Thursday, November 29, 2012

Möndlubiscotti með súkkulaði og appelsínukeim

Mér finnast biscotti kökur alltaf jafn góðar.  Þær eru sérstaklega góðar hvort sem er með kaffi eða te, ekki of sætar en samt með örlitlum sætum keim oft nóg til að slökkva á sætindaþörfinni.  Biscotti kökur eru almennt séð ekki svo óhollar og auðvelt er að breyta flestum biscotti uppskriftum til hins betra.  Aðalmálið er hvíta hveitið og hvíti sykurinn fari út og setja inn hollara hráefni í staðin. Biscotti innihalda yfirleitt ekki mikla olíu, en mikilvægt er að huga að því að sú olía sem notuð er sé sem minnst unnin.
Hér kemur nokkuð einföld og góð uppskrift, sem ég nota sem grunnuppskrift en auðvelt er t.d. að skipta út hnetutegund, bæta við kryddi eða hvað það er sem hugurinn girnist.



2 bollar gróft spelt eða glúteinlaust mjöl að eigin vali
2/3 bolli kókossykur eða pálmasykur
1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk salt
1 tsk vanilluduft, hreint
3 egg
2 msk kókosolía
1/3 bolli gróft saxaðar möndlur
50 g smátt saxað dökkt súkkulaði
2 msk rifinn appelsínubörkur

Blanda saman þurrefnum í eina skál.  Setja egg og kókosolíu (fljótandi) í aðra skál og píska vel saman.  Blanda eggjablöndunni saman við þurrefnin, blanda vel saman og hnoða svo saman á borði.  Skipta deiginu í tvennt og gera tvær lengjur, hvor um 5-6 cm breið og 2-3 cm þykk (hjá mér varð lengdin ca. 15-18 cm).  Setja lengjurnar á pappírsklædda plötu og inn í ofn.  Bakað í 25-28 mínútur við 165°.  Taka þá lengjurnar út og leyfa þeim að kólna í ca. 10-15 mínútur. Lækka í ofninum niður í 150°.  Skera þær þá í sneiðar ca. 1 1/2 -2 cm þykkar.  Leggja sneiðarnar á bökunarplötu og baka í 10-12 mínútur (við 150°).  Taka aftur úr ofninum og leyfa þeim að kólna og storkna aðeins á plötunni.

Wednesday, November 28, 2012

Möndlusmákökur

Prófaði að gera þessar einföldu og fínu smákökur.  Þær komu bara nokkuð vel út. Fullar af góðum næringarefnum.  En þar sem að ég á erfitt með að finna möndlumjöl í búðunum hér þá hef ég malað sjálf möndlurnar í mél.  Þannig verður möndlumjölið þó talsvert grófara heldur en maður kaupir í búð.  Kökurnar verða því dáldið lausari í sér með grófara mjöli.  Ég hef því skipt út hluta af möndlumjölinu næstum helmingi fyrir fínna mjög eins og spelt.  En að sjálfsögðu má nota annað glútenlaust mjöl.



1 2/3 bolli möndlumjöl eða að hluta annað mjöl
1/4 bolli kókosolía við stofuhita
2 msk agavesýróp
1 1/2 tsk vanilluduft
1/2 tsk gróft salt
3/4 tsk vínsteinslyftiduft
50 g dökkt súkkulaði smátt saxað

Blanda saman í matvinnsluvél möndlumjöli, kókosolíu og agave og láta ganga í smá stund. Bæta hinum hráefnunum saman við og blanda vel saman.  Útbúa litlar kúlur og þrýsta svo létt á þær til að fletja þær örlítið út.  Setja á plötu og baka við 170° í 10-12 mínútur.

Wednesday, November 21, 2012

Holl og góð súkkulaðimús

Ég hef séð margar útgáfur af þessari súkkulaðimús á netinu.  Þetta er afskaplega einfalt og fljótlegt að útbúa.  Ég set hérna inn mína útgáfu sem ég er samt alltaf að breyta og reyna að bæta.  Aðaluppistaðan er avokado.  Til að sæta músina nota ég döðlur, agavesýróp og stundum smá banana.
Avokado er oftast flokkað sem grænmeti, en þó eru ekki allir á sama máli um það.  Avokado inniheldur talsvert af fitu, en það er góð fita sem við höfum bara gott af sé hún ekki í allt of miklu magni.  Að auki er avokado afskaplega næringarríkt og er góð uppspretta B- og C vítamína.  Það er því óhætt að láta eftir sér svona súkkulaðimús annars lagið.

