Monday, December 12, 2011

Steiktir bleikjubitar

Einfaldur og fljótlegur kvöldverður, ekki veitir af í jólaönnum.  Ég er líka mjög ánægð þegar ég get eldað holla og góða máltíð fyrir okkur börnin fyrir innan við 2000 kr.  Ég steiki orðið allt úr blöndu af íslensku smjöri og kókosolíu.  Það gerir svo gott bragð.  Kókosolían er afbragðsholl og það er íslenska smjörið víst líka.

800 g bleikjuflök
1/2 dl gróft spelt
salt
pipar
smjör / kókosolía

Skera bleikjuflökin í frekar litla bita. Lítið flak skar ég í 4-5 bita.  Setja speltið á disk ásamt salt og pipar og velta bleikjubitunum upp úr.  Steikja bitana við vægan hita á pönnu upp úr smjöri og kókosolíu í ca. 3-5 mínútur á hvorri hlið.  Bera fram með góðu salati, kaldri jógúrtsósu og hýðishrísgrjónum.

Hollari súkkulaðibitakökur

Jæja, það er hægara sagt en gert að verða sér út um uppskriftir sem eru ekki löðrandi í sykri og óhollustu.  Þessar fínu súkkulaðibitakökur eru þó eitthvað í áttina.  Þær innihalda agave-sýróp og döðlur sem að sjá um sæta bragðið ásamt dökku súkkulaði.  Þetta er uppskrift sem kemur frá henni Sollu Eiríks á Gló.  Mér fannst deigið vera helst til þurrt, svo að ég bætti aðeins af vatni útí til að auðveldara væri að móta kúlur.  Hugsanlega er það mátulegt ef maður lætur döðlurnar liggja í bleyti áður en þær fara út í. 
En ég var mjög sátt við útkomuna, bragðgóðar og fínar kökur og ég gat meira að segja leyft mér að fá mér tvær kökur í svona eftirmorgunmat, enda eru þær sjálfsagt ekkert mikið óhollari heldur en cheeriosið sem ég áður lét ofan í mig á morgnanna.

2 dl döðlur, smátt saxaðar
1 dl lífræn kókosolía
1 dl agave-sýróp
300 g spelt
200 g heslihnetur, þurrristaðar, gróft saxaðar (til að flýta fyrir setti ég þær bara í matvinnsluvélina)
100 g kókosmjöl, þurrristað í ofni (í bráðlæti mínu notaði ég bara p0önnuna)
1 tsk. vanilla
Smá sjávarsalt
200 g lífrænt 70% súkkulaði, smátt saxað

Setjið döðlur, kókosolíu og agave-sýróp í matvinnsluvél (notið þá hnoðarann, ekki hnífinn) eða hrærivél og blandið saman. Bætið út í spelti, heslihnetum, kókosmjöli, vanillu, smá sjávarsalti og súkkulaði og klárið að hræra deigið saman. Látið bökunarpappír á ofnplötu og mótið litlar kökur með teskeið eða í höndunum og setjið á plötuna. Bakið við 175°C í 10-12 mín.

Saturday, December 10, 2011

Hollar ömmukúlur

Er að gera nokkrar tilraunir fyrir jólin með hollari útgáfur af konfekti og smákökum.  Þessi uppskrift stendur alveg fyrir sínu og er einföld og fljótleg.

2 dl döðlur
1 dl kókosmjöl
1 dl rúsínur
1 dl möndlur
250 g dökkt súkkulaði

Saxa döðlur og möndlur.  Bræða súkkulaðið yfir heitu vatnsbaði.  Blanda öllu saman við súkkulaðið.  Setja í lítil form og kæla.

Friday, November 25, 2011

Morgunkökur sem má borða í öll mál


Þessar yndislegu kökur eru einmitt eins og ég vil hafa þær. Nógu góðar til að koma í staðin fyrir sætindin, en nógu hollar svo að hægt er að borða þær í öll mál, líka í morgunmat þ.e.a.s. ef þær eru ekki búnar. Það er venjan að taka svona kökur með á öll íþróttamót hjá okkur, enda eru þær orkuríkar og góðar.  Það hentar líka vel fyrir mömmuna sem situr á hliðarlínunni og langar til að stelast í sætindi með kaffibollanum sínum.

3 bananar vel þroskaðir  (mega alveg vera dáldið mikið svartir og ljótir)
2 bollar haframjöl
2 msk olía (ég nota kókosolíu)
1 tsk vanilludropar eða vanilluduft
1 tsk kanill
½ tsk salt
1 bolli döðlur skornar í litla bita.

