Kanilsnúða sambærilega þessum hef ég gert í mörg ár. Þeir eru nokkuð einfaldir og alltaf gott að eiga poka í frystinum til að grípa í þegar það koma gestir. Eins finnst mér tilheyra að taka þá með í ferðalög eða upp í sumarbústað. Að sjálfsögðu er ég búin að laga uppskriftina aðeins til og gera hana aðeins hollari. Það er ekki mikill sykur í uppskriftinni og því litla sem er hefur verið skipt út fyrir kókos- eða pálmasykur, en einnig er hægt að nota önnur sætuefni ef vill.
8 dl gróft spelt
200 g smjör (ekta íslenskt)
4 tsk kókossykur
7 tsk vínsteinslyftiduft
2 egg
2 dl mjólk
Fylling:
ca. 25 g bráðið smjör
6 msk kókossykur
2-3 tsk kanill
Blanda saman öllum þurrefnum í skál. Mylja kalt smjörið út í og blanda vel með höndunum. Bæta í eggjum og hluta af mjólk, væta svo í eftir þörfum. Hnoða lítillega á borði í sprungulaust deig. Skipta deiginu í tvo hluta og fletja hvorn hluta út með kökukefli í þunnar kökur, má vera nokkuð þunnt kanski ca. 1/2 cm þykkt. Setja bráðið smjör ofan á og dreifa vel og jafnt yfir kökuna. Strá blöndu af kanil og kókossykri yfir og rúlla kökunum þéttingsfast upp. Skera rúlluna í litlar sneiðar, ca. 1 1/2 cm þykkar. Raða snúðunum á plötu og þrýsta örlítið á þá svo þeir verði aðeins þéttari og fari ekki í sundur í bakstrinum. Baka við 200° C í 10-15 mínútur eða þar til snúðarnir verða ljósbrúnir.
No comments:
Post a Comment