Saturday, June 23, 2012

Ferskur og grænn þeytingur

Morgunstund gefur gull í mund ekki satt.  Og morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins.  Ég hef  núna síðastliðinn vetur verið að prófa nokkrar tegundir af "smoothies" en finnst alveg með ólíkindum hversu oft það er í uppskriftum sem maður finnur á netinu að það er verið að bæta sykri eða hunangi út í drykkinn alveg að óþörfu.  Ef maður notar sætan ávöxt með í drykkinn þá á yfirleitt ekki að þurfa að setja frekari sætuefni út í.
Ég hef verið algjör gikkur að prófa græna drykki þar.  Gat bara ekki ýmindað mér að drekka grænmetið mitt.  Eftir talsvert fikt og nokkrar prufur fann ég minn græna smoothie.  Meira að segja dóttir mín elskar þennan drykk.  Aðaluppistaðan er spínat, sem er frekar bragðmilt og leyfir ávaxtabragðinu að njóta sín í drykknum.  Spínatið er hins vegar bráð hollt, inniheldur bæði trefjar og prótein ásamt því að vera ríkt af K og A vítamíni og eins af C vítamíni.  Spínatið inniheldur líka mikið af nauðsynlegum steinefnum eins og kalki og magnesíum.  Spínat er talið vinna gegn krabbameini og hefur andoxunaráhrif.  Hver man ekki eftir Stjána bláa og spínatinu.  Í drykkinn nota ég svo banana og peru, til að fá sætt og gott bragð.  Ég nota líka frosin vínber.  Frosin vínber eru algjört æði, þannig að fyrir ykkur sem ekki hafa prófað þau, þá mæli ég með að kippa með ferskum vínberjum í næstu búðarferð, skola þau og skella í frystinn.  Börnin stelast í þetta eins og nammi.



1 lúka ferskt spínat
1/2 - 1 banani
1/2 pera
safi úr 1/2 appelsínu
smá sítrónusafi (1 msk kanski)
frosin vínber nokkur stk.  Má samt sleppa og setja smá klaka útí í staðin.

Þá er bara að skella öllu í blandarann og græna blandan er tilbúin.

Hugsanlega verður eitthvað minna af póstum frá mér næstu vikurnar, þar sem að fjölskyldan stendur í flutningum og því minni tími fyrir tilraunir í eldhúsinu.  En ég mæti hress aftur á bloggið í byrjun ágúst með nýjar og hollar uppskriftir frá nýja norska eldhúsinu mínu.  Þangað til þá, hafið það gott og njótið sumarsins :)