Monday, February 11, 2013

Litlar valentínusar hrákökur

Valentínusardagurinn nálgast og því fannst mér upplagt að gera eina af hrákökunum mínum í valentínusarbúningi.

Þetta eru afskaplega hollar og góðar litlar kökur og frekar einfalt að útbúa þær.  Botnarnir eru unnir úr hnetum og döðlum, kremið er svo kasjúrjómi. (Uppskrift af kasjúhneturjóma má finna hér). Sem skraut nota ég að sjálfsögðu jarðaber sem mér finnst vera einkenni fyrir valentínusardaginn.  Jarðaber eru mjög holl enda full af C- vítamíni.  Þau hafa góð áhrif á blóðþrýsting og kólesteról og hafa einnig verið orðuð við það að reynast vel gegn krabbameinum.


Botnar:

1/2 bolli möndlur
1/2 bolli kasjúhnetur
1/2 bolli döðlur
1/2 bolli kókosflögur
1 tsk vanilluduft
nokkur korn gróft salt

Möndlur og hnetur settar í matvinnsluvélina og unnið vel.  Bæta öðrum hráefnum út í og vinna vel þar til allt loðir vel saman.  Sett í botninn á muffinsformum ca. hálft form.  (ég nota pappírsform en hef þau ofan í álformum til á ná betri lögun).  Kæla á meðan kasjúrjóminn er útbúinn.  Uppskriftina af kasjúrjómanum má finna hér.  Í þessar kökur setti ég safa úr 1/2 appelsínu út í rjómann í stað þess vökvamagns sem gefið er upp í uppskriftinni til að fá betra og ferskara bragð af rjómanum.  Ég ætlaði að setja örlítið af jarðaberjum út í kremið líka til að fá bleikan lit á kremið en gleymdi því svo.


Kremið er sett á kökurnar og þá er að leyfa því að kólna í dálitla stund.  Skreyta svo með jarðaberjum og örlitlu af dökku súkkulaði.  Geyma í kæli eða jafnvel í frysti.


Sunday, February 10, 2013

Kasjúhneturjómi

Kasjúhneturjóma nota ég með kökum, pönnukökum, bollum og já öllu mögulegu.  Hann er hægt að bragðbæta á ýmsa vegu t.d. með því að setja niðurskorin jarðaber út í, nota appelsínusafa eða jafnvel kakó.  Það er nokkuð einfalt að útbúa kasjúhneturjóma, en það er nauðsynlegt að vera með góðan blandara eða matvinnsluvél.  Hér kemur mín útgáfa af kasjúhneturjóma.

1 bolli kasjúhnetur (betra að leggja þær í bleyti í 2-3 tíma)
2 tsk agave eða gott hunang. Má líka nota 4-5 döðlur sem hafa legið í bleyti í smá stund.
1/2 tsk vanilluduft
2-3 msk vatn eða safi úr sítrónu eða appelsínu.

Vatnið látið leka af hnetunum og þær settar í matvinnsluvél og maukaðar vel.  Þetta getur alveg tekið 3-4 mínútur.  Stoppa aðeins inn á milli og skafa vel niður.  Bæta agave út í (eða döðlum) og mauka enn betur.  Bæta vanilludufti út í ásamt örlitlum vökva - ekki setja of mikinn vökva í einu heldur smá saman bæta við eftir þörfum.  Leyfa þessu að maukast aðeins betur og muna að skafa vel niður inn á milli.  Kasjúhneturjóminn verður með dáldið grófri áferð en mér finnst takast betur til þegar ég set hann í blandarann í smá stund í lokin.

Bragðbætið rjómann að vild.

Eins og áður segir er kasjúhneturjóminn góður með ýmsum kökum, á vöfflur eða pönnukökur eða á bollurnar.