Ég byrja á að skera döðlurnar og set þær svo í bleyti í volgt vatn á meðan ég hef hitt tilbúið. 
Set ofþroskuðu bananana í skál og stappa vel. Blanda haframjölinu saman við ásamt olíu, vanillu, kanil og salti.
Helli vökvanum af döðlunum og blanda þeim saman við hræruna. 
Þetta er svo sett með skeið á plötu og inn í ofn á 190° í ca 15 mínútur.

Það er hægt að leika sér dálítið með hráefnin í þessu.  Fínt að nota rúsínur líka.  Oftast set ég hörfræ út í til að bæta hollustuna enn meir.  Goji ber, appelsínubörk, hnetur, fræ og allt mögulegt. 

Geymast best i kæli. 

Austurlenskur cous-cous kjúklingaréttur


Mikið búið að ganga á hér á heimilinu í kvöld.  Gasið kláraðist á eldavélinni og ég var lengi að bisast við að koma öðrum kút í samband.  Var farin að örvænta, hélt að það yrði bara enginn kvöldmatur þetta kvöldið.  En þetta hafðist allt að lokum.  Biðin var líka vel þess virði.  Kjúklingur og cous-cous í kryddaðri sósu stóð algjörlega fyrir sínu. 

500 g ca af kjúkling, læri, fille eða bringu.  (ég notaði úrbeinuð læri)
1 l af vatni
2 teningar kjúklingakraftur (ég reyndar setti grænmetiskraft gerlausan)
1 ½ tsk kumin (ekki fræin heldur kryddið)
1 tsk turmeric
1 tsk engifer
1 tsk kanill
½ tsk nýmalaður pipar
3 dl cous cous
2 tsk ferskur sítrónusafi
2 gulrætur skornar í strimla
½ dl rúsínur
möndluflögur

Byrja á að brúna kjúklinginn aðeins á pönnu og skera í bita.  Setja vatn í pott, ásamt teningum og kryddi og sjóða í 2-3 mínútur.  Setja cous-cous í skál hella svo um það bil 2 ½ dl af soðinu yfir cous-cousið. Leyfa þvi að standa þar til það verður mjúkt.  Setja kúklinginn og gulræturnar í pottinn með soðinu sem eftir er og sjóða í 5 mínútur.
Hræra vel í cous-cousinu og setja á fat.  Setja kjúklinginn yfir ásamt hluta af soðinu (eftir smekk).  Strá rúsínum yfir og jafnvel möndluflögum.  

Tuesday, November 22, 2011

Kanil- og valhnetuhúðaður lax

Þessi er alveg himneskur og ilmurinn í eldhúsinu var alveg guðdómlegur.  Þetta er líka frekar ódýr matur svona miðað við margt annað.  Ég keypti svona frosinn lax í Krónunni, 4 bitar í pakkanum.  Mig minnir að þetta hafi verið tæp 700g á rúmlega 1200 til 1500 kr í mesta lagi. Lax er auðvitað mjög hollur eins og allir vita, eins er kanillinn mjög góður fyrir blóðsykurinn.  Ég nota alltaf íslenskt smjör og kókosolíu blandað saman þegar ég er að steikja fisk.  Rosalega góð blanda.

6-700gr lax
50 gr valhnetur
1-2 tsk kanill
salt 
pipar
kaldpressuð kókosolía og íslenskt smjör til helminga fyrir steikinguna.

Hnetur maukaðar í matvinnsluvél og kryddi bætt út í.  Svo er laxabitunum bara velt upp úr blöndunni. Steikt við frekar vægan hita á pönnu ca. 10 mín á hvorri hlið. (fer eftir þykkt bitanna).

Borið fram með hýðishrísgrjónum, salati og góðri kaldri sósu.  Ég notaði bara smá sýrðan rjóma sem ég átti í ísskápnum og bætti út í hann hvítlauksrifi og smá sætu sinnepi.

Sunday, November 13, 2011

Grænmetisréttur með ítölsku ívafi

Um daginn var bara eitthvað svo mikið að gera hjá mér og sama hvar ég var, það var alltaf einhver óhollusta í boði og erfitt að passa upp á mataræðið.  Ég er reyndar ekkert fanatísk með þetta, en stundum er bara komið nóg og þá er ágætt að fá sér eitthvað hollt og gott til þess að gíra sig niður eftir törnina.  Ég sauð þennan rétt saman úr því grænmeti sem ég átti í ísskápnum.  Uppistaðan eru sætar kartöflur og kúrbítur og svo er bara um að gera að nýta það sem til er.  Svo er fínt að eiga þennan í ísskápnum eða í frysti til þess að hita upp þegar lítill tími er í eldamennsku.