Þessi uppskrift dugar fyrir 3-4.



2 vel þroskuð avokado
5-6 döðlur legg þær í bleyti í örlitlu vatni.
2-3 tsk agavesýróp. (set stundum 1 lítinn banana með og þá minnka ég sýrópið).
3 msk dökkt lífrænt kakó
smá klípa af grófu sjávarsalti
1 tsk vanilluduft
1 msk rifinn appelsínubörkur

Byrja á að vinna döðlur og avokado vel í matvinnsluvél það er í lagi þó að það fari örlítið vatn með döðlunum.  Bæta hinum hráefnunum saman við og hræra vel í matvinnsluvélinni.  Það borgar sig að smakka til og bæta út í smá agave sýrópi ef þarf.
Bera fram með ferskum ávöxtum.

Kjúklingur í kryddaðri ávaxtasósu

Já passið ykkur... það kemur svo yndislega góð lykt í kotið þegar þessi réttur er í pottinum. Í huganum er maður kominn til fjarlægra landa.  Rétturinn er sætur á bragðið með góðum kryddkeim.  Sæta bragðið kemur hins vegar eingöngu frá ávöxtunum þurrkuðum og ferskum.  Enginn sykur eða sætuefni eru notuð eins og svo oft í svipaða rétti.



1 rauðlaukur smátt skorinn
4 hvítlauksrif marin
2 msk kókosolía

salt
pipar
1-11/2 tsk garam masala
1-11/2 tsk paprikuduft
1 tsk túrmerik

4-6 kjúklingabringur skornar í bita

Mýkja lauk og hvítlauk aðeins í olíunni.  Setja kryddin á pönnuna og hræra vel.  Kjúklingabitum bætt við og brúnaðir í kryddblöndunni.  

1 dós kókosmjólk
1 bolli þurrkaðir ávextir, gróflega skornir. Mér finnst best að nota döðlur í grunninn en bæta svo í aprikósum eða rúsínum.
1 mangó vel þroskað skorið í bita
1 epli skorið í bita
1 persimon (khaki) smátt skorið (má sleppa)
1 dl kasjú hnetur (má sleppa)

Hella kókosmjólk yfir kjúklinginn ásamt ávöxtunum.  Leyfa þessu að malla dáldið vel eða í ca. 20 mínútur. Sósan þykknar og dökknar eftir því sem þetta sýður lengur.  
Svo er bara að smakka til og bæta við kryddi eftir þörfum.  

Bera fram t.d. með sætri kartöflumús og góðu salati.  


Thursday, November 15, 2012

Hressandi mangó smoothie

Það er yndislegt að byrja daginn á hollum og góðum smoothie.  Möguleikarnir eru svo margir.  Margir vilja bæta próteindufti út í sína drykki, en ég hef lítið verið að eltast við það enda er ég ekki að reyna að byggja upp vöðvamassa neitt sérstaklega.  Ég borða bæði kjöt og fisk, ásamt kornvöru og hnetum og fæ því talsvert af próteini þar sem ég læt yfirleitt duga.  En fyrir þá sem vilja auka próteininntöku þá er ekkert að því að bæta próteindufti út í drykkina.
Mangó er einn af mínum uppáhalds ávöxtum.  Það er bæði sætt, safaríkt og bragðgott, ásamt því að vera trefjaríkt og innihalda mikið af nauðsynlegum vítamínum og næringarefnum.



1 lítið mangó, eða 1/2 stórt (mátulega þroskað)
1 stór appelsína (rúmlega 1 dl af safa)
1 tsk rifið engifer
2 msk sítrónusafi
1/2 tsk rifinn sítrónubörkur
ísmolar

Byrja á að skera mangóið í teninga og setja í blandarann.  Pressa safann úr appelsínunni og sítrónunni í gamaldags handpressu (það nota allir safavélar orðið). Rífa engiferið og sítrónubörkin og bæta öllu í blandarann.  Vinna vel í ca. 1 mínútu.  Gott að bæta ísmolum saman við.  Hella blöndunni í glas og njóta þess að drekka í sig alla hollustuna.

