Þessar yndislegu kökur eru einmitt eins og ég vil hafa þær. Nógu góðar til að koma í staðin fyrir sætindin, en nógu hollar svo að hægt er að borða þær í öll mál, líka í morgunmat þ.e.a.s. ef þær eru ekki búnar. Það er venjan að taka svona kökur með á öll íþróttamót hjá okkur, enda eru þær orkuríkar og góðar. Það hentar líka vel fyrir mömmuna sem situr á hliðarlínunni og langar til að stelast í sætindi með kaffibollanum sínum.
3 bananar vel þroskaðir (mega alveg vera dáldið mikið svartir og ljótir)
2 bollar haframjöl
2 msk olía (ég nota kókosolíu)
1 tsk vanilludropar eða vanilluduft
1 tsk kanill
½ tsk salt
1 bolli döðlur skornar í litla bita.
Ég byrja á að skera döðlurnar og set þær svo í bleyti í volgt vatn á meðan ég hef hitt tilbúið.
Set ofþroskuðu bananana í skál og stappa vel. Blanda haframjölinu saman við ásamt olíu, vanillu, kanil og salti.
Helli vökvanum af döðlunum og blanda þeim saman við hræruna.
Þetta er svo sett með skeið á plötu og inn í ofn á 190° í ca 15 mínútur.
Það er hægt að leika sér dálítið með hráefnin í þessu. Fínt að nota rúsínur líka. Oftast set ég hörfræ út í til að bæta hollustuna enn meir. Goji ber, appelsínubörk, hnetur, fræ og allt mögulegt.
Geymast best i kæli.
No comments:
Post a Comment