinu.  Dreifa vel úr. Strá rifnum osti yfir.  Baka við 180° C í 20 mínútur.  Bera fram með góðu salati og jafnvel örlitlum sýrðum rjóma.



Thursday, May 2, 2013

Litlir kanilsnúðar

Kanilsnúða sambærilega þessum hef ég gert í mörg ár.  Þeir eru nokkuð einfaldir og alltaf gott að eiga poka í frystinum til að grípa í þegar það koma gestir.  Eins finnst mér tilheyra að taka þá með í ferðalög eða upp í sumarbústað.  Að sjálfsögðu er ég búin að laga uppskriftina aðeins til og gera hana aðeins hollari.  Það er ekki mikill sykur í uppskriftinni og því litla sem er hefur verið skipt út fyrir kókos- eða pálmasykur, en einnig er hægt að nota önnur sætuefni ef vill.

8 dl gróft spelt
200 g smjör (ekta íslenskt)
4 tsk kókossykur
7 tsk vínsteinslyftiduft
2 egg
2 dl mjólk

Fylling:
ca. 25 g bráðið smjör
6 msk kókossykur
2-3 tsk kanill

Blanda saman öllum þurrefnum í skál.  Mylja kalt smjörið út í og blanda vel með höndunum.  Bæta í eggjum og hluta af mjólk, væta svo í eftir þörfum.  Hnoða lítillega á borði í sprungulaust deig. Skipta deiginu í tvo hluta og fletja hvorn hluta út með kökukefli í þunnar kökur, má vera nokkuð þunnt kanski ca. 1/2 cm þykkt.  Setja bráðið smjör ofan á og dreifa vel og jafnt yfir kökuna.  Strá blöndu af kanil og kókossykri yfir og rúlla kökunum þéttingsfast upp.  Skera rúlluna í litlar sneiðar, ca. 1 1/2 cm þykkar.  Raða snúðunum á plötu og þrýsta örlítið á þá svo þeir verði aðeins þéttari og fari ekki í sundur í bakstrinum.  Baka við 200° C í 10-15 mínútur eða þar til snúðarnir verða ljósbrúnir.

Sunday, April 21, 2013

Hrákaka með brómberjum og súkkulaði

Blandarinn minn bilaði í haust og ég hef því ekki verið nógu dugleg að gera boost-drykki og fleira þess háttar eins og áður.  Í haust frysti ég fullt af brómberjum úr garðinum í litlum skömmtum einmitt til þess að nota í drykki og fleira. En svo gleymdi ég þeim bara í frystinum og hef því lítið notað af þeim í vetur.  Ég ákvað því að gera tilraun með að nota þau í hráköku.  Það er auðvitað hægt að nota aðrar berjategundir í kökuna eins og t.d. hindber eða jarðaber eða blanda saman berjaafgöngum úr frystinum. Hér er mikilvægt að kókosolían hitni ekki um of svo að hún haldi eiginleikum sínum sem hrávara.

Marmelaðið sem hér er gert og notað sem fylling í kökuna er einnig hægt að geyma í kæli í nokkra daga og nota á kex eða brauð.  Ég hef gert margar útfærslur af slíku marmelaði þar sem ég nota afgangsber úr frystinum og sæti með döðlum.  Bæti stundum við pínu kanil, en hann eykur örlítið geymsluþolið ásamt því að bragðbæta. Þetta er afskaplega holl útgága af marmelaði  :)



Botn:

2 dl hnetur, t.d. pekanhnetur, kasjú eða valhnetur. Má líka blanda saman.
1 msk akasíuhunang
2 msk kókosolía mjúk eða brædd yfir vatnsbaði (má ekki hitna)
klípa af grófu salti.