Athugið að það er auðveldlega hægt að útbúa þennan drykk þó að ekki sé til blandari á heimilinu.  Vel þroskað mangó er það mjúkt að það er auðvelt að skella því hreinlega bara í hrærivélina ásamt hinum hráefnunum, nú eða í matvinnsluvél.

Wednesday, November 14, 2012

Muffins með höfrum og rúsínum

Muffins þurfa ekki alltaf að vera dísætar og sykurhúðaðar til að vera góðar.  Oftast er auðvelt að breyta gömlu uppskriftunum og minka sykurmagnið eða jafnvel breyta um sætuefni, eins má skipta út hveiti fyrir spelt eða jafnvel eitthvað annað.  Þetta er gömul uppskrift sem ég átti í fórum mínum sem ég er búin að breyta aðeins og hollustuvæða.  Þessar muffins verða ekki of sætar og mér finnst þær bestar volgar með smjöri og osti, en þær eru líka fínar án þess.  Þær geymast líka ágætlega í frysti.



1 1/2 bolli vatn
1 1/2 bolli hafrar helst tröllahafrar
120 g smjör
2 egg þeytt
1/2 bolli hunang (ég nota aðeins minna hunang en bæti aðeins við rúsínurnar í staðin)
1 tsk salt
1 tsk kanill
1 1/2 tsk natrón
1 1/2 tsk vanilluduft
1 bolli gróft spelt
1 bolli rúsínur

Hita vatnið að suðu og bæta höfrum út í.  Láta standa í 2-3 mínútur.  Bæta smjöri út í bræða það í hafrablöndunni og hræra í á meðan.  Leyfa blöndunni að kólna í stutta stund. Bæta hunangi út í og blanda vel saman. Þeyta eggin og blanda saman við.  Bæta svo öllum þurrefnum saman við og blanda vel. Að lokum eru rúsínurnar settar út í.  Skella þessu í muffinsform.  Baka við 170° í ca. 20 mínútur.

Wednesday, November 7, 2012

Súkkulaðisósa

Set hér inn að gamni uppskrift af súkkulaðisósu sem ég hef stundum gert svona spari og nota þá ofan á ferska ávexti, kökur og fleira.

2 dl kókosolía fljótandi
1 1/2 dl kakó helst dökkt og lífrænt
1/2 dl agavesýróp

Bræða kókosolíuna yfir vatnsbaði ef hún er í föstu formi. Hræra svo öll hráefnin rólega en vel saman.  Það getur verið mjög gott að setja smátt saxaðar hnetur um 1/2 dl út í sósuna til tilbreytingar.

Orku jólakúlur

Póstkassinn er fullur af alls konar jólabæklingum á hverjum degi og maður þarf að kíkja á dagatalið bara til að vera viss um að það sé örugglega bara nóvember ennþá og nægur tími til jóla.  Því miðað við ógrynnið af jólatilboðum sem kemur hér inn gæti maður haldið að jólin væru bara í næstu viku. En það er víst nægur tími til stefnu.  En það er nú samt þannig að þó svo maður byrji nokkuð snemma á jólaundirbúningi þá vill samt alltaf verða dáldið mikið að gera hjá manni þegar nær dregur.  Þá er voða gott að hafa orkuríkar jólakúlur til að narta í þegar annríkið verður sem mest.  Þær eru sætar og bragðgóðar og innihalda ekki þessi leiðindaefni sem eiga það til að hreinlega sjúga úr manni orkuna.  Það tekur ekki nema örfáar mínútur að útbúa kúlurnar.  Til að gera kúlurnar að enn meira sælgæti er hægt að velta þeim upp úr súkkulaðisósu sjá t.d. uppskrift hér.  Það er rosalega gott, en ég geri það bara svona alveg spari, enda eru kúlurnar líka fínar bara svona án sósu.

