Ég elska svona einfalda rétti sem eru samt svona hollir og góðir. Þennan rétt hef ég útbúið bæði til að eiga svona á milli mála um helgar og í nesti bæði í skóla, vinnu og á íþróttamót. Hann er líka fínn sem meðlæti með öðrum mat. Sætar kartöflur er víst alveg einstaklega hollar, enda skilst mér að þær teljist til 10 hollustu fæðutegunda heims. Þær eru bæði A og C vítamín ríkar og hjálpa til við að koma jafnvægi á blóðsykurinn. Kanillinn er víst undraefni líka. Hann er talinn krabbameinshamlandi og rannsóknir sýna að kanillinn inniheldur efni sem líkja eftir insúlíni. Jafnframt því er kanillinn meðal annars talinn hafa góð áhrif á kólestról og sveppamyndun, ásamt því að draga úr gasmyndun hvorki meira né minna takk fyrir. Kjúklingabaunir eru trefja- og próteinríkar ásamt því að vera ríkar af vítamínum og steinefnum. Þetta ætti því að vera sannkallaður ofurréttur.
2 1/2 dl kjúklingabaunir í dós eða soðnar heima
1 sæt kartafla (frekar stór) skorin í teninga
1 stór laukur frekar smátt skorinn
2 msk kókosolía (má nota ólífuolíu líka)
2 tsk kanill
gróft salt (ég nota maldon)
Mér finnst betra að nota baunir sem ég sýð sjálf, en auðvitað er það aðeins meira vesen. Þá þarf að leggja þær í bleyti yfir nótt skipta svo um vatn á þeim og sjóða í ca. 40 mín.
Þá er að skera sætu kartöflurnar og laukinn og setja í eldfast mót. Setja olíu yfir, kanil og salt. Blanda þessu svo vel saman. Skella í ofninn í svona 20 mín. á 200°. Þá bæti ég baununum út í og blanda öllu vel saman. Set svo í ofninn aftur í aðrar 20 mín. Mér finnst betra að hafa baunirnar ekki of lengi í ofninum því þá verða þær og þurrar. Svo er bara að skella þessu í nestisboxið eða á matarborðið.
No comments:
Post a Comment