1 stór sæt kartafla
1 stór kúrbítur
4 gulrætur
1 rauðlaukur
2-3 hvítlauksrif marin
1 dós niðursoðnir tómatar í bitum (lífrænt auðvitað)
2-3 tsk tómatpaste (lífrænt)
Smá vatn
oregano
salt og pipar
2 - 3 dl hirsi soðið eða afgangur af hýðishrísgrjónum eða kínóa
ostur

Skera niður sætu kartöfluna, kúrbítinn og gulræturnar.  Setja í eldfast mót. Dreifa hirsi eða hrísgrjónum yfir.   Skella niðursoðnu tómötunum og tómatpaste í pott og bæta smá vatnið við.  Skella lauknum og hvítlauknum út í og krydda með salti, pipar og oregano.   Leyfa þessu að malla í stutta stund.  Hella þessu svo yfir grænmetið í fatinu.  Leyfa þessu að malla í ofninum á 190° í ca 20 mín.  Skella smá osti þá yfir og setja afur í ofninn í 10 mín. til viðbótar.

Ungversk gúllassúpa með hollara ívafi

Ungversk gúllassúpa stendur alltaf fyrir sínu.  Hér aðlagaði ég gamla uppskrift sem ég átti betur að mínu mataræði.

700 g nautagúllas
2 laukar
3-4 hvítlauksrif
2-3 msk kókosolía til steikingar
1 1/2 msk paprikuduft
1 1/2 l vatn
3-4 msk gerlaus grænmetiskraftur (frá Sollu)
1-2 msk meiran
1 stór sæt kartafla
4 gulrætur
2 paprikur
4-5 tómatar
pipar

Saxa lauk og pressa hvítlauk. Brúna kjötið í olíunni ásamt lauk og hvítlauk.  Bæta pipar, paprikudufti og meirani yfir og setja svo vatn og grænmetiskraft í pottinn.  Þetta þarf að sjóða við vægan hita í u.þ.b. 40 mínútur.
Skera og flysja sætu kartöflurnar, skera gulrætur, papriku og tómata í litla bita og bæta út í pottinn.  Nú þarf þetta að sjóða í ca. hálftíma til viðbótar.  Svo er um að gera að smakka þetta vel til og bæta við kryddi eða grænmetiskrafti.  Svo má auðvitað bæta öðru grænmeti við líka.  Ég hef líka notað sveppi og venjulegar kartöflur.

Bragðmiklar hráar og hollar Brownie

Það er ekkert eins æðislegt og sætindi sem eru nógu holl til að hægt sé að borða þau í morgunmat.  Þessar Brownie eru einmitt þannig, fullar af góðum næringarefnum.  Döðlur eru trefjaríkar og innihalda m.a. talsvert magn af magnesium. Dökkt hrátt kakó er talið búa yfir svo mörgum góðum eiginleikum að það væri hægt að skrifa heila ritgerð um það.  Í stuttu máli er kakóið eiginlega ofurfæða.  Valhnetur innihalda mikið af omega-3. Og möndlur eru ríkar af magnesium, kalki, E-vítamíni og fleiri næringarefnum.  Ég var að minnsta kosti ekki svikin af þessari uppskrift.  Fann þessa uppskrift á síðunni My new roots (fékk myndina lánaða þaðan).

2 bollar valhnetur (heilar)
2 1/2 bolli döðlur
1 bolli hrátt, dökkt kakó (ég setti aðeins minna kakó ca. 3/4 bolli)
1 bolli möndlur, heilar og hráar
1/2 tsk sjávarsalt gróft

Valhneturnar eru settar í matvinnsluvélina og hakkaðar niður þar til þær eru næstum orðnar að dufti. Kakóið og saltið sett út í.  Síðan set ég eina og eina döðlu út í í einu á meðan vélin er að vinna.  Gumsið á að líta út fyrir að vera duftkennt, en samt að vera þannig að það loði vel saman ef maður þrýstir á það.   Þá er að grófsaxa möndlurnar og bæta þeim varlega út í.  Síðan er blöndunni þrýst vel ofan í mót og sett í frysti í smá stund.