Vinna hnetur í mjöl í matvinnsluvél. Bæta hinum hráefnunum saman við og vinna vel saman.  Þjappa í lítið form eða í muffinsform.  Á að vera um 1/2 cm þykkt.  Geyma í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling / Marmelaði:

200 g brómber eða önnur ber, fersk eða frosin. (ef frosin leyfa þeim að þiðna í ca. 20 mín)
6-8 döðlur

Vinna saman í matvinnsluvél eða blandara berin og döðlurnar.  Mér finnst best að láta döðlurnar liggja í bleyti í nokkrar mínútur áður þá verða þær mýkri.  Má bæta við fleiri döðlum ef þið viljið hafa marmelaðið sætara.  Setja marmelaðið yfir botninn og kæla.

Súkkulaði hjúpur eða sósa:

1 1/2 dl kókosolía (bræða yfir vatnsbaði en ekki láta hitna)
1-1 1/2 dl dökkt kakó (kakó er misjafnlega bragðsterkt og því betra að byrja að setja aðeins minna magn og smakka sig til.
1/3- 1/2 dl agavesýróp

Blanda vel saman öllum hráefnum og bara að smakka sig áfram, sumir vilja ekki of sterkt kakóbragð og aðrir vilja blönduna sætari.
Hér er síðan hægt að fara tvær leiðir, nota súkkulaðiblönduna sem sósu sem borin er fram með kökunni eða setja sósuna yfir kökuna og leyfa henni að standa í kæli í ca. 40-50 mín. þannig að sósan storkni og myndi hjúp.  Athugið að marmelaðifyllingin storknar ekki og kakan getur því orðið dáldið klessuleg þegar hún er skorin.

Um að gera að skreyta kökuna með ferskum berjum og bera jafnvel rjóma fram með henni.
Athugið að þetta er ekki stór uppskrift og kemst því bara í mjög lítil form, en hún dugar samt vel fyrir 4-6 persónur.  En þá er bara að tvöfalda.


Ég ætlaði að taka mynd af kökusneið á disknum mínum, en gleymdi mér aðeins og áðurn en ég vissi af var bara allt búið.

Friday, April 19, 2013

Sólarsúpa með appelsínum og gulrótum

Þessi súpa minnir mann einfaldlega bara á sumar og sól. Hún er stútfull af hollum hráefnum.  Gulrætur innihalda mikið af vítamínum og steinefnum sem gera okkur gott og eru þær meðal annars góðar fyrir sjónina og húðina okkar.  Appelsínur hjálpa til við að lækka kólesteról í blóðinu og hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting. Þær eru innihalda mikið magn af C-vítamínum og eru því góðar fyrir ónæmiskerfið.



4 stórar gulrætur, skornar í litla bita
1 stór laukur skorinn í bita
1 sellerí stöngull skorinn í bita
1 msk kókosolía

Setja kókosolíu í pott og mýkja grænmetið í kókosolíunni við vægan hita.

2 appelsínur börkurinn rifinn smátt með litlu rifjárni og safinn kreistur úr setur út í síðar.
2 teningar grænmetiskraftur (organic og helst gerlaus)
1 lítri vatn
handfylli af rauðum linsubaunum (og kanski rúmlega það) þær þykkja súpuna.

Appelsínubörkurinn er rifinn með litlu rifjárni (bara appelsínuguli hlutinn, ekki nota hvíta hlutann) og settur út í bottinn, leyfa honum að kraum með grænmetinu í 1-2 mínútur.  Setja þá vatn og grænmetiskraft út í ásamt linsubaununum. Sjóða súpuna í nokkrar mínútur eða þar til gulræturnar og baunirnar eru gegn soðnar.  Þá þarf að mauka súpuna, ég notaði töfrasprota en það er líka hægt að skella súpunni í blandara í litlum skömmtum eða í matvinnsluvél.  Setja súpuna aftur í pottinn.

