Thursday, January 24, 2013

Súper djús

Djúsar úr ferskum ávöxtum og grænmeti geta verið rosalega góðir.  Sjálf er ég meira fyrir að gera smoothie í blandara þar sem að þar eru aldinkjötið úr ávöxtunum er með.  En stundum breyti ég til og skelli öllu í djúsvélina.  Eins er fínt að nota djúsarann til þess að pressa grænmetissafa og setja með í smoothíinn (úff hvernig skrifar maður þetta eiginlega).  

Djús uppskriftin sem hér kemur á eftir er algjör orkubomba og full af andoxunarefnum, C- og A-vítamínum og er því upplagt að byrja daginn á slíkri bombu.  Ekki veitir af á meðan inflúensan er á sveimi yfir öllu. 

Ferskur engifer er eitt af þeim hráefnum sem mér finnst gott að nota í matargerð og ég reyni að troða engifer með í sem flesta drykki.  Ég hugsa að ég hætti seint að dásama þetta undraefni.  Engiferrótin er full af andoxunarefnum og á meðal annars að vera vatnslosandi, bólgueyðandi og vera góð við kvefi, hósta, astma og þess háttar.  Hún á meira að segja að hafa jákvæð áhrif gegn depurð og streitu.  Það má því með sanni segja að hún bæti, hressi og kæti.



1 appelsína
1/2 sítróna
1 epli 
1 gulrót
ca 1 cm bútur af engiferrót (afhýða)
ísmolar
cayenne pipar stráð yfir ef vill (bara örlítið).

Fyrir kraftmiklar safapressur
Það er mismunandi hvernig safapressur fólk er með og hvort þær ráði vel við appelsínur og sítrónur með berki eða ekki.  Ef svo er þá er bara allt hráefnið skolað vel og skorið gróflega niður og sett í safapressuna.  Ísmolum bætt í og piparnum stráð yfir.  

Fyrir kraftminni safapressur
Þeir sem eru með vélar sem vinna illa á þessu, geta hvort sem þeir vilja afhýtt ávextina eða pressað þá í "gamaldags handpressu" áður.  Ég nota yfirleitt þá aðferð að pressa safann úr sítrónum og appelsínum með gömlu góðu aðferðinni.  Set svo safann í safapressuna (djúsvélina) með hinum hráefnunum.  Set bara það aldinkjöt sem festist í "gömlu" pressunni með í.  Epli og gulrætur er skorin gróflega niður og pressað svo með engiferrótinni.  Ísmolar settir í og cayenne pipar stráð yfir.

Fyrir þá sem ekki eiga safapressur eða djúsvél.
Það er svo sem alveg hægt að skella þessu bara öllu í matvinnsluvélina og leyfa því að maukast vel þar. Það getur verið að það þurfi þá að bæta örlitlum vökva við svo að vélin vinni á þessu.  Þá er bara að handpressa appelsínuna og sítrónuna, afhýða eplið og hreinsa bæði það og gulrótina. Skella þessu í matvinnsluvélina ásamt engifernum.  Hægt að hella þessu í gegnum sigti í lokin, bæta svo við ísmolum og strá piparnum yfir.

Fyrir þá sem ekki eiga matvinnsluvél
Þá vandast málið en hægt er að redda sér með því að pressa sítrusávextina í "gamaldag handpressu".  Nota aðkeyptan epladjús í drykkinn (1/2 - 1 dl).  Rífa gulrótina og engiferið á rifjárni.  Setja allt saman í gott ílát með góðu loki og hrista vel saman og leyfa þessu að standa í smá stund.  Sía hratið svo frá í góðu sigti. Klakar út í og pipar ofan á og allt er klárt.

No comments:

Post a Comment