Thursday, January 24, 2013

Súper djús

Djúsar úr ferskum ávöxtum og grænmeti geta verið rosalega góðir.  Sjálf er ég meira fyrir að gera smoothie í blandara þar sem að þar eru aldinkjötið úr ávöxtunum er með.  En stundum breyti ég til og skelli öllu í djúsvélina.  Eins er fínt að nota djúsarann til þess að pressa grænmetissafa og setja með í smoothíinn (úff hvernig skrifar maður þetta eiginlega).  

Djús uppskriftin sem hér kemur á eftir er algjör orkubomba og full af andoxunarefnum, C- og A-vítamínum og er því upplagt að byrja daginn á slíkri bombu.  Ekki veitir af á meðan inflúensan er á sveimi yfir öllu. 

Ferskur engifer er eitt af þeim hráefnum sem mér finnst gott að nota í matargerð og ég reyni að troða engifer með í sem flesta drykki.  Ég hugsa að ég hætti seint að dásama þetta undraefni.  Engiferrótin er full af andoxunarefnum og á meðal annars að vera vatnslosandi, bólgueyðandi og vera góð við kvefi, hósta, astma og þess háttar.  Hún á meira að segja að hafa jákvæð áhrif gegn depurð og streitu.  Það má því með sanni segja að hún bæti, hressi og kæti.



1 appelsína
1/2 sítróna
1 epli 
1 gulrót
ca 1 cm bútur af engiferrót (afhýða)
ísmolar
cayenne pipar stráð yfir ef vill (bara örlítið).

Fyrir kraftmiklar safapressur
Það er mismunandi hvernig safapressur fólk er með og hvort þær ráði vel við appelsínur og sítrónur með berki eða ekki.  Ef svo er þá er bara allt hráefnið skolað vel og skorið gróflega niður og sett í safapressuna.  Ísmolum bætt í og piparnum stráð yfir.  

Fyrir kraftminni safapressur
Þeir sem eru með vélar sem vinna illa á þessu, geta hvort sem þeir vilja afhýtt ávextina eða pressað þá í "gamaldags handpressu" áður.  Ég nota yfirleitt þá aðferð að pressa safann úr sítrónum og appelsínum með gömlu góðu aðferðinni.  Set svo safann í safapressuna (djúsvélina) með hinum hráefnunum.  Set bara það aldinkjöt sem festist í "gömlu" pressunni með í.  Epli og gulrætur er skorin gróflega niður og pressað svo með engiferrótinni.  Ísmolar settir í og cayenne pipar stráð yfir.

Fyrir þá sem ekki eiga safapressur eða djúsvél.
Það er svo sem alveg hægt að skella þessu bara öllu í matvinnsluvélina og leyfa því að maukast vel þar. Það getur verið að það þurfi þá að bæta örlitlum vökva við svo að vélin vinni á þessu.  Þá er bara að handpressa appelsínuna og sítrónuna, afhýða eplið og hreinsa bæði það og gulrótina. Skella þessu í matvinnsluvélina ásamt engifernum.  Hægt að hella þessu í gegnum sigti í lokin, bæta svo við ísmolum og strá piparnum yfir.

Fyrir þá sem ekki eiga matvinnsluvél
Þá vandast málið en hægt er að redda sér með því að pressa sítrusávextina í "gamaldag handpressu".  Nota aðkeyptan epladjús í drykkinn (1/2 - 1 dl).  Rífa gulrótina og engiferið á rifjárni.  Setja allt saman í gott ílát með góðu loki og hrista vel saman og leyfa þessu að standa í smá stund.  Sía hratið svo frá í góðu sigti. Klakar út í og pipar ofan á og allt er klárt.

Tuesday, January 22, 2013

Rauð linsubaunasúpa með gulrótum

Ég hef nú verið heldur löt að hripa niður hjá mér uppskriftir á nýja árinu.  En nú stendur allt til bóta og ég er uppfull af hugmyndum sem ég hlakka til að prófa og deila svo með ykkur.

Í kvöld prófaði ég að gera linsubaunasúpu.  Hef reyndar prófað að gera svipaða súpu áður, en hef ekki verið nógu ánægð með útkomuna.  Núna var ég hins vegar mjög sátt og allir á heimilinu borðuðu súpuna með bestu lyst.  Aðal uppistaðan í súpunni eru rauðar linsubaunir.  Þær eru trefjaríkar, próteinríkar og innihalda B-vítamín í ríku magni.  Rauðar linsur eru víst líka ríkar af fólínsýru.  Helsti kosturinn við þessa súpu fyrir utan hollustuna er að hún er einföld og þægileg í matreiðslu og ódýr.  Linsubaunir er ekki nauðsynlegt að leggja í bleyti eins og flestar aðrar baunir, það nægir að sjóða þær í súpunni í um 30 mínútur.



1 msk kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksgeirar
2 msk cumin duft
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
ca. hnífsoddur cayenne pipar
2 tsk tómatpaste
6 bollar vatn
2 teningar gerlaus grænmetiskraftur
1 1/2 bolli rauðar linsubaunir
2-3 gulrætur niðurskornar
safi úr 1/2 sítrónu

Saxa lauk og hvítlauk og mýkja aðeins í kókosolíunni.  Bæta kryddum við og tómatmauki.  Setja vatn út í og grænmetiskraftinn.  Setja linsurnar út í pottinn ásamt niðurskornum gulrótunum.  Leyfa þessu að sjóða við vægan hita í um 30 mínútur.  Bæta meira vatni í eftir þörfum.  Ég vil hafa súpuna frekar grófa, en ég fer með töfrasprota ofan í pottinn og mauka súpuna bara gróflega.  En það er líka hægt að setja hana í skömmtum í blandara eða matvinnsluvél og mauka hana betur þannig.  Í lokin þegar ég er orðin ánægð með þykktina á súpunni þá bæti ég örlitlum sítrónusafa við.
Hægt er að bera súpuna fram með góðu hollu brauði.  Einnig er hægt að setja örlítið af grískri jógúrt yfir súpuna og ef til vill skreyta með ferskri steinselju.