Saturday, April 21, 2012

Sumarleg og hrá bananakaka

Á fallegum vordögum er yndislegt að sitja úti með kaffibolla og góða köku.  Ekki er verra ef kakan er þess eðlis að maður getur hámað hana í sig með nokkuð góðri samvisku.  Í dag ákvað ég að gera bananaköku þar sem að ávaxtaskálinn var orðin vel full af bönunum sem aðeins farnir að láta á sjá.  Bananar eru fullir af næringu, sérstaklega kalíum.  Eins eru þeir einstaklega trefjaríkir.  Sætt bragð þeirra getur að miklu leyti komið í stað sykurs.



Botn:
1 bolli möndlur
1 bolli döðlur
1 bolli rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir

Láta döðlur og rúsínur standa í volgu vatni í stutta stund.  Láta mesta vökvann renna af og setja í matvinnsluvél ásamt möndlum og vinna vel þar.  Þrýsta blöndunni vel ofan í mót.

2 bananar 

Skornir í bita og raðað ofan á botninn.  

Krem:
2 bananar
1/4 -1/2 bolli vatn
1 bolli kókosmjöl
6-8 döðlur sem legið hafa í bleyti
1 tsk vanilluduft
1-2 tsk hunang ef þarf

Blanda öllu vel saman í matvinnsluvél.  Ég bæti aðeins vatni í ef ég vil hafa blönduna þynnri.  Betra að byrja með ekki of mikið vatn.  Ef bananarnir eru vel þroskaðir finnst mér alveg óþarfi að setja hunang í kremið.  En það er auðvitað bara smekksatriði hversu sætt þið viljið hafa þetta.  
Blandan er svo sett yfir botninn.  

Þá er bara að skreyta með ávöxtum og því sem manni dettur til hugar og til er í skápunum hverju sinni. Ég notaði jarðaber, vínber, smá súkkulaði og kókos.
Berið svo fram með rjóma ef þið viljið.  

Gómsæt aspassúpa

Ég held í alvöru að ég hafi varla kunnað að gera súpur hérna áður fyrr nema að baka þær upp úr hveiti og bæta svo að minnsta kosti hálfum lítra af rjóma í ásamt tilheyrandi óhollustu.  Nú er ég hins vegar farin að prófa mig áfram í nýjum aðferðum í súpugerð þar sem að rjómanum og hveitinu er helst sleppt.  Þessa uppskrift er ég búin að vera að fikra mig áfram með og held að ég sé að verða nokkuð sátt við útkomuna. Aspasinn er reyndar úr dós og er þá mikilvægt að velja aspas sem er án rotvarnarefna og annars óþverra.   Ég nota kókosmjólk til þess að fá þessa rjómakenndu áferð á súpuna.  Svo er bara að muna eftir því að fylla ekki blandarann um of af heitri súpu, því hún þarf sitt pláss í blandaranum þegar hann fer að vinna.  Hluti af eldhúsinu mínu varð grænt eftir þessa matargerð.  Það er víst ástæðan fyrir því að ég steingleymdi að taka mynd af súpunni.  Ég verð því að útbúa súpuna fljótlega aftur svo að hægt sé að skella inn mynd af grænu súpunni fínu.  Þessi uppskrift ætti að vera fyrir u.þ.b. fjóra.

3 msk smjör
1 laukur smátt saxaður
1/2 tsk salt
1/2 tsk karrý
1/4 tsk engifer (ég notaði ferskan, en má nota duft líka)
safi úr 1/2 sítrónu
börkur af 1/2 sítrónu (bara guli hlutinn, ekki nota þetta hvíta)
3 bollar vatn
3 msk grænmetiskraftur (smakka svo bara til og bæta í ef þarf)
1 bolli kókosmjólk (lite)
2 litlar dósir aspas, geymi vökvann og bæti aðeins í síðar ef þarf.
pipar grófur nýmalaður
sýrður rjómi til skreytingar

Byrja á að saxa lauk og mýkja hann í smá stund í smjörinu.  Bæta við kryddi og engifer. Bæta svo út í sítrónusafa og berki.  Leyfa þessu að malla í 2-3 mínútur.  Bæta vatni út í og krafti.  Ná upp suðu og sjóða í 5 mínútur.  Setja kókosmjólk út í og hita að suðu.  Bæta loks aspas saman við og hræra varlega í.  Kæla stutta stund og setja svo í blandara eða matvinnsluvél og mauka súpuna.  Muna að setja lokið á og ekki setja of mikið magn í einu í tækið.  Hita súpuna aftur, bæta smá safa af aspas saman við ef hún er of þykk.      Krydda með smá nýmöluðum pipar.  Setja smá sýrðan rjóma út á áður en hún er borin fram.  Berist fram með góðu brauði.

Sunday, April 15, 2012

Appelsínumuffins með súkkulaðibitum

Það er einfalt og fljótlegt að útbúa góðar muffins. Þar sem muffins geymast líka vel í frysti, er gott að grípa í þær þegar gesti ber að garði.  Í þessari uppskrift eru notaðar maukaðar döðlur ásamt smá hunangi í staðin fyrir sykur. Ég læt líka dökka súkkulaðibita í uppskriftina, en þeim má líka sleppa eða nota alveg sykurlaust súkkulaði í staðin.



