Friday, November 25, 2011

Morgunkökur sem má borða í öll mál


Þessar yndislegu kökur eru einmitt eins og ég vil hafa þær. Nógu góðar til að koma í staðin fyrir sætindin, en nógu hollar svo að hægt er að borða þær í öll mál, líka í morgunmat þ.e.a.s. ef þær eru ekki búnar. Það er venjan að taka svona kökur með á öll íþróttamót hjá okkur, enda eru þær orkuríkar og góðar.  Það hentar líka vel fyrir mömmuna sem situr á hliðarlínunni og langar til að stelast í sætindi með kaffibollanum sínum.

3 bananar vel þroskaðir  (mega alveg vera dáldið mikið svartir og ljótir)
2 bollar haframjöl
2 msk olía (ég nota kókosolíu)
1 tsk vanilludropar eða vanilluduft
1 tsk kanill
½ tsk salt
1 bolli döðlur skornar í litla bita.

Ég byrja á að skera döðlurnar og set þær svo í bleyti í volgt vatn á meðan ég hef hitt tilbúið. 
Set ofþroskuðu bananana í skál og stappa vel. Blanda haframjölinu saman við ásamt olíu, vanillu, kanil og salti.
Helli vökvanum af döðlunum og blanda þeim saman við hræruna. 
Þetta er svo sett með skeið á plötu og inn í ofn á 190° í ca 15 mínútur.

Það er hægt að leika sér dálítið með hráefnin í þessu.  Fínt að nota rúsínur líka.  Oftast set ég hörfræ út í til að bæta hollustuna enn meir.  Goji ber, appelsínubörk, hnetur, fræ og allt mögulegt. 

Geymast best i kæli. 

Austurlenskur cous-cous kjúklingaréttur


Mikið búið að ganga á hér á heimilinu í kvöld.  Gasið kláraðist á eldavélinni og ég var lengi að bisast við að koma öðrum kút í samband.  Var farin að örvænta, hélt að það yrði bara enginn kvöldmatur þetta kvöldið.  En þetta hafðist allt að lokum.  Biðin var líka vel þess virði.  Kjúklingur og cous-cous í kryddaðri sósu stóð algjörlega fyrir sínu. 

500 g ca af kjúkling, læri, fille eða bringu.  (ég notaði úrbeinuð læri)
1 l af vatni
2 teningar kjúklingakraftur (ég reyndar setti grænmetiskraft gerlausan)
1 ½ tsk kumin (ekki fræin heldur kryddið)
1 tsk turmeric
1 tsk engifer
1 tsk kanill
½ tsk nýmalaður pipar
3 dl cous cous
2 tsk ferskur sítrónusafi
2 gulrætur skornar í strimla
½ dl rúsínur
möndluflögur

Byrja á að brúna kjúklinginn aðeins á pönnu og skera í bita.  Setja vatn í pott, ásamt teningum og kryddi og sjóða í 2-3 mínútur.  Setja cous-cous í skál hella svo um það bil 2 ½ dl af soðinu yfir cous-cousið. Leyfa þvi að standa þar til það verður mjúkt.  Setja kúklinginn og gulræturnar í pottinn með soðinu sem eftir er og sjóða í 5 mínútur.
Hræra vel í cous-cousinu og setja á fat.  Setja kjúklinginn yfir ásamt hluta af soðinu (eftir smekk).  Strá rúsínum yfir og jafnvel möndluflögum.  

Tuesday, November 22, 2011

Kanil- og valhnetuhúðaður lax

Þessi er alveg himneskur og ilmurinn í eldhúsinu var alveg guðdómlegur.  Þetta er líka frekar ódýr matur svona miðað við margt annað.  Ég keypti svona frosinn lax í Krónunni, 4 bitar í pakkanum.  Mig minnir að þetta hafi verið tæp 700g á rúmlega 1200 til 1500 kr í mesta lagi. Lax er auðvitað mjög hollur eins og allir vita, eins er kanillinn mjög góður fyrir blóðsykurinn.  Ég nota alltaf íslenskt smjör og kókosolíu blandað saman þegar ég er að steikja fisk.  Rosalega góð blanda.

6-700gr lax
50 gr valhnetur
1-2 tsk kanill
salt 
pipar
kaldpressuð kókosolía og íslenskt smjör til helminga fyrir steikinguna.

Hnetur maukaðar í matvinnsluvél og kryddi bætt út í.  Svo er laxabitunum bara velt upp úr blöndunni. Steikt við frekar vægan hita á pönnu ca. 10 mín á hvorri hlið. (fer eftir þykkt bitanna).

Borið fram með hýðishrísgrjónum, salati og góðri kaldri sósu.  Ég notaði bara smá sýrðan rjóma sem ég átti í ísskápnum og bætti út í hann hvítlauksrifi og smá sætu sinnepi.