Ég hef líka prófað að bæta ca 1 tsk af agavesýrópi út í, því mér fannst döðlurnar ekki alveg nógu sætar og ferskar.  Svo er bara geggjað að bæta pínu söxuðu dökku súkkulaði út í, jafnvel sykurlausu súkkulaði.    Ég hef ekki prófað að hafa þeyttan rjóma með henni en það er örugglega rosalega gott.  
Mæli með góðum Latte bolla með :)

Monday, October 17, 2011

Kanilhúðaðar sætar kartöflur og kjúklingabaunir

Ég elska svona einfalda rétti sem eru samt svona hollir og góðir.  Þennan rétt hef ég útbúið bæði til að eiga svona á milli mála um helgar og í nesti bæði í skóla, vinnu og á íþróttamót.  Hann er líka fínn sem meðlæti með öðrum mat.  Sætar kartöflur er víst alveg einstaklega hollar, enda skilst mér að þær teljist til 10 hollustu fæðutegunda heims.  Þær eru bæði A og C vítamín ríkar og hjálpa til við að koma jafnvægi á blóðsykurinn.  Kanillinn er víst undraefni líka.  Hann er talinn krabbameinshamlandi og rannsóknir sýna að kanillinn inniheldur efni sem líkja eftir insúlíni.  Jafnframt því er kanillinn meðal annars talinn hafa góð áhrif á kólestról og sveppamyndun, ásamt því að draga úr gasmyndun hvorki meira né minna takk fyrir.  Kjúklingabaunir eru trefja- og próteinríkar ásamt því að vera ríkar af vítamínum og steinefnum. Þetta ætti því að vera sannkallaður ofurréttur.

2 1/2 dl kjúklingabaunir í dós eða soðnar heima
1 sæt kartafla (frekar stór) skorin í teninga
1 stór laukur frekar smátt skorinn
2 msk kókosolía (má nota ólífuolíu líka)
2 tsk kanill
gróft salt (ég nota maldon)

Mér finnst betra að nota baunir sem ég sýð sjálf, en auðvitað er það aðeins meira vesen.  Þá þarf að leggja þær í bleyti yfir nótt skipta svo um vatn á þeim og sjóða í ca. 40 mín. 
Þá er að skera sætu kartöflurnar og laukinn og setja í eldfast mót.  Setja olíu yfir, kanil og salt.  Blanda þessu svo vel saman.  Skella í ofninn í svona 20 mín. á 200°.  Þá bæti ég baununum út í og blanda öllu vel saman.  Set svo í ofninn aftur í aðrar 20 mín.  Mér finnst betra að hafa baunirnar ekki of lengi í ofninum því þá verða þær og þurrar.  Svo er bara að skella þessu í nestisboxið eða á matarborðið.

Tuesday, October 11, 2011

Frískur og hreinsandi Sunrise

Þessi drykkur er bara æði.  Held að ég hafi fengið grunnuppskriftina af honum á síðunni hjá heilsukokkinum.  Ég tók nokkra svona "detox daga" hér fyrr í haust, þá kom þessi uppskrift að góðum notum.  Vatnsmelónur eru mjög vatnslosandi og innihalda jafnframt efni sem heitir lysopene og er talið vinna á fyrirbyggjandi hátt gegn krabbameini.  Mér finnst mjög gott að fá mér svona hressandi og litríkan kokteil á kvöldin, sérstaklega ef maður er búin að vera að svindla á mataræðinu.



1/4 meðalstór vatnsmelóna
appelsínusafi (lífrænn úr fernum eða ferskar)
smá rifinn engifer
6-8 frosin jarðaber

Setja rauða kjötið úr melónunni í blandara ásamt frosnum jarðaberjum og smá af rifnum engifer.  Smekksatriði hversu mikið á að setja af engiferinu.  Ég set bara örlítið til að byrja með.  Svo er bara að blanda þessu vel saman.  Hella svo rauða gumsinu í 2-3 há glös.  Glösin eiga að vera um það bil hálffull.  Svo er að fylla upp í glösin með appelsínusafa, þá sest hann á botninn á glasinu svo að það kemur svona skemmtilega litaáferð.  Það má auðvitað bæta við þetta klökum líka.

Bananabrauð - bara enn hollara

Hver elskar ekki bananabrauð.  Ég tala nú ekki um þegar búið er að losa sig við sykurinn og hvíta hveitið.  Þá þarf ekkert samviskubit að hafa yfir því að fá sér aukasneið.  Þegar þetta er bakað á heimilinu hjá mér, þá er það vinsælt í nestisboxið og klárast yfirleitt fljótt.  Svo er þetta svo einfalt og fljótlegt.

