Tuesday, September 4, 2012

Hafrakex

Ég hef alltaf verið hrifin af hafrakexi.  Mér þykir það afskaplega gott með góðum osti, sultu eða jafnvel með ávöxtum.  Það fer líka vel með hvort sem er kaffi eða tei.  Hafrakexin sem maður kaupir úti í búð eru hins vegar með hvítt hveiti og sykur sem aðaluppistöðu, svo koma hafrarnir.

Ég hef verið að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem bragðið nýtur sín, en hollustugæðin eru líka í fyrirrúmi.  Hér birti ég eina af útgáfum mínum.  Aldrei að vita nema ég komi með fleiri útgáfur af hafrakexum hér síðar.  Þessi uppskrift er venjulega um 14-15 kökur, þannig að oft tvöfalda ég uppskriftina til að eiga nóg til því þær klárast nokkuð fljótt þessar.


 

2 bollar tröllahafrar
1/2 bolli gróft spelt
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk fínt sjávarsalt
1 stórt egg, við stofuhita helst
3 msk brætt smjör
2 msk hunang eða agave

Hafrarnir eru fínmalaðir í matvinnsluvél.  Síðan er öllum þurrefnum blandað saman í skál.
Blanda eggi, bræddu smjöri og hunangi saman við þurrefnin og blanda vel saman með sleif.  Þegar degið er farið að loða vel saman er það hnoðað á borði.

Athugið að bollamál hjá fólki geta verið mismunandi. Deigið á það til að verða full þurrt hjá mér, þá bæti ég örlitlu smjöri út í til viðbótar, jafnvel smá vatni.  Annars er mikilvægt að nota stórt egg, eða þá jafnvel tvö lítil.

Þegar deigið er komið vel saman er það flatt út þar til það er um 1/2 cm á þykkt.  Mér finnst best að fletja út með plast undir og yfir, það klessist mun minna og þá þarf ekki þetta auka hveiti sem gerir kexið bara þurrara.



Svo er að skera kökurnar út með góðu kökumóti.  Hnoða upp afskorningana og fletja út aftur.  Raða kökunum á pappírsklædda plötu og baka við 160° í 15-20 mín.  Leyfa kökunum að kólna og geyma þær svo í vel loftþéttu boxi, nú eða bara að borða þær strax.

No comments:

Post a Comment