Sunday, November 13, 2011

Grænmetisréttur með ítölsku ívafi

Um daginn var bara eitthvað svo mikið að gera hjá mér og sama hvar ég var, það var alltaf einhver óhollusta í boði og erfitt að passa upp á mataræðið.  Ég er reyndar ekkert fanatísk með þetta, en stundum er bara komið nóg og þá er ágætt að fá sér eitthvað hollt og gott til þess að gíra sig niður eftir törnina.  Ég sauð þennan rétt saman úr því grænmeti sem ég átti í ísskápnum.  Uppistaðan eru sætar kartöflur og kúrbítur og svo er bara um að gera að nýta það sem til er.  Svo er fínt að eiga þennan í ísskápnum eða í frysti til þess að hita upp þegar lítill tími er í eldamennsku.

1 stór sæt kartafla
1 stór kúrbítur
4 gulrætur
1 rauðlaukur
2-3 hvítlauksrif marin
1 dós niðursoðnir tómatar í bitum (lífrænt auðvitað)
2-3 tsk tómatpaste (lífrænt)
Smá vatn
oregano
salt og pipar
2 - 3 dl hirsi soðið eða afgangur af hýðishrísgrjónum eða kínóa
ostur

Skera niður sætu kartöfluna, kúrbítinn og gulræturnar.  Setja í eldfast mót. Dreifa hirsi eða hrísgrjónum yfir.   Skella niðursoðnu tómötunum og tómatpaste í pott og bæta smá vatnið við.  Skella lauknum og hvítlauknum út í og krydda með salti, pipar og oregano.   Leyfa þessu að malla í stutta stund.  Hella þessu svo yfir grænmetið í fatinu.  Leyfa þessu að malla í ofninum á 190° í ca 20 mín.  Skella smá osti þá yfir og setja afur í ofninn í 10 mín. til viðbótar.

Ungversk gúllassúpa með hollara ívafi

Ungversk gúllassúpa stendur alltaf fyrir sínu.  Hér aðlagaði ég gamla uppskrift sem ég átti betur að mínu mataræði.

700 g nautagúllas
2 laukar
3-4 hvítlauksrif
2-3 msk kókosolía til steikingar
1 1/2 msk paprikuduft
1 1/2 l vatn
3-4 msk gerlaus grænmetiskraftur (frá Sollu)
1-2 msk meiran
1 stór sæt kartafla
4 gulrætur
2 paprikur
4-5 tómatar
pipar

Saxa lauk og pressa hvítlauk. Brúna kjötið í olíunni ásamt lauk og hvítlauk.  Bæta pipar, paprikudufti og meirani yfir og setja svo vatn og grænmetiskraft í pottinn.  Þetta þarf að sjóða við vægan hita í u.þ.b. 40 mínútur.
Skera og flysja sætu kartöflurnar, skera gulrætur, papriku og tómata í litla bita og bæta út í pottinn.  Nú þarf þetta að sjóða í ca. hálftíma til viðbótar.  Svo er um að gera að smakka þetta vel til og bæta við kryddi eða grænmetiskrafti.  Svo má auðvitað bæta öðru grænmeti við líka.  Ég hef líka notað sveppi og venjulegar kartöflur.

Bragðmiklar hráar og hollar Brownie

Það er ekkert eins æðislegt og sætindi sem eru nógu holl til að hægt sé að borða þau í morgunmat.  Þessar Brownie eru einmitt þannig, fullar af góðum næringarefnum.  Döðlur eru trefjaríkar og innihalda m.a. talsvert magn af magnesium. Dökkt hrátt kakó er talið búa yfir svo mörgum góðum eiginleikum að það væri hægt að skrifa heila ritgerð um það.  Í stuttu máli er kakóið eiginlega ofurfæða.  Valhnetur innihalda mikið af omega-3. Og möndlur eru ríkar af magnesium, kalki, E-vítamíni og fleiri næringarefnum.  Ég var að minnsta kosti ekki svikin af þessari uppskrift.  Fann þessa uppskrift á síðunni My new roots (fékk myndina lánaða þaðan).

2 bollar valhnetur (heilar)
2 1/2 bolli döðlur
1 bolli hrátt, dökkt kakó (ég setti aðeins minna kakó ca. 3/4 bolli)
1 bolli möndlur, heilar og hráar
1/2 tsk sjávarsalt gróft

Valhneturnar eru settar í matvinnsluvélina og hakkaðar niður þar til þær eru næstum orðnar að dufti. Kakóið og saltið sett út í.  Síðan set ég eina og eina döðlu út í í einu á meðan vélin er að vinna.  Gumsið á að líta út fyrir að vera duftkennt, en samt að vera þannig að það loði vel saman ef maður þrýstir á það.   Þá er að grófsaxa möndlurnar og bæta þeim varlega út í.  Síðan er blöndunni þrýst vel ofan í mót og sett í frysti í smá stund.



Ég hef líka prófað að bæta ca 1 tsk af agavesýrópi út í, því mér fannst döðlurnar ekki alveg nógu sætar og ferskar.  Svo er bara geggjað að bæta pínu söxuðu dökku súkkulaði út í, jafnvel sykurlausu súkkulaði.    Ég hef ekki prófað að hafa þeyttan rjóma með henni en það er örugglega rosalega gott.  
Mæli með góðum Latte bolla með :)