2 bollar gróft spelt
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk natron
1/4 tsk salt (sjávarsalt)
2 stórir og mjúkir bananar
1 tsk kanill

Bananar stappaðir gróflega.  Svo er bara öllu blandað saman í skál.  Sett í brauðform og bakað við 200° í 40-60 mín. eða þar til brauðið hefur tekið fallegan lit.  Það er líka gott að bæta pínu döðlum við deigið og jafnvel einhverjum fræjum.

Friday, October 7, 2011

Kjúlli í eplasósu

Jæja er víst orðin árinu eldri en samt svo mikið yngri.....skrítið er það ekki.  Eftir smá svindl síðustu daga í öllum afmælisveislunum er víst kominn tími til að halda sig við efnið í mataræðinu.  Hef því verið að leita að hollum og góðum uppskriftum til að prófa.  Fann þessa á einhverri góðri síðu í útlandinu.  Er búin að aðlaga hana aðeins að mínum lífstíl og því sem til var í skápunum hjá mér.  Útkoman kom skemmtilega á óvart og við börnin borðuðu kvöldmatinn með bestu list.



4-5 kjúklingabringur
2 laukar (mega líka vera púrrulaukar)
2-3 hvítlauksrif marin
2-3 epli í bitum (sæt) ég notaði lífræn þau eru svo bragðgóð
eplaedik smá skvetta, held að ég hafi sett ca. 1/2 dl.  best að smakka bara til svo þetta verði ekki of súrt.
2 bollar kjúklingasoð gerlaust, eða grænmetissoð
rósmarin
salt
pipar nýmalaður
kókosolía eða ólífuolía

Ég byrja á að setja bringurnar í plastpoka og næ mér í kökukefli og flet þær aðeins út.  Krydda þær með salti og pipar.  Brúna þær svo á pönnu í olíunni í 4-5 mínútur á hvorri hlið.  Set saxaðan laukinn út á pönnuna og leyfi honum að mýkjast þar í nokkrar mínútur.  Bæti þá hvítlauknum við og svo eplabitum.  Helli smá eplaediki út á og svo kjúklingasoði (eða vatni og krafti). Krydda með rósmarin.  Svo er bara að leyfa þessu að malla í smá stund og smakka aðeins til.  Ef þetta verður of súrt þá má setja 1 skeið af hunangi eða agave út í.
Þetta er svo bara borið fram með góðu salati og kínóa eða hýðisgrjónum.

Thursday, October 6, 2011

Ævintýralegur fiskur

Þetta er uppskrift sem kemur reyndar frá mömmu.  Hún eldaði þennan fiskrétt þegar ég var á táningsaldri og mér fannst hann alveg rosalega góður.  Ég hef svo sjálf eldað hann nú í seinni tíð í mínum búskap og hann stendur alltaf fyrir sínu, enda einfaldur, fljótlegur og hollur.

2 ýsu eða þorskflök
1-2 bananar í sneiðum
1-2 epli í bitum
1 stór laukur nokkuð smátt skorinn
salt
pipar
1/2 tsk karrý
1/2 tsk túrmerik
set stundum nokkra sveppi ef ég á þá til.

Fiskbitum er raðað í eldfast mót.  Saltað og piprað.  Skellt í ofninn í smá stund. Á meðan er laukurinn brúnaður aðeins á pönnu ásamt karrý og turmerik.  Ávextirnir settir svo aðeins með á pönnuna.  Ávextir og laukur sett yfir fiskinn. Svo er öllu heila klabbinu skellt í ofninn í ca. 10 mín. til viðbótar.  Það er líka mjög gott að strá pínu osti yfir í restina.
Þetta er svo borið fram með hýðishrísgrjónum og góðu salati.

Wednesday, October 5, 2011

Orkuboltabitar með döðlum og sesamfræjum

Stundum er erfitt að vera í svona átaki og leyfa sér ekki nein sætindi nema á tyllidögum.  Þá er nauðsynlegt að hafa nóg af hugmyndum af sætri hollustu sem að hjálpar manni yfir erfiðasta hjallann.  Orkuboltabitarnir sem koma hér á eftir hafa einmitt bjargað mér í sykurþörfinni.  Þeir eru líka fullir af góðri næringu svo að það þarf ekkert samviskubit að hafa. Ég geymi þá í frystinum en get laumað mér í smá bita þegar mig langar virkilega í eitthvað gott.  Sonurinn hefur komist upp á lagið með þetta líka, hann tekur líka stundum smá bita með sér á æfingu.  Uppskriftin er mjög einföld og góð.



