Tuesday, May 28, 2013

Bara rabarbarapæ með eplum

Ég elska hreinlega að hafa rabarbara í garðinum. Það minnir mig óneitanlega á gamla góða tíma í sveitinni þar sem hlaupið var út í garð og náð í nokkra rabarbarastilka til að búa til graut eða gott pæ þegar gesti bar að garði.  Gallinn er bara þetta súra bragð sem maður hefur víst vanist á að dempa niður með sykri og þá engu smá magni.  Þessa dagana er ég að prófa mig áfram með að vinna úr rabarbaranum og draga þá úr sykurmagni eða nota náttúrulegan sykur hefur lítil sem engin áhrif á blóðsykur.  Þetta er ekki auðvelt...en þetta er allt að koma.   Mér finnst nefnilega rabarbarinn góður þrátt fyrir allt og ekki skemmir að hann er bara nokkuð hollur, t.d. ríkur af C og K vítamínum og rauði hlutinn af stilknum er ríkur af A vítamínum.  Nú og svo inniheldur þetta ódýra hráefni nánast engar kaloríur (svona fyrir þá sem eru að telja).  Hér birtist fyrsta rabarbarauppskriftin en vonandi tekst mér að setja saman fleiri á næstu dögum.




4 góðir rabarbarastilkir ca. 2-300g
3 epli
2 tsk kanill
2 msk hörfræ
1 dl möndlur saxaðar

Skera rabarbara og epli í smáa bita og setja í eldfast mót.  Strá yfir kanil, hörfræjum og söxuðum möndlum.

1 1/2 dl tröllahafrar
1 1/2 dl gróft spelt
1 dl kókossykur
125 g smjör (ekta íslenskt)

Setja þurrefni í skál og mylja smjörið yfir og hnoða gróflega saman.  Þetta má alveg vera pínu þurrt.  Deigið er svo mulið gróflega yfir rabarbarann og eplin í eldfasta mótinu. Dreifa vel yfir allt.

Handfylli kókosflögur

Dreift yfir allt.  Baka í ofni við 180° C í ca. 20 mínútur.  Bera fram með t.d. kókosrjóma, kasjúrjóma, venjulegum þeyttum rjóma, hollum ís eða eins og ég gerði með blöndu af þeyttum rjóma, jógúrt og vanillu. En þá þeyti ég rjómann og bæti svo öðru eins af hreinu jógúrti út í og hræri saman við ásamt vanilludufti.


Thursday, May 9, 2013

Bakaður fiskur með grænmeti og sætum kartöflum

Það er ótrúlegt hvað ég var farin að sakna þess að fá ekki íslenskan fisk.  Kanski maður hafi tekið honum sem of sjálfsögðum hlut heima á Íslandi.  Ég gerði mér ekki grein fyrir að ég myndi sakna þess svona mikið á fá ekki góðan fisk.  Fiskurinn hérna í Noregi er bara ekki eins góður.  Ég veit ekki hvað það er.  Við höfum gert nokkrar tilraunir þá aðallega með þorsk og hann hefur verið misgóður (já eða vondur).  Það var því mikil gleði þegar við fundum út hvar við gætum keypt íslenskan fisk. Nú vill frúin helst elda fisk alla daga. Í uppskriftinni sem hér kemur á eftir er hægt að nota nánast hvaða hvíta fisk sem er hvort sem hann er íslenskur eða ekki.  Ég hef notað bæði ýsu og þorsk.

1 kg flök af hvítum fiski s.s. ýsu eða þorsk

Roðfletta og beinhreinsa ef þar. Skera flökin í litla bita og raða í botninn á eldföstu móti.

1 sæt kartafla
3 gulrætur
1 paprika
1 laukur
1 msk kókosolía

Hreinsa grænmeti og skera í frekar smáa bita. Steikja á pönnu upp úr kókosolíunni.

Salt ( ég nota Herbamare)
pipar
oregano
Basil, ekki verra að nota ferskt
1 lítil dós tómatmauk (organic helst) ca 100 g.
1 organic grænmetisteningur
4 bollar vatn

Bæta kryddi á pönnuna. Setja svo tómatmauk, vatn og kraft út í.  Leyfa þessu að malla í um það bil 15 mínútur. Smakka til og krydda eftir þörfum.

Hella grænmetisblöndunni yfir fiskinn í mótinu.  Dreifa vel úr. Strá rifnum osti yfir.  Baka við 180° C í 20 mínútur.  Bera fram með góðu salati og jafnvel örlitlum sýrðum rjóma.



Thursday, May 2, 2013

Litlir kanilsnúðar

Kanilsnúða sambærilega þessum hef ég gert í mörg ár.  Þeir eru nokkuð einfaldir og alltaf gott að eiga poka í frystinum til að grípa í þegar það koma gestir.  Eins finnst mér tilheyra að taka þá með í ferðalög eða upp í sumarbústað.  Að sjálfsögðu er ég búin að laga uppskriftina aðeins til og gera hana aðeins hollari.  Það er ekki mikill sykur í uppskriftinni og því litla sem er hefur verið skipt út fyrir kókos- eða pálmasykur, en einnig er hægt að nota önnur sætuefni ef vill.

8 dl gróft spelt
200 g smjör (ekta íslenskt)
4 tsk kókossykur
7 tsk vínsteinslyftiduft
2 egg
2 dl mjólk

Fylling:
ca. 25 g bráðið smjör
6 msk kókossykur
2-3 tsk kanill

Blanda saman öllum þurrefnum í skál.  Mylja kalt smjörið út í og blanda vel með höndunum.  Bæta í eggjum og hluta af mjólk, væta svo í eftir þörfum.  Hnoða lítillega á borði í sprungulaust deig. Skipta deiginu í tvo hluta og fletja hvorn hluta út með kökukefli í þunnar kökur, má vera nokkuð þunnt kanski ca. 1/2 cm þykkt.  Setja bráðið smjör ofan á og dreifa vel og jafnt yfir kökuna.  Strá blöndu af kanil og kókossykri yfir og rúlla kökunum þéttingsfast upp.  Skera rúlluna í litlar sneiðar, ca. 1 1/2 cm þykkar.  Raða snúðunum á plötu og þrýsta örlítið á þá svo þeir verði aðeins þéttari og fari ekki í sundur í bakstrinum.  Baka við 200° C í 10-15 mínútur eða þar til snúðarnir verða ljósbrúnir.