Sunday, April 21, 2013

Hrákaka með brómberjum og súkkulaði

Blandarinn minn bilaði í haust og ég hef því ekki verið nógu dugleg að gera boost-drykki og fleira þess háttar eins og áður.  Í haust frysti ég fullt af brómberjum úr garðinum í litlum skömmtum einmitt til þess að nota í drykki og fleira. En svo gleymdi ég þeim bara í frystinum og hef því lítið notað af þeim í vetur.  Ég ákvað því að gera tilraun með að nota þau í hráköku.  Það er auðvitað hægt að nota aðrar berjategundir í kökuna eins og t.d. hindber eða jarðaber eða blanda saman berjaafgöngum úr frystinum. Hér er mikilvægt að kókosolían hitni ekki um of svo að hún haldi eiginleikum sínum sem hrávara.

Marmelaðið sem hér er gert og notað sem fylling í kökuna er einnig hægt að geyma í kæli í nokkra daga og nota á kex eða brauð.  Ég hef gert margar útfærslur af slíku marmelaði þar sem ég nota afgangsber úr frystinum og sæti með döðlum.  Bæti stundum við pínu kanil, en hann eykur örlítið geymsluþolið ásamt því að bragðbæta. Þetta er afskaplega holl útgága af marmelaði  :)



Botn:

2 dl hnetur, t.d. pekanhnetur, kasjú eða valhnetur. Má líka blanda saman.
1 msk akasíuhunang
2 msk kókosolía mjúk eða brædd yfir vatnsbaði (má ekki hitna)
klípa af grófu salti.

Vinna hnetur í mjöl í matvinnsluvél. Bæta hinum hráefnunum saman við og vinna vel saman.  Þjappa í lítið form eða í muffinsform.  Á að vera um 1/2 cm þykkt.  Geyma í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling / Marmelaði:

200 g brómber eða önnur ber, fersk eða frosin. (ef frosin leyfa þeim að þiðna í ca. 20 mín)
6-8 döðlur

Vinna saman í matvinnsluvél eða blandara berin og döðlurnar.  Mér finnst best að láta döðlurnar liggja í bleyti í nokkrar mínútur áður þá verða þær mýkri.  Má bæta við fleiri döðlum ef þið viljið hafa marmelaðið sætara.  Setja marmelaðið yfir botninn og kæla.

Súkkulaði hjúpur eða sósa:

1 1/2 dl kókosolía (bræða yfir vatnsbaði en ekki láta hitna)
1-1 1/2 dl dökkt kakó (kakó er misjafnlega bragðsterkt og því betra að byrja að setja aðeins minna magn og smakka sig til.
1/3- 1/2 dl agavesýróp

Blanda vel saman öllum hráefnum og bara að smakka sig áfram, sumir vilja ekki of sterkt kakóbragð og aðrir vilja blönduna sætari.
Hér er síðan hægt að fara tvær leiðir, nota súkkulaðiblönduna sem sósu sem borin er fram með kökunni eða setja sósuna yfir kökuna og leyfa henni að standa í kæli í ca. 40-50 mín. þannig að sósan storkni og myndi hjúp.  Athugið að marmelaðifyllingin storknar ekki og kakan getur því orðið dáldið klessuleg þegar hún er skorin.

Um að gera að skreyta kökuna með ferskum berjum og bera jafnvel rjóma fram með henni.
Athugið að þetta er ekki stór uppskrift og kemst því bara í mjög lítil form, en hún dugar samt vel fyrir 4-6 persónur.  En þá er bara að tvöfalda.


Ég ætlaði að taka mynd af kökusneið á disknum mínum, en gleymdi mér aðeins og áðurn en ég vissi af var bara allt búið.

Friday, April 19, 2013

Sólarsúpa með appelsínum og gulrótum

Þessi súpa minnir mann einfaldlega bara á sumar og sól. Hún er stútfull af hollum hráefnum.  Gulrætur innihalda mikið af vítamínum og steinefnum sem gera okkur gott og eru þær meðal annars góðar fyrir sjónina og húðina okkar.  Appelsínur hjálpa til við að lækka kólesteról í blóðinu og hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting. Þær eru innihalda mikið magn af C-vítamínum og eru því góðar fyrir ónæmiskerfið.



4 stórar gulrætur, skornar í litla bita
1 stór laukur skorinn í bita
1 sellerí stöngull skorinn í bita
1 msk kókosolía

Setja kókosolíu í pott og mýkja grænmetið í kókosolíunni við vægan hita.

2 appelsínur börkurinn rifinn smátt með litlu rifjárni og safinn kreistur úr setur út í síðar.
2 teningar grænmetiskraftur (organic og helst gerlaus)
1 lítri vatn
handfylli af rauðum linsubaunum (og kanski rúmlega það) þær þykkja súpuna.

Appelsínubörkurinn er rifinn með litlu rifjárni (bara appelsínuguli hlutinn, ekki nota hvíta hlutann) og settur út í bottinn, leyfa honum að kraum með grænmetinu í 1-2 mínútur.  Setja þá vatn og grænmetiskraft út í ásamt linsubaununum. Sjóða súpuna í nokkrar mínútur eða þar til gulræturnar og baunirnar eru gegn soðnar.  Þá þarf að mauka súpuna, ég notaði töfrasprota en það er líka hægt að skella súpunni í blandara í litlum skömmtum eða í matvinnsluvél.  Setja súpuna aftur í pottinn.