100 g valhnetur
100 g sesamfræ
180 g döðlur (lagðar í bleyti í smá stund)
240 g rúsínur gott að setja líka goji ber eða önnur þurrkuð ber
2-4 msk ferskur appelsínusafi

  1. Setjið valhnetur og sesamfræ í matvinnsluvél. Malið í nokkrar sekúndur eða þangað til hneturnar eru smátt saxaðar (en ekki maukaðar). Setjið í stóra skál.
  2. Ef döðlurnar voru í bleyti, hellið þá af þeim og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt rúsínum. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru smátt saxaðar án þess að vera maukaðar. Bætið svolitlu af appelsínusafa við ef illa gengur að blanda (athugið samt að blandan má ekki vera of blaut). Setjið út í stóru skálina.
  3. Setjið bökunarpappír eða plastfilmu ofan í 20 sm ferkantað form.
  4. Þrýstið blöndunni mjög fast ofan í botninn.
  5. Frystið í 30 mínútur.
  6. Takið úr frystinum og skerið í 12-16 bita.
  7. Geymið í frysti eða kæli.

Súkkulaði hrákaka í hollari kantinum

Dóttir mín átti afmæli um daginn og hún vildi ekki bara hafa óhollar kökur í veislunni heldur líka hollar.  Það hófst því mikil leit að réttu uppskriftinni.  Þessa uppskrift fann ég einhvers staðar í fórum mínum.  Veit ekki alveg hvaðan hún kemur, en hún er ekki ósvipuð uppskrift sem kemur frá Sollu.  Innihaldið í kökunni eru flest öll mjög holl og góð svo að þrátt fyrir smá ageve sýróp er þetta bara mjög holl kaka.  Þetta er líka hrákaka, sem þýðir að hún er óbökuð og því varðveitast betur ensím og næringarefni í henni. 

Botn:
100 gr kókosmjöl
100 gr möndlur
30 gr lífr. kakó
250 gr döðlur
nokkur himalaja saltkorn
Allt sett í matvinnsluvél þar til klístrast vel saman. Þjappa í form og setja í kæli.  Athugið að það er nauðsynlegt að döðlurnar hafi legið í bleyti aðeins áður, annars nær þetta ekki að klístrast nógu vel saman.  Ég bætti við örlítilli kókosolíu út í botninn hjá mér því hann var dáldið þurr.  Í staðin verður dáldið sterkt kókosbragð af kökunni.



Krem:
3 dl kasjúhnetur
1 1/2 dl Agavesíróp
3/4 dl kókosolía
3-4 msk kakóduft
1 tsk vanilluduft eða dropar
smá himalajasalt

Hnetur, agave og olía sett fyrst í matvinnsluvél og mixað. Rest bætt út í. Sett ofan á botninn og fryst.  Hef séð í öðrum uppskriftum að hneturnar eru hafðar í bleyti fyrst í kanski 1 klst.  Svo skreyti ég með jarðaberjum.  Það er svo auðvitað gott að hafa þeyttan rjóma með fyrir þá sem vilja.

Ofnbakað rótargrænmeti með hvítlauk og engifer

Æ maður verður stundum svo hugmyndasnauður þegar kemur að meðlæti með matnum.  Þennan rétt geri ég í öllum mögulegum útfærslum bara eftir því hvað er til í ísskápnum hverju sinni.  Stundum nota ég afganginn sem nesti í vinnuna daginn eftir.  Enda er þetta allt svo rosalega hollt. 

1 sæt kartafla
1 laukur eða rauðlaukur
4-5 gulrætur
1 rófa
kókosolía
engifer rifið
hvítlaukur pressaður
timian
pipar nýmalaður
maldon salt

Svo má auðvitað skella ýmsu öðru með s.s. sveppum, kartöflum og steinseljurót.  Grænmetið er allt skorið í bita og sett í eldfast mót.  Set svo smá kókosolíu yfir eða ólífuolíu.  Ríf smá engifer og set yfir og pressaðan hvítlauk.  Krydda með timian (stundum rosmarin), pipar og maldon salti stráð yfir.  Set þetta í ofninn á 190° í svona 45 mín, eða þar til allt er orðið vel mjúkt og crispy.  Þetta passar mjög vel með flestum kjötréttum og jafnvel með fisk.

Tuesday, October 4, 2011

Kanilskonsur (hollari gerðin)

Grunninn af þessari uppskrift fékk ég fyrir lifandis löngu síðan hjá ítalskri stúlku sem var að vinna í eldhúsinu í leikskólanum þar sem ég vann lengi.  Skonsurnar voru sívinsælar bæði hjá börnum og starfsfólki og hurfu ávalt eins og dögg fyrir sólu.  Ég er hins vegar búin að hollustuvæða uppskriftina þannig að hún er ennþá góð en bara hollari.

