Tuesday, January 22, 2013

Rauð linsubaunasúpa með gulrótum

Ég hef nú verið heldur löt að hripa niður hjá mér uppskriftir á nýja árinu.  En nú stendur allt til bóta og ég er uppfull af hugmyndum sem ég hlakka til að prófa og deila svo með ykkur.

Í kvöld prófaði ég að gera linsubaunasúpu.  Hef reyndar prófað að gera svipaða súpu áður, en hef ekki verið nógu ánægð með útkomuna.  Núna var ég hins vegar mjög sátt og allir á heimilinu borðuðu súpuna með bestu lyst.  Aðal uppistaðan í súpunni eru rauðar linsubaunir.  Þær eru trefjaríkar, próteinríkar og innihalda B-vítamín í ríku magni.  Rauðar linsur eru víst líka ríkar af fólínsýru.  Helsti kosturinn við þessa súpu fyrir utan hollustuna er að hún er einföld og þægileg í matreiðslu og ódýr.  Linsubaunir er ekki nauðsynlegt að leggja í bleyti eins og flestar aðrar baunir, það nægir að sjóða þær í súpunni í um 30 mínútur.



1 msk kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksgeirar
2 msk cumin duft
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
ca. hnífsoddur cayenne pipar
2 tsk tómatpaste
6 bollar vatn
2 teningar gerlaus grænmetiskraftur
1 1/2 bolli rauðar linsubaunir
2-3 gulrætur niðurskornar
safi úr 1/2 sítrónu

Saxa lauk og hvítlauk og mýkja aðeins í kókosolíunni.  Bæta kryddum við og tómatmauki.  Setja vatn út í og grænmetiskraftinn.  Setja linsurnar út í pottinn ásamt niðurskornum gulrótunum.  Leyfa þessu að sjóða við vægan hita í um 30 mínútur.  Bæta meira vatni í eftir þörfum.  Ég vil hafa súpuna frekar grófa, en ég fer með töfrasprota ofan í pottinn og mauka súpuna bara gróflega.  En það er líka hægt að setja hana í skömmtum í blandara eða matvinnsluvél og mauka hana betur þannig.  Í lokin þegar ég er orðin ánægð með þykktina á súpunni þá bæti ég örlitlum sítrónusafa við.
Hægt er að bera súpuna fram með góðu hollu brauði.  Einnig er hægt að setja örlítið af grískri jógúrt yfir súpuna og ef til vill skreyta með ferskri steinselju.

No comments:

Post a Comment