Saturday, March 10, 2012

Hrákaka með döðlum og ávöxtum

Eins og ég hef örugglega oft áður sagt, þá elska ég hollustu sem bragðast eins og óhollusta.  Þessi gómsæta hrákaka flokkast algjörlega þar undir.  Hún er stútfull af næringarefnum og hollustu. Það er einfalt og fljótlegt að búa hana til.  Ekkert mál að eiga botninn í frysti og grípa til hans og skreyta ef gesti ber að garði.  
Ofan á kökuna set ég granatepli.  Granatepli innihalda mikið af andoxunarefnum, mun meira heldur en t.d. bláber og grænt te.  Það er um það bil 10 sinnum meira magn af andoxunarefnum í granateplum heldur en í appelsínum og 40 sinnum meira heldur en í venjulegum eplum.  Rannsóknir hafa sýnt að granatepli styrkja ónæmiskerfið og eru talin vinna gegn krabbameini meðal annars í blöðruhálskirtli.






Botn
250 gr. döðlur (má líka blanda með rúsínum eða öðrum þurrkuðum ávöxtum)
1/2 dl fljótandi kókosolía
1 stór banani (má vera orðinn dáldið brúnn)
1 msk hunang eða agave
1 1/2  - 2 dl tröllahafrar
2 msk  kakóduft dökkt lífrænt

Allt maukað saman í matvinnsluvél og sett í form.  Skella forminu í frysti á meðan ávextirnir eru skornir niður. 

Ofan á kökuna er hægt að setja allt mögulegt.  Ég notaði, 2 lítil epli, 1 peru, nokkur jarðarber og granatepli.
Gott er líka að nota kíwí, bláber, banana, hnetur og kókosflögur.

Ég bræddi síðan örlítið (ca 40 g) af dökku súkkulaði og setti yfir kökuna.

Best er að geyma kökuna í kæli eða í frysti.  Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma eða þá svona "gervirjóma".  En hún er samt líka góð svona ein og sér.

No comments:

Post a Comment