Jæja er víst orðin árinu eldri en samt svo mikið yngri.....skrítið er það ekki. Eftir smá svindl síðustu daga í öllum afmælisveislunum er víst kominn tími til að halda sig við efnið í mataræðinu. Hef því verið að leita að hollum og góðum uppskriftum til að prófa. Fann þessa á einhverri góðri síðu í útlandinu. Er búin að aðlaga hana aðeins að mínum lífstíl og því sem til var í skápunum hjá mér. Útkoman kom skemmtilega á óvart og við börnin borðuðu kvöldmatinn með bestu list.
4-5 kjúklingabringur
2 laukar (mega líka vera púrrulaukar)
2-3 hvítlauksrif marin
2-3 epli í bitum (sæt) ég notaði lífræn þau eru svo bragðgóð
eplaedik smá skvetta, held að ég hafi sett ca. 1/2 dl. best að smakka bara til svo þetta verði ekki of súrt.
2 bollar kjúklingasoð gerlaust, eða grænmetissoð
rósmarin
salt
pipar nýmalaður
kókosolía eða ólífuolía
Ég byrja á að setja bringurnar í plastpoka og næ mér í kökukefli og flet þær aðeins út. Krydda þær með salti og pipar. Brúna þær svo á pönnu í olíunni í 4-5 mínútur á hvorri hlið. Set saxaðan laukinn út á pönnuna og leyfi honum að mýkjast þar í nokkrar mínútur. Bæti þá hvítlauknum við og svo eplabitum. Helli smá eplaediki út á og svo kjúklingasoði (eða vatni og krafti). Krydda með rósmarin. Svo er bara að leyfa þessu að malla í smá stund og smakka aðeins til. Ef þetta verður of súrt þá má setja 1 skeið af hunangi eða agave út í.
Þetta er svo bara borið fram með góðu salati og kínóa eða hýðisgrjónum.
No comments:
Post a Comment