Wednesday, August 7, 2013

Hvítlauks bakað zucchini

Ég kaupi stundum zucchini og hugsa með mér að það sé fínt að eiga þetta ef ég er að grilla grænmeti eða steikja á pönnu.  En ég er bara hrikalega gjörn á að gleyma þessu blessaða zucchini í ísskápnum.  Stundum þarf ég hreinlega að henda því, eða þá að ég geri eins og svo oft, set það í eldfast mót með sætum kartöflum og baka í ofni.  Ég veit að það er svo margt hægt að gera úr þessum græna þannig að það er algjör synd að ég skuli alltaf bara gleyma honum og enda svo með því nota hann alltaf á sama hátt.

Um daginn skellti ég mér í búðina og keypti zucchini eins og svo oft áður.  Að þessu sinni var ég staðráðin í því að malla eitthvað sniðugt úr því strax og ég kæmi heim, áður en það myndi gleymast.  Ég ákvað að prófa að elda það á svipaðan hátt og ég hef stundum gert með sætar kartöflur.  Útkoman var mjög fín. Zucchini er svo hlutlaust þannig að það tekur einfaldlega í sig bragð af kryddum og því sem maður notar með.  Hér fær því hvítlauksbragðið að njóta sín vel.

Ég er hreinlega ekki viss hvort zucchini flokkist sem grænmeti eða ávöxtur, það virðist vera eitthvað misjafnt. En hvað sem því líður þá inniheldur það mikið af trefjum og margar gerðir stein- og snefilefna sem eru mikilvæg fyrir okkur.  Það er ríkt af bæði C- og A- vítamínum.  Það inniheldur nánast engar kaloríur, svona fyrir þá sem eru að telja.  Zucchini er talið hjálpa til við að halda blóðþrýstingnum í skefjum þar sem það inniheldur potassium. Potassium þarf að vera í réttu hlutfalli við sodium.  En sodium er talið hafa einmitt neikvæð áhrif á blóðþrýsting.  Skyndibitamatur og mikið unninn matur inniheldur að öllu jöfnu hátt hlutfall af sodium.  Þannig að neysla á zucchini og potassium hjálpar til við að ná réttu jafnvægi þarna.


2 zucchini skorin í bita
3-4 hvítlauksrif
1-2 msk kókosolía (eða græn jómfrúarolía) 
salt og pipar
örlítið rósmarin

Skera zucchini í bita og setja í skál.  Merja hvítlaukinn og setja út á. Krydda eftir smekk og setja að lokum olíuna út á.  Þarna er mikilvægt að kókosolían sé í fljótandi formi. Hún harðnar um leið farið er að blanda henni saman við.  Ég var því með skálina yfir heitu vatni á meðan ég blandaði öllu vel saman. 
Setja bökunarpappír á bökunarplötu.  Dreifa vel úr blöndunni á pappírinn.  Baka í ofni í ca. 20 mín við 180° C eða þar til zucchini fær á sig gylltan blæ. 

Þetta er frábært meðlæti með nánast hverju sem er.  Ég hafði þetta hreinlega sem aðalrétt með góðu salati.  


No comments:

Post a Comment