Tuesday, August 28, 2012

Ofnbakaður lax með ristuðum möndlum, kókos og ferskjumauki

Við höfum ekki enn alveg fundið okkur í fiskinum hérna í Noregi, enda góðu vön heima á Íslandi.  Við kaupum aðallega frosinn þorsk og lax.  Þorskinn notum við aðallega í ofnrétti, en laxinn hér er verulega góður og gott að matreiða hann á alla vegu.  Nú var ákveðið að gera tilraun með ferskjumaukið góða sem gert var úr garðávöxtunum um daginn.  Útkoman var mjög góð.  Að sjálfsögðu er hægt að nota annars konar mauk í réttinn, s.s. mango chutney úr búð.



8 litlir laxabitar (má líka vera bleikja)
salt og pipar

8 tsk ferskjumauk eða annað chutney

1/2 dl möndlur saxa gróft niður
1/2 dl  kókosflögur

Laxinum er raðað í eldfast mót og kryddaður með salti og pipar.  Ég nota mikið Herbamare saltið í matargerð, það er sjávarsalt með kryddjurtum.

1 tsk af ferskjumauki er sett ofan á hvern laxabita og dreift úr.

Gott er að leyfa þessu að standa í smá stund ef tími gefst til.  Ég leyfi þessu að standa á meðan ég útbý meðlæti. Þá er að setja þetta inn í ofn á ca 180° í ca. 15 - 20 mín.

Á meðan laxinn er í ofninum rista ég saxaðar möndlurnar og kókosflögurnar á heitri pönnu í stutta stund.  Þegar um 5 mínútur eru eftir af bökunartímanum strái ég þessu svo yfir laxinn og leyfi að bakast með síðustu mínúturnar.

Laxinn er svo borinn fram með sætum kartöflum, hrísgrjónum, góðu salati og jafnvel jógúrtsósu.


Ferskjumauk - bragðmikið og gott

Í garðinum hjá okkur hér í Noregi er ferskjutré. Einhvern veginn virðist það vera þannig að allar ferskjurnar eru tilbúnar á sama tíma.  Það var því farið út að tína af trénu.  Við fylltum stóran pott af ferskjum.  Þær eru alveg rosalega sætar og bragðgóðar, en því miður þá geymast þær ekki nema nokkra daga í ísskápnum.  Það voru því góð ráð dýr að reyna að gera eitthvað sniðugt úr ferskjunum áður en þær skemmast.
Ég ákvað að reyna að gera einhvers konar chutney úr ferskjunum, eitthvað líkt og mango chutney.  Ég elska mango chutney, en því miður er yfirleitt svo mikill sykur í því, þannig að ég nota það sjaldan nú orðið.  Ég las innihaldslýsingu á mango chutney krukku í búðinni um daginn og reyndi að líkja eitthvað eftir því.  Ég var bara nokkuð sátt með útkomuna.  Ferskjuchutney með krydduðum undirtón sem er gott sem meðlæti með ýmsu kjöti eða fisk.  Það er örugglega líka gott að skipta ferskjunum út fyrir mangó eða jafnvel epli.  Ég skrifaði uppskriftina ekki nákvæmlega hjá mér, þannig að ég er aðallega að reyna að setja hana hér inn eftir minni.  En það er líka um að gera að smakka maukið til og bæta út í kryddum eftir eigin smekk.  



10 ferskjur afhýddar, steinhreinsaðar og skornar í bita.
1 stór laukur smátt skorinn
3 hvítlauksrif
1-2 cm af rifnum engifer
1/2 - 1 tsk kardimommur
1/2 - 1 tsk negull
1/2 tsk karrý
1/4 tsk cayanne pipar
1/2 dl eplaedik
2-3 tsk agave sýróp
smá salt

Öllu er skellt í pott og hrært vel í þar til suðan kemur upp.  Ég leyfði þessu að malla í um 40 mínútur á vægum hita og hrærði í annars lagið.  Svo er bara að skella maukinu í vel sótthreinsaðar krukkur og geyma í ísskáp.

Ferskjurnar voru mjög safaríkar, þannig að mér fannst ekki ástæða til að setja neinn auka vökva í uppskriftina, en líklega þyrfti að bæta í smá vatni eða jafnvel eplasafa ef um er að ræða ekki eins safaríka ávexti.  

Athugið að hér á blogginu má finna uppskrift af laxi þar sem þetta mauk er notað sem krydd.