Uppistaðan í þessum kúlum eru kasjúhnetur og rúsínur.  Orkurík hráefni sem innihalda jafnframt mikið af nauðsynlegum vítamínum og steinefnum ásamt því að innihalda andoxunarefni.  Kærkomin blanda fyrir aðventuna.



3 1/2 dl kasjúhnetur
3 tsk kanill
2 tsk kardimommur
1 tsk múskat
1 tsk vanilluduft
2 dl rúsínur
2 msk agavesýróp

Vinna hneturnar í matvinnsluvél þar til þær eru orðnar gróft mjöl.  Bæta þá í kryddum og blanda aðeins saman.  Setja rúsínur út í og agavesýrópið og vinna vel saman.  Ef blandan er of þurr til að hægt sé að móta kúlur úr henni er hægt að setja 1-2 msk af vatni út í, bara bæta við örlitlu í einu.  Þá er bara að móta kúlur úr blöndunni.  Ég fæ um 12-15 kúlur úr þessari blöndu.  

Saturday, November 3, 2012

Gulrótakúlur (hráar)

Yndislegar litlar hráar kúlur sem minna helst á gulrótarkökur. Algjört sælgæti en samt hollt.  Uppistaðan í kúlunum ásamt gulrótum eru möndlur.  Möndlur eru afskaplega próteinríkar og eru ríkar m.a. af E vítamínum, magnesium og járni.  Þær innihalda líka mikið magn af kalki og eru einn besti kalkgjafinn úr jurtaríkinu og því kjörnar fyrir þá sem ekki neyta mjólkurafurða.  Þær eru einnig ríkar af omega 3 fitusýrum.  Möndlur eru orkuríkar og því tilvaldar fyrir t.d. hlaupara og annað íþróttafólk.  Nú eða bara sem nammi :)



3/4 bolli möndlur
6-8 döðlur (ég nota stórar mjúkar), gott að bleyta aðeins í volgu vatni áður
1/3 bolli kókosflögur (má líka nota kókosmjöl)
2 meðalstórar gulrætur rifnar
1/2 msk kanill
1/4 tsk negull
nokkur korn mulið sjávarsalt
4 msk kókosmjólk (má nota kókosolíu líka, mér finnst best að nota hvoru tveggja)

Möndlurnar eru malaðar í mjöl í matvinnsluvél.  Fjarlægja mjölið úr skálinni.  Vinna döðlur og kókosflögur í gott mauk í matvinnsluvélinni.  Ef þarf er hægt að bæta aðeins kókosmjólk út í eða olíu.
Bæta möndlumjölinu aftur út í ásamt kryddi og gulrótum.  Blanda vel saman.  Bæta við kókosmjólk eða kókosolíu eftir þörfum.
Móta litlar kúlur og geyma þær í kæli.

Friday, November 2, 2012

Appelsínumarineraður lax

Einfaldur og góður laxaréttur.  Þessa uppskrift fann ég á gömlum handskrifuðum miða hjá mér, þar var reyndar púðursykur í uppskriftinni.  Ég prófaði hreinlega að sleppa honum alveg. En fyrir þ.á sem vilja hafa marineringuna sætari þá mæli ég með að nota örlítið hunang eða annað náttúrulegt sætuefni.  En það ætti ekki að þurfa. Tamarisósan eða sojasósan milda fitubragðið sem stundum er af laxinum og hann verður mjúkur og góður.  Appelsínusafinn gefur afskaplega gott bragð.



6-8 laxabitar

Raða laxabitunum í eldfast mót.

safi úr einni stórri appelsínu
rifinn appelsínubörkur um 1 msk.
5 msk tamarisósa eða soyjasósa
2 marin hvítlauksrif
1-2 cm rifinn engifer
1/2 púrrulaukur eða 4-5 vorlaukar, smátt skorið

Blanda öllu vel saman og hella yfir laxinn. Leyfa laxinum að standa í marineringunni í 1-2 klst.  Baka svo í ofni við 200° í 15 -20 mín.  Bera fram með góðu salati, appelsínusneiðum, sætum kartöflum og grófum hrísgrjónum.