Tíminn er svo fljótur að líða á aðventunni. Því miður er ekki nægur tími í tilraunir í eldhúsinu, þetta er líka tíminn þar sem maður heldur fast í gamlar hefðir. Ég hef samt reynt að hollustuvæða gamlar og góðar smákökuuppskriftir eftir fremsta megni þó svo að sjálfsagt megi gera betur. Hér á eftir fylgir með einföld og góð uppskrift af hnetusmjörskökum, sem eru næstum alveg sykurlausar. Ég breytti hér gamalli sykur uppskrift frá mér eftir að hafa fengið góða hugmynd á netinu um hvernig best væri að hollustuvæða. Breytingarnar gera það að verkum að kökurnar verða mjög mjúkar í sér, en bananinn í kökunum sér til þess að þær geymast ekki eins vel og þær þarf að geyma í kæli. En í staðin eru þær fullar af hollustu.
2-3 vel þroskaðir bananar
1/3 bolli hnetusmjör (lífrænt að sjálfsögðu)
2-3 msk mjólk (má nota soyja, rís eða möndlumjólk)
2 msk agavesýróp (má jafnvel minnka ef bananarnir eru mjög sætir)
1 stórt egg eða jafnvel 2 lítil
1 tsk vanilluduft
2 1/2 bolli haframjöl
1/3 bolli gróft spelt
1/2 tsk kanill
1/4 tsk negull
lófafylli af rúsinum
Byrja á að stappa bananana alveg í mauk. Blanda saman í hrærivél bönunum, hnetusmjöri, mjólk, agave og eggi. Blanda vel saman. Gæti þurft að skafa aðeins niður inn á milli þar sem hnetusmjörið getur verið dáldið stíft. Bæta svo þurrefnunum saman við og blanda vel saman. Setja með teskeið á plötu og þjappa örlítið niður. Baka við 175° í 15-20 mínútur.