Appelsínusafi úr 2 appelsínum
1 tsk hunang eða ca. 2-3 dropar af steviu.
salt
pipar

Bæta við út í súpuna kreistum safa úr appelsínunum og örlitlu hunangi eða steviu.  Best er að smakka bara aðeins til því ef appelsínurnar hafa verið súrar gæti þurft örlítið meira.  Bæta svo salti og pipari út í eftir þörfum.  Blanda vel saman og hita súpuna að suðu og bera svo fram með góðu og grófu brauði.  Mér finnst alltaf gott að setja örlitla klípu af grískri jógúrt út á súpur.

Unaðslegar döðlutrufflur

Föstudagur og mig langaði í sæta mola með kaffinu mínu, en eitthvað lítið til í kotinu víst.  En því  var bara reddað með þessum sætu trufflum.  Það gerist ekki mikið einfaldara og fljótlegra en þetta.  Aðeins þrjú hráefni og í matvinnsluvélina.



1 bolli döðlur (ef þær eru þurrkaðar set ég þær í ylvolgt vatn í nokkrar mínútur fyrst)
2 tsk kókosolía (við stofuhita)
2 tsk dökkt kakó

kókosmjöl, kakó eða t.d. hnetumolar til að velta kúlunum upp úr.

Vinna döðlurnar í matvinnsluvél í 2-3 mínútur og bæta hinu út í og vinna í aðrar 2 mínútur.  Útbúa litlar kúlur úr gumsinu og velta upp úr t.d. kókosmjöli, kakói eða hnetum.  Best að leyfa kúlunum að standa í kæli í nokkrar mínútur, t.d. á meðan hellt er upp á te eða kaffi. En ég verð að viðurkenna að mínar kúlur náðu ekki allar inn í ísskápinn ;) 

Saturday, April 13, 2013

Marinerarður kjúklingur á grillið með indversku ívafi

Vorið er á næsta leyti.  Það var í fyrsta skipti í dag sem ég fann fyrir smá vorfíling og ákvað því að grilla eitthvað hollt og gott.  Ég hef alltaf verið frekar löt að grilla kjúkling, bæði hefur mér það fundist vera of mikið vesen og ég alltaf eitthvað stressuð yfir því að kjúllinn sé hrár.  En mér hefur farið fram í þessu er farin að grilla kjúkling oftar.  Hér á eftir fylgir uppskrift af jógúrtmarineringu með dáldið indversku ívafi sem passar mjög vel með kjúkling.  Gott er að útbúa marineringuna kvöldið áður, eða strax að morgni þannig að kjúklingabitarnir geti legið í marineringunni í góðan tíma fyrir matreiðslu.  Ég mæli með 8-14 tímum.



1 bolli hrein jógúrt
2 msk sítrónusafi
1 lítill laukur mjög smátt skorin
4 hvítlauksgeirar marðir
1 msk ferskur rifinn engifer
1 tsk paprikuduft
1 tsk kuminduft
1 tsk grófmalaður pipar
1 tsk gróft sjávarsalt

5-6 kjúklingabringur

Blanda vel saman öllum hráefnum í marineringuna.  Setja kjúklinginn í fat og hellla marineringunni yfir og velta bitunum vel upp úr henni.  Láta standa minnst 8 klst. jafnvel líka í ísskáp yfir nótt.

Svona lítur kjúklingurinn út í marineringunni áður en hann fer á grillið.

Mér finnst best að pakka kjúklingabringum inn í álpappír og grilla þannig. Grilla þær í 8-10 mínútur á hvorri hlið. Eins nota ég stundum álbakka, en foraðst að setja bringurnar beint á grillið nema þá kanski bara 1-2 mínútur í lokin til að fá grilláferðina.

Bera fram með góðu salati, jógúrtsósu og grilluðum sætum kartöflum.

Grillaðar sætar kartöflur

Grillaðar sætar kartöflur eru frábærar með öllum grillmat.  Hér kemur einföld og góð uppskrift af grilluðum sætum kartöflum.  



2 stórar sætar kartöflur.