Appelsínusafi úr 2 appelsínum
1 tsk hunang eða ca. 2-3 dropar af steviu.
salt
pipar

Bæta við út í súpuna kreistum safa úr appelsínunum og örlitlu hunangi eða steviu.  Best er að smakka bara aðeins til því ef appelsínurnar hafa verið súrar gæti þurft örlítið meira.  Bæta svo salti og pipari út í eftir þörfum.  Blanda vel saman og hita súpuna að suðu og bera svo fram með góðu og grófu brauði.  Mér finnst alltaf gott að setja örlitla klípu af grískri jógúrt út á súpur.

Unaðslegar döðlutrufflur

Föstudagur og mig langaði í sæta mola með kaffinu mínu, en eitthvað lítið til í kotinu víst.  En því  var bara reddað með þessum sætu trufflum.  Það gerist ekki mikið einfaldara og fljótlegra en þetta.  Aðeins þrjú hráefni og í matvinnsluvélina.



1 bolli döðlur (ef þær eru þurrkaðar set ég þær í ylvolgt vatn í nokkrar mínútur fyrst)
2 tsk kókosolía (við stofuhita)
2 tsk dökkt kakó

kókosmjöl, kakó eða t.d. hnetumolar til að velta kúlunum upp úr.

Vinna döðlurnar í matvinnsluvél í 2-3 mínútur og bæta hinu út í og vinna í aðrar 2 mínútur.  Útbúa litlar kúlur úr gumsinu og velta upp úr t.d. kókosmjöli, kakói eða hnetum.  Best að leyfa kúlunum að standa í kæli í nokkrar mínútur, t.d. á meðan hellt er upp á te eða kaffi. En ég verð að viðurkenna að mínar kúlur náðu ekki allar inn í ísskápinn ;) 

Saturday, April 13, 2013

Marinerarður kjúklingur á grillið með indversku ívafi

Vorið er á næsta leyti.  Það var í fyrsta skipti í dag sem ég fann fyrir smá vorfíling og ákvað því að grilla eitthvað hollt og gott.  Ég hef alltaf verið frekar löt að grilla kjúkling, bæði hefur mér það fundist vera of mikið vesen og ég alltaf eitthvað stressuð yfir því að kjúllinn sé hrár.  En mér hefur farið fram í þessu er farin að grilla kjúkling oftar.  Hér á eftir fylgir uppskrift af jógúrtmarineringu með dáldið indversku ívafi sem passar mjög vel með kjúkling.  Gott er að útbúa marineringuna kvöldið áður, eða strax að morgni þannig að kjúklingabitarnir geti legið í marineringunni í góðan tíma fyrir matreiðslu.  Ég mæli með 8-14 tímum.



1 bolli hrein jógúrt
2 msk sítrónusafi
1 lítill laukur mjög smátt skorin
4 hvítlauksgeirar marðir
1 msk ferskur rifinn engifer
1 tsk paprikuduft
1 tsk kuminduft
1 tsk grófmalaður pipar
1 tsk gróft sjávarsalt

5-6 kjúklingabringur

Blanda vel saman öllum hráefnum í marineringuna.  Setja kjúklinginn í fat og hellla marineringunni yfir og velta bitunum vel upp úr henni.  Láta standa minnst 8 klst. jafnvel líka í ísskáp yfir nótt.

Svona lítur kjúklingurinn út í marineringunni áður en hann fer á grillið.

Mér finnst best að pakka kjúklingabringum inn í álpappír og grilla þannig. Grilla þær í 8-10 mínútur á hvorri hlið. Eins nota ég stundum álbakka, en foraðst að setja bringurnar beint á grillið nema þá kanski bara 1-2 mínútur í lokin til að fá grilláferðina.

Bera fram með góðu salati, jógúrtsósu og grilluðum sætum kartöflum.

Grillaðar sætar kartöflur

Grillaðar sætar kartöflur eru frábærar með öllum grillmat.  Hér kemur einföld og góð uppskrift af grilluðum sætum kartöflum.  



2 stórar sætar kartöflur.

Afhýða kartöflurnar og skera í sneiðar um 1 1/2 cm þykkar.  Raða sneiðunum á álbakka (grillbakka).  

4 msk græn ólífuolía (extra virgin)
3 hvítlauksgeirar marðir
1-2 msk rósmarin
1 tsk grófmalaður svartur pipar
1 tsk gróft sjávarsalt

Blanda öllu saman. Leyfa blöndunni að standa í nokkrar mínútur.  Pensla yfir kartöflurnar, báðar hliðar.  Leyfa kartöflunum að standa í 20-30 mínútur áður en þær eru settar á grillið.  Skella álbakkanum á grillið á nokkuð góðum hita, ekki alveg hæsta samt.  Grilla í 7-10 mínútur, snúa svo kartöflusneiðunum við og grilla í 7-10 mínútur til viðbótar.