2 1/2 bolli gróft spelt (geyma smá til að hnoða upp úr)
5 tsk vínsteinslyftiduft
2 1/2 tsk kanill
1/4 tsk salt (helst sjávarsalt)
30 g smjörlíki eða smjör
1 1/4 bolli eplasafi
rúsínur ca 1/2 bolli

Setja öll þurrefnin í skál og mylja smjörið saman við með höndunum. Skella rúsínum saman við.  Væta í með eplasafanum og hnoða svo deigið vel.  Fletja deigið gróflega út á speltstráðu borðinu.  Þykktin á að vera svona tæpir 2 cm.  Skera svo út t.d. með mjóu glasi.  Þetta eiga að vera litlir hringir um 5 cm breiðir eða nálægt því.  Raða skonsunum nokkuð þétt á plötu svo að þær snertist.  Baka við 220°í u. þ. b. 15 mínútur.  Ég hef líka prófað að setja smá af muldum valhnetum út í degið og önnur fræ.  Mér fannst það mjög gott en börnin voru ekki eins hrifin.
Svo er bara að borða þetta með smjöri eða góðu áleggi.

Sæt og krúttleg kartöflumús

Það er góð tilbreyting að hafa sætar kartöflur sem meðlæti í stað hefðbundinna.  Þær sætu eru líka talsvert næringarríkari.  Þær eru taldar vera krabbameinshamlandi ásamt því að efni í sætu kartöflunum hjálpa til við að stjórna blóðsykrinum og því hægt að mæla með þeim fyrir fólk með sykursýki 2.
Sæta kartöflumúsin hefur verið mjög vinsæl á heimilinu hjá mér og meira að segja hinir mestu grænmetisgikkir hafa verið mjög ánægðir.  (Allir sem til þekkja vita að hér er auðvitað verið að ræða um eiginmann minn og litla bróður).
Músin er frábært meðlæti með hinum ýmsu réttum.  Ég nota hana mikið með kjúklingaréttum ásamt hýðishrísgrjónum.

2 (nokkuð stórar) sætar kartöflur
1/2 bolli kókosmjólk (light)
fínt saxað eða rifið engifer ca. 1 msk
1/2 tsk sjávarsalt

Þær sætu eru settar alveg heilar inn í ofn á ca. 190° þar til þær eru mjúkar í gegn.  Getur alveg tekið upp undir 50 mínútur.  Þegar þær eru orðnar mjúkar, þá er ágætt að leyfa þeim að kólna aðeins.  Skera þær svo í tvennt og skafa innan úr þeim allt maukið.  Setja í pott ásamt kókosmjólkinni, engiferinu og saltinu. Stappa þetta aðeins með stapparanum og hræra vel saman.  Hita þetta vel og svo bara njóta.

Hollt og gott hrökkkex

Eitt af því sem mér fannst erfiðast við að taka mataræðið svona í gegn hjá mér var að ég hætti að borða brauð og kex og fleira sem að veitti manni ákveðna fyllingu í magann.  Þess vegna var ég voða glöð að muna eftir þessari uppskrift sem að kom frá mömmu.  Það var ekkert í þessari uppskrift sem var á bannlistanum hjá mér og hún inniheldur fullt af hollum og góðum fræjum.  Það er líka ástæðulaust að kaupa svona kex dýrum dómum út í búð þegar það er miklu betra og ódýrara að búa það til sjálfur.  Hrökkkexið er gott eitt og sér en bragðast líka vel með t.d. sykurlausum sultum.  Ég skelli hérna inn líka fljótlega uppskrift af sykurlausri bláberjasultu.

1 dl hörfræ
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
1 dl ólífuolía
2 dl vatn
2 tsk vínsteinslyftiduft (eða 1 tsk venjulegt lyftiduft)
1 tsk maldonsalt

Öllum hráefnum er hnoðað saman. Ég bæti vatninu út í smá saman því deigið verður dáldið blautt.  Deigið er þá flatt út á milli tveggja arka af smjörpappír.  Smekksatriðið hvað þú vilt hafa þetta þykkt.  Ég hef það frekar þunnt.  Bakað í ofni við 200° í 12-15 mínútur (fer eftir þykkt).  Það er líka hægt að setja rifinn ost ofan á áður en þetta fer í ofninn.  Geymist best í opnu boxi.