Afhýða kartöflurnar og skera í sneiðar um 1 1/2 cm þykkar.  Raða sneiðunum á álbakka (grillbakka).  

4 msk græn ólífuolía (extra virgin)
3 hvítlauksgeirar marðir
1-2 msk rósmarin
1 tsk grófmalaður svartur pipar
1 tsk gróft sjávarsalt

Blanda öllu saman. Leyfa blöndunni að standa í nokkrar mínútur.  Pensla yfir kartöflurnar, báðar hliðar.  Leyfa kartöflunum að standa í 20-30 mínútur áður en þær eru settar á grillið.  Skella álbakkanum á grillið á nokkuð góðum hita, ekki alveg hæsta samt.  Grilla í 7-10 mínútur, snúa svo kartöflusneiðunum við og grilla í 7-10 mínútur til viðbótar.  

Friday, March 1, 2013

Góðar speltbollur án gers.

Rosalega einföld, fljótleg og góð uppskrift af bollum sem eru bæði sykur og gerlausar.  Þær henta vel með súpum, pottréttum eða bara með kaffinu og góðu áleggi á góðum degi.



300 g gróft spelt
100 g tröllahafrar (má nota venjulegt haframjöl líka)
4 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk gróft sjávarsalt
100 g fræblanda, t.d. sólblómafræ, hörfræ, sesam.
4 1/2 dl lífræn AB mjólk, lífræn jógúrt eða grísk jógúrt
1 msk olía

Blanda öllum hráefnum saman í skál, hnoða svo betur saman á borði.  Móta bollur úr deiginu.  Ég fæ um 12 góðar bollur úr þessu.  Pensla með mjólk eða eggi og strá aðeins af fræjum yfir.
Baka bollurnar við 200° C í ca. 20 mínútur.

Monday, February 11, 2013

Litlar valentínusar hrákökur

Valentínusardagurinn nálgast og því fannst mér upplagt að gera eina af hrákökunum mínum í valentínusarbúningi.

Þetta eru afskaplega hollar og góðar litlar kökur og frekar einfalt að útbúa þær.  Botnarnir eru unnir úr hnetum og döðlum, kremið er svo kasjúrjómi. (Uppskrift af kasjúhneturjóma má finna hér). Sem skraut nota ég að sjálfsögðu jarðaber sem mér finnst vera einkenni fyrir valentínusardaginn.  Jarðaber eru mjög holl enda full af C- vítamíni.  Þau hafa góð áhrif á blóðþrýsting og kólesteról og hafa einnig verið orðuð við það að reynast vel gegn krabbameinum.


Botnar:

1/2 bolli möndlur
1/2 bolli kasjúhnetur
1/2 bolli döðlur
1/2 bolli kókosflögur
1 tsk vanilluduft
nokkur korn gróft salt

Möndlur og hnetur settar í matvinnsluvélina og unnið vel.  Bæta öðrum hráefnum út í og vinna vel þar til allt loðir vel saman.  Sett í botninn á muffinsformum ca. hálft form.  (ég nota pappírsform en hef þau ofan í álformum til á ná betri lögun).  Kæla á meðan kasjúrjóminn er útbúinn.  Uppskriftina af kasjúrjómanum má finna hér.  Í þessar kökur setti ég safa úr 1/2 appelsínu út í rjómann í stað þess vökvamagns sem gefið er upp í uppskriftinni til að fá betra og ferskara bragð af rjómanum.  Ég ætlaði að setja örlítið af jarðaberjum út í kremið líka til að fá bleikan lit á kremið en gleymdi því svo.


Kremið er sett á kökurnar og þá er að leyfa því að kólna í dálitla stund.  Skreyta svo með jarðaberjum og örlitlu af dökku súkkulaði.  Geyma í kæli eða jafnvel í frysti.


