Saturday, August 11, 2012

Rifsberjahlaup - minni sykur

Þó ágúst sé ekki langt komin eru rifsberin í garðinum hjá mér hér í Noregi orðin vel þroskuð og rauð.  Eiginlega er það þannig að þau liggja fyrir skemmdum.  Við krakkarnir drifum okkur því út að tína.  Ég geri nú oft rifsberjahlaup á haustin, en alltaf með vænum skammti af sykri.  Nú ákvað ég að fara í smá tilraunastarfsemi og reyna að útbúa hlaupið með minni sykri og jafnvel án þess að nota hvítan unninn sykur.  Úr varð að ég prófaði að nota Xylo Sweet (xylitol) sem er náttúrulegur sykur og hefur ekki eins mikil áhrif á blóðsykur og venjulegur sykur.  (mætti jafnvel líka nota pálmasykur). Ásamt því notaði ég nokkrar döðlur og epli til að fá sætara og betra bragð.  Þar sem berin hjá mér voru orðin svo rosalega rauð og engin græn ber að finna á runnanum, varð ég að sjóða hlaupið upp aftur og bæta örlitlum hleypi í, en heima á Íslandi hef ég aldrei þurft að nota hleypi.  Úr varð þetta fína rifsberjahlaup, þar sem rifsberjabragðið nýtur sín vel og ekki of sætt.




2 kg. rifsber (með stilkum og jafnvel laufum)
2-3 epli gróflega skorin
800 g xylo sweet (fæst í hagkaup og í heilsubúðum)
100-200 g döðlur

Rifsberin sett í pott ásamt xylo sweet, döðlum og eplum.  Hræra vel í og leyfa þessu að malla í nokkrar mínútur eða þar til allt er orðið vel maukað.  Þá er að sía vökvann frá hratinu.  Best er að nota taubleyju, eða gott viskastykki og binda yfir pott. Leyfa þessu að standa í nokkra tíma.  Hratið geymi ég svo og síð upp aftur og bý til saft.

Þegar vökvinn hefur síast frá, síð ég hann upp aftur, bæti í smá sætu ef þörf er á og eins hleypi ef þess þarf.  Skelli þessu svo í litlar krukkur og leyfi hlaupinu að kólna þar.  Ef það hleypur ekki er hægt að sjóða upp aftur og bæta í hleypi.

Hratið set ég svo í pott og bæti við vatni þannig að fljóti aðeins yfir.  Leyfi þessu að malla í smá stund við vægan hita. Bæti í sætu ef þarf.  Sía hratið þá aftur frá og helli vökvanum í flösku eða könnu.  Þetta er hinn fínasti sumardrykkur.  Það er svo bara smekksatriði hvort hann er þynntur frekar með vatni eða ekki.  Mér finnst gott að blanda þessