Thursday, August 23, 2012

Hollari vöfflur

Vöfflur eru alltaf góðar.  Það er líka svo auðvelt að hollustuvæða hina hefðbundnu vöffluuppskrift.  Ég hef nokkrum sinnum fengið mér vöfflur í morgunmat.  Hollar og góðar heimagerðar vöfflur eru til dæmis mun betri kostur heldur en mörg af brauðunum sem við kaupum út í búð í góðri trú.  Það er líka svo margt hægt að setja ofan á vöfflurnar, þær þurfa ekki alltaf að vera með sultu og rjóma.  Best finnst mér að nota ferska ávexti í bitum og rífa síðan örlitið dökkt súkkulaði yfir.  Ef ég nota sultu kaupi ég sykurlausar sultur t.d. frá St. Dalfour eða að ég nota heimatilbúnar sykurminni sultur.  Svo er rjóminn auðvitað alltaf góður með vöfflunum, en hann er ekki nauðsynlegur.  Ég mæli með því að prófa að nota kókosrjóma, en hann er hægt að gera með því að geyma kókosmjólk í kæli, þá skilur hún sig að þannig að rjóminn stífnar en safanum er hellt frá.  Svo er bara að hræra vel í rjómanum til að hann verði aðeins loftkenndari.  (Það þýðir ekki að nota light kókosmjólk í þetta).  Vöffluuppskriftin sem hér fylgir er sú grunnuppskrift sem ég nota oftast, en stundum geri ég smá breytingar á henni.  T.d. skipti út hluta af speltinu fyrir malað haframjöl, eða annað mjöl.  Set jafnvel fræ út í degið.  Sólblómafræ eru til dæmis mjög góð með.  Nota mismunandi mjólkurtegundir fer bara eftir því hvað er til.  Eins er gott að skipta út hluta af smjörinu fyrir kókosolíu.  Ég hef líka prófað að setja einn vel þroskaðan banana út í, en á móti sleppt þá agave sýrópinu.  Það er bara um að gera að prófa sig áfram.  Þessi uppskrift dugar vel fyrir okkur fjölskylduna en við erum fjögur.  Svo er bara að margfalda þegar það koma gestir ;)

2 egg
1 msk agave
250 g spelt (helst gróft)
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk vanilluduft (má líka setja smá kardimommur með)
ca. 4 dl léttmjólk (má nota soyamjólk líka og jafnvel fleiri gerðir)
80 g smjör (ekki verra að nota kókosolíu að hluta)

Hræra saman eggin og sýrópið.  Bæta þurrefnum út í og síðan mjólkinni, og hrært rólega þar til degið er orðið mátulega þykkt.  Að lokum er smjörið brætt og því bætt við degið.  Svo er bara að skella þessu á vöfflujárnið.

No comments:

Post a Comment