Æðisleg haust gulrótarsúpa

Þegar kólnar svona hratt í veðri er veit ég fátt betra en að fá heita gómsæta súpu í matinn.  Ég fékk grunnuppskriftina af þessari súpu á einhverri góðri heilsuvefsíðu.  En ég er aðeins búin að breyta og bæta uppskriftina (vonandi).  Gulrætur eru eins og allir vita rosalega hollar og góðar fyrir líkamann.  Þær eru líka taldar til þeirra fæðutegunda sem mögulega vinna gegn krabbameini.  Það sama má segja um engifer en það er jafnframt bólguhamlandi og fullt af andoxunarefnum.  Þessi súpa er því full af fyrsta flokks hollustu sem er bara góð fyrir kroppinn.

2 meðalstórir laukar, saxaðir
ca 6 meðalstórar gulrætur, smátt skornar
2 cm engiferrót rifin niður
2 hvítlauksrif pressuð
4-5 bollar grænmetissoð (gerlaust helst)
safi úr 2 appelsínum.
salt
pipar
kókosmjólk ef vill
kókosolía eða önnur olía

Byrja á að brúna laukinn aðeins í olíunni, bæta svo gulrótum og engifer út í og mýkja aðeins.  Bæta grænmetissoði við, ásamt appelsínusafa. ( ég byrja á að setja aðeins minna af vökva og bæti þá frekar við seinna ef þess þarf).  Krydda með salti og pipar eftir smekk.  Leyfa þessu að sjóða við vægan hita í ca. 15-20 mínútur.  Þá þarf að sigta mesta vökvann frá og geyma aðeins.  Gulrótarhratinu ásamt smá vökva er skellt í matvinnsluvélina og maukað vel.  Sett aftur í pottinn ásamt vökvanum og hitað.  Ég hef bætt smá kókosmjólk út í svona í restina til að fá betri áferð á súpuna, en það er ekki nauðsynlegt. (Ég frysti stundum afganga af kókosmjólk í klakaboxi, fínt að setja 2-3 klaka út í ef þeir eru til).  Hef líka sett smá rifinn appelsínubörk yfir súpuna áður en ég ber hana fram.

Saturday, October 1, 2011

Eggjamúffur

Gerði svona sniðugar eggjamúffur um daginn.  Vorum á leiðinni á badmintonmót með soninn og mín vildi auðvitað hafa eitthvað hollt og gott með svo að strákurinn hefði næga orku í langan keppnisdag.  (Og auðvitað til að halda sjálfri mér frá bakaríinu).  Þetta er ótrúlega einfalt og fullt af góðri orku og próteini. Í raun er þetta bara gamla góða eggjakakan með smá tilbrigðum og sett í muffinsmót í stað þess að steikja á pönnu.  Bara hollusta út í gegn.



6 egg (auðvitað frá lausagönguhænum)
1 dl rísmjólk eða önnur mjólk
smá múkat
salt
pipar
2-4 gulrætur smátt saxaðar
góð lúka af spínati rifið gróflega niður.
1/2 paprika
má auðvitað nota hvaða grænmeti sem er t.d. sveppi og lauk.

Eggin hrærð vel saman í skál.  Bæti mjólk út í og blanda vel við.  Krydda og bæta grænmeti út í.  Ég setti pappírsmuffinsmót ofan í álmuffinsmót og setti svo blönduna ofan í mótin.  (Klesstist reyndar dáldið við pappamótin, ætla prófa næst að smyrja mótin vel eða spreyja).  Svo er múffunum bara skellt í ofninn og bakað á 190 °C í svona 15-20 mínútur.

Austurlensk sjúklingasúpa

Þessa súpu elda ég alltaf þegar einhver á heimilinu er með kvef eða eitthvað þess háttar.  Súpan er rosalega hressandi og hreinsandi.  Geri stundum stærri uppskrift í einu til að eiga nóg til að hita upp næsta dag líka.

4 kjúklingabringur
3 cm púrrulaukur skorinn 
1 rauð paprika skorin í bita
3 hvítlauksrif marinn
1/2 chili rautt skorið
1 cm engifer rifið
3 msk tómatmauk (ég nota lífrænt í glerkrukku)
2 dósir kókosmjólk (ég nota light kókosmjólk)
salt
pipar nýmalaður
2 msk kókosolía

Bringurnar eru skornar í bita og brúnaðar í olíunni í potti í smá stund.  Púrrulauknum bætt við og mýktur aðeins.  Bæta mörðum hvítlauk út í ásamt papriku, chili og engifer. Leyfa þessu að mýkjast aðeins.  Setja tómatmaukið út í og svo kókosmjólkina.  Salt og pipar eftir smekk.  Leyfa súpunni að malla í 15 mínútur við vægan hita.