Sunday, February 10, 2013

Kasjúhneturjómi

Kasjúhneturjóma nota ég með kökum, pönnukökum, bollum og já öllu mögulegu.  Hann er hægt að bragðbæta á ýmsa vegu t.d. með því að setja niðurskorin jarðaber út í, nota appelsínusafa eða jafnvel kakó.  Það er nokkuð einfalt að útbúa kasjúhneturjóma, en það er nauðsynlegt að vera með góðan blandara eða matvinnsluvél.  Hér kemur mín útgáfa af kasjúhneturjóma.

1 bolli kasjúhnetur (betra að leggja þær í bleyti í 2-3 tíma)
2 tsk agave eða gott hunang. Má líka nota 4-5 döðlur sem hafa legið í bleyti í smá stund.
1/2 tsk vanilluduft
2-3 msk vatn eða safi úr sítrónu eða appelsínu.

Vatnið látið leka af hnetunum og þær settar í matvinnsluvél og maukaðar vel.  Þetta getur alveg tekið 3-4 mínútur.  Stoppa aðeins inn á milli og skafa vel niður.  Bæta agave út í (eða döðlum) og mauka enn betur.  Bæta vanilludufti út í ásamt örlitlum vökva - ekki setja of mikinn vökva í einu heldur smá saman bæta við eftir þörfum.  Leyfa þessu að maukast aðeins betur og muna að skafa vel niður inn á milli.  Kasjúhneturjóminn verður með dáldið grófri áferð en mér finnst takast betur til þegar ég set hann í blandarann í smá stund í lokin.

Bragðbætið rjómann að vild.

Eins og áður segir er kasjúhneturjóminn góður með ýmsum kökum, á vöfflur eða pönnukökur eða á bollurnar.

Thursday, January 24, 2013

Súper djús

Djúsar úr ferskum ávöxtum og grænmeti geta verið rosalega góðir.  Sjálf er ég meira fyrir að gera smoothie í blandara þar sem að þar eru aldinkjötið úr ávöxtunum er með.  En stundum breyti ég til og skelli öllu í djúsvélina.  Eins er fínt að nota djúsarann til þess að pressa grænmetissafa og setja með í smoothíinn (úff hvernig skrifar maður þetta eiginlega).  

Djús uppskriftin sem hér kemur á eftir er algjör orkubomba og full af andoxunarefnum, C- og A-vítamínum og er því upplagt að byrja daginn á slíkri bombu.  Ekki veitir af á meðan inflúensan er á sveimi yfir öllu. 

Ferskur engifer er eitt af þeim hráefnum sem mér finnst gott að nota í matargerð og ég reyni að troða engifer með í sem flesta drykki.  Ég hugsa að ég hætti seint að dásama þetta undraefni.  Engiferrótin er full af andoxunarefnum og á meðal annars að vera vatnslosandi, bólgueyðandi og vera góð við kvefi, hósta, astma og þess háttar.  Hún á meira að segja að hafa jákvæð áhrif gegn depurð og streitu.  Það má því með sanni segja að hún bæti, hressi og kæti.



1 appelsína
1/2 sítróna
1 epli 
1 gulrót
ca 1 cm bútur af engiferrót (afhýða)
ísmolar
cayenne pipar stráð yfir ef vill (bara örlítið).

Fyrir kraftmiklar safapressur
Það er mismunandi hvernig safapressur fólk er með og hvort þær ráði vel við appelsínur og sítrónur með berki eða ekki.  Ef svo er þá er bara allt hráefnið skolað vel og skorið gróflega niður og sett í safapressuna.  Ísmolum bætt í og piparnum stráð yfir.  

Fyrir kraftminni safapressur
Þeir sem eru með vélar sem vinna illa á þessu, geta hvort sem þeir vilja afhýtt ávextina eða pressað þá í "gamaldags handpressu" áður.  Ég nota yfirleitt þá aðferð að pressa safann úr sítrónum og appelsínum með gömlu góðu aðferðinni.  Set svo safann í safapressuna (djúsvélina) með hinum hráefnunum.  Set bara það aldinkjöt sem festist í "gömlu" pressunni með í.  Epli og gulrætur er skorin gróflega niður og pressað svo með engiferrótinni.  Ísmolar settir í og cayenne pipar stráð yfir.