Thursday, August 23, 2012

Hollari vöfflur

Vöfflur eru alltaf góðar.  Það er líka svo auðvelt að hollustuvæða hina hefðbundnu vöffluuppskrift.  Ég hef nokkrum sinnum fengið mér vöfflur í morgunmat.  Hollar og góðar heimagerðar vöfflur eru til dæmis mun betri kostur heldur en mörg af brauðunum sem við kaupum út í búð í góðri trú.  Það er líka svo margt hægt að setja ofan á vöfflurnar, þær þurfa ekki alltaf að vera með sultu og rjóma.  Best finnst mér að nota ferska ávexti í bitum og rífa síðan örlitið dökkt súkkulaði yfir.  Ef ég nota sultu kaupi ég sykurlausar sultur t.d. frá St. Dalfour eða að ég nota heimatilbúnar sykurminni sultur.  Svo er rjóminn auðvitað alltaf góður með vöfflunum, en hann er ekki nauðsynlegur.  Ég mæli með því að prófa að nota kókosrjóma, en hann er hægt að gera með því að geyma kókosmjólk í kæli, þá skilur hún sig að þannig að rjóminn stífnar en safanum er hellt frá.  Svo er bara að hræra vel í rjómanum til að hann verði aðeins loftkenndari.  (Það þýðir ekki að nota light kókosmjólk í þetta).  Vöffluuppskriftin sem hér fylgir er sú grunnuppskrift sem ég nota oftast, en stundum geri ég smá breytingar á henni.  T.d. skipti út hluta af speltinu fyrir malað haframjöl, eða annað mjöl.  Set jafnvel fræ út í degið.  Sólblómafræ eru til dæmis mjög góð með.  Nota mismunandi mjólkurtegundir fer bara eftir því hvað er til.  Eins er gott að skipta út hluta af smjörinu fyrir kókosolíu.  Ég hef líka prófað að setja einn vel þroskaðan banana út í, en á móti sleppt þá agave sýrópinu.  Það er bara um að gera að prófa sig áfram.  Þessi uppskrift dugar vel fyrir okkur fjölskylduna en við erum fjögur.  Svo er bara að margfalda þegar það koma gestir ;)

2 egg
1 msk agave
250 g spelt (helst gróft)
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk vanilluduft (má líka setja smá kardimommur með)
ca. 4 dl léttmjólk (má nota soyamjólk líka og jafnvel fleiri gerðir)
80 g smjör (ekki verra að nota kókosolíu að hluta)

Hræra saman eggin og sýrópið.  Bæta þurrefnum út í og síðan mjólkinni, og hrært rólega þar til degið er orðið mátulega þykkt.  Að lokum er smjörið brætt og því bætt við degið.  Svo er bara að skella þessu á vöfflujárnið.

Saturday, August 11, 2012

Rifsberjahlaup - minni sykur

Þó ágúst sé ekki langt komin eru rifsberin í garðinum hjá mér hér í Noregi orðin vel þroskuð og rauð.  Eiginlega er það þannig að þau liggja fyrir skemmdum.  Við krakkarnir drifum okkur því út að tína.  Ég geri nú oft rifsberjahlaup á haustin, en alltaf með vænum skammti af sykri.  Nú ákvað ég að fara í smá tilraunastarfsemi og reyna að útbúa hlaupið með minni sykri og jafnvel án þess að nota hvítan unninn sykur.  Úr varð að ég prófaði að nota Xylo Sweet (xylitol) sem er náttúrulegur sykur og hefur ekki eins mikil áhrif á blóðsykur og venjulegur sykur.  (mætti jafnvel líka nota pálmasykur). Ásamt því notaði ég nokkrar döðlur og epli til að fá sætara og betra bragð.  Þar sem berin hjá mér voru orðin svo rosalega rauð og engin græn ber að finna á runnanum, varð ég að sjóða hlaupið upp aftur og bæta örlitlum hleypi í, en heima á Íslandi hef ég aldrei þurft að nota hleypi.  Úr varð þetta fína rifsberjahlaup, þar sem rifsberjabragðið nýtur sín vel og ekki of sætt.




2 kg. rifsber (með stilkum og jafnvel laufum)
2-3 epli gróflega skorin
800 g xylo sweet (fæst í hagkaup og í heilsubúðum)
100-200 g döðlur

Rifsberin sett í pott ásamt xylo sweet, döðlum og eplum.  Hræra vel í og leyfa þessu að malla í nokkrar mínútur eða þar til allt er orðið vel maukað.  Þá er að sía vökvann frá hratinu.  Best er að nota taubleyju, eða gott viskastykki og binda yfir pott. Leyfa þessu að standa í nokkra tíma.  Hratið geymi ég svo og síð upp aftur og bý til saft.

Þegar vökvinn hefur síast frá, síð ég hann upp aftur, bæti í smá sætu ef þörf er á og eins hleypi ef þess þarf.  Skelli þessu svo í litlar krukkur og leyfi hlaupinu að kólna þar.  Ef það hleypur ekki er hægt að sjóða upp aftur og bæta í hleypi.

Hratið set ég svo í pott og bæti við vatni þannig að fljóti aðeins yfir.  Leyfi þessu að malla í smá stund við vægan hita. Bæti í sætu ef þarf.  Sía hratið þá aftur frá og helli vökvanum í flösku eða könnu.  Þetta er hinn fínasti sumardrykkur.  Það er svo bara smekksatriði hvort hann er þynntur frekar með vatni eða ekki.  Mér finnst gott að blanda þessu út í sódavatn og bera fram með vel kalt með klaka.