2 bollar gróft spelt
4 msk kakó, dökkt og lífrænt
3 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsalt
1 tsk vanilluduft

2 egg
6 msk hunang
8 msk olía (kókos eða ólífu)

1 bolli döðlur (gróft saxaðar)
1/2 bolli jógúrt eða ab mjólk.

2-3 msk appelsínubörkur rifinn (um 1/4 af appelsínu)
50 g möndlur eða hnetur saxaðar (má sleppa)
100 g 70% dökkt súkkulaði gróft saxað

Blanda saman öllum þurrefnum í skál.

Í annari skál blanda vel saman eggjum, hunangi og olíu.

Í matvinnsluvel þarf að vinna vel saman döðlur og ab mjólk, þannig að það verði gott mauk.  Mér finnst best að láta döðlurnar liggja í bleyti í volgu vatni í smá stund áður. Þær vinnast alltaf betur þannig.  Maukinu er svo blandað saman við hinn vökvann.

Blanda vökvanum þá saman við þurrefnin og bæta í berki, hnetum og súkkulaði. Hræra vel í með sleif.  Ef degið er of þykkt, þá getur verið gott að bæta 1-2 msk af appelsínusafa út í, eða auka við jógúrt eða ab.

Setja deigið í muffinsform og baka við 180° í 15 -20 mínútur.  Þetta ættu að verða 15-20 muffins.

Saturday, April 14, 2012

Hnetusmjörsbitar

Stundum er bara svo gott að eiga eitthvað gott í til að narta í sem er hæfilega sætt en samt ekki of óhollt.  Þessir bitar eru hráir og fullir af hollustu.  Bitarnir geymast í 1-2 vikur í kæli.

2 1/2 bolli tröllahafrar
1/2 bolli sólblómafræ (gott að rista þau á pönnu fyrst)
1/2 bolli rúsínur og gojiber (gott að leggja í bleyti í volgt vatn í nokkrar mínútur)
1/2 bolli caco nibs (má sleppa)
2/3 bolli hnetusmjör (hreint t.d. frá Himneskt)
1/2 bolli agave

Blanda saman höfrum, fræjum, rúsínum, berjum og cacao nibs í skál.  Hræra saman hnetusmjöri og agave. Blanda svo saman við þurrefnin.  Þrýsta blöndunni vel ofan í mót og kæla í 1-2 klst.  Skera í hæfilega bita og pakka þeim vel inn.

Bakað haframjöl með banana og ávöxtum

Mín litla dama er ekkert allt of hrifin af hafragraut.  Hér má hins vegar segja að gamli góði hafragrauturinn sé kominn í annan búning, sem að mín kunni betur að meta og aðrir á heimilinu voru alsælir með þessa tilbreytingu.  Það er hægt að leika sér með hráefnið í þessari uppskrift.  Ég notaði bláber, en litlu skvísu fannst þau dáldið súr, þannig að ég hugsa að ég noti jafnvel bara epli næst.



2 bananar (mega vera vel þroskaðir)
1 1/2 bolli bláber frosin eða fersk
1/4 bolli agave sýróp eða hunang
1 bolli haframjöl
1/4 bolli valhnetur gróft saxaðar
1 tsk vínsteinslyftiduft
1tsk kanill
smá salt
1 bolli mjólk eða soyjamjólk
1 egg
1 tsk vanilluduft

Skera bananana í sneiðar og dreifa þeim á botninn á eldföstu móti.  Setja hluta af bláberjunum yfir.  Strá helmingnum af kanilnum  og smá af agave sýrópi.  Skella þessu inn í ofn á 180 ° í nokkrar mínútur.  Á meðan er allt þurrefnið sem er eftir sett saman í skál og blandað vel.  Í aðra skál fer allur vökvi og blandast vel saman, þ.e. sýróp, mjólk og egg.
Nú er formið tekið út úr ofninum og þurrefninu hellt yfir bananana þar.  Vökvanum er svo hellt jafnt og rólega yfir allt saman.  Strá svo restinni af bláberjunum yfir.
Baka í 20 mínútur við 180°.

Tuesday, April 3, 2012

Hollur og góður Chia grautur

Chia fræ eru algjör ofurfæða.  Þau eru rík af omega-3 fitusýrum, ásamt því að vera mjög próteinrík.  Það er í raun allt of mikið að telja upp hér allt sem þau eiga að gera fyrir okkur, þannig að ég bendi á þessa frétt frá Heilsuhúsinu um Chia-fræin.  Fræin er hægt að nota í alla mögulega matreiðslu.  Sjálf er ég nýfarin að fikra mig áfram í notkun þeirra.  Set stundum 1 skeið út í þeytinginn minn á morgnana eða í hafragrautinn.  Nú er ég hins vegar farin að gera graut úr fræjunum, sem að mér finnst alveg rosalega góður.  Hann er líka svo einfaldur.



1/2 bolli kalt vatn
4 msk chia fræ
 
Ég blanda þessu bara saman í skál á morgnana og leyfi þessu að standa rétt á meðan ég skelli mér í sturtu. Þetta þarf að fá að standa í ca. 10 mínútur, þá þykknar þetta og verður gelkennt (minnir dáldið á sagógrjón).

1/2 epli skorið í litla bita
2-3 msk rúsínur
2 msk muldar valhnetur
smá kanill
1/2 tsk hunang eða agave.

Bæti þessu öllu út í og blanda saman.

Þetta er virkilega hollur, frískandi og saðsamur morgunverður.