Fyrir þá sem ekki eiga safapressur eða djúsvél.
Það er svo sem alveg hægt að skella þessu bara öllu í matvinnsluvélina og leyfa því að maukast vel þar. Það getur verið að það þurfi þá að bæta örlitlum vökva við svo að vélin vinni á þessu.  Þá er bara að handpressa appelsínuna og sítrónuna, afhýða eplið og hreinsa bæði það og gulrótina. Skella þessu í matvinnsluvélina ásamt engifernum.  Hægt að hella þessu í gegnum sigti í lokin, bæta svo við ísmolum og strá piparnum yfir.

Fyrir þá sem ekki eiga matvinnsluvél
Þá vandast málið en hægt er að redda sér með því að pressa sítrusávextina í "gamaldag handpressu".  Nota aðkeyptan epladjús í drykkinn (1/2 - 1 dl).  Rífa gulrótina og engiferið á rifjárni.  Setja allt saman í gott ílát með góðu loki og hrista vel saman og leyfa þessu að standa í smá stund.  Sía hratið svo frá í góðu sigti. Klakar út í og pipar ofan á og allt er klárt.

Tuesday, January 22, 2013

Rauð linsubaunasúpa með gulrótum

Ég hef nú verið heldur löt að hripa niður hjá mér uppskriftir á nýja árinu.  En nú stendur allt til bóta og ég er uppfull af hugmyndum sem ég hlakka til að prófa og deila svo með ykkur.

Í kvöld prófaði ég að gera linsubaunasúpu.  Hef reyndar prófað að gera svipaða súpu áður, en hef ekki verið nógu ánægð með útkomuna.  Núna var ég hins vegar mjög sátt og allir á heimilinu borðuðu súpuna með bestu lyst.  Aðal uppistaðan í súpunni eru rauðar linsubaunir.  Þær eru trefjaríkar, próteinríkar og innihalda B-vítamín í ríku magni.  Rauðar linsur eru víst líka ríkar af fólínsýru.  Helsti kosturinn við þessa súpu fyrir utan hollustuna er að hún er einföld og þægileg í matreiðslu og ódýr.  Linsubaunir er ekki nauðsynlegt að leggja í bleyti eins og flestar aðrar baunir, það nægir að sjóða þær í súpunni í um 30 mínútur.



1 msk kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksgeirar
2 msk cumin duft
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
ca. hnífsoddur cayenne pipar
2 tsk tómatpaste
6 bollar vatn
2 teningar gerlaus grænmetiskraftur
1 1/2 bolli rauðar linsubaunir
2-3 gulrætur niðurskornar
safi úr 1/2 sítrónu

Saxa lauk og hvítlauk og mýkja aðeins í kókosolíunni.  Bæta kryddum við og tómatmauki.  Setja vatn út í og grænmetiskraftinn.  Setja linsurnar út í pottinn ásamt niðurskornum gulrótunum.  Leyfa þessu að sjóða við vægan hita í um 30 mínútur.  Bæta meira vatni í eftir þörfum.  Ég vil hafa súpuna frekar grófa, en ég fer með töfrasprota ofan í pottinn og mauka súpuna bara gróflega.  En það er líka hægt að setja hana í skömmtum í blandara eða matvinnsluvél og mauka hana betur þannig.  Í lokin þegar ég er orðin ánægð með þykktina á súpunni þá bæti ég örlitlum sítrónusafa við.
Hægt er að bera súpuna fram með góðu hollu brauði.  Einnig er hægt að setja örlítið af grískri jógúrt yfir súpuna og ef til vill skreyta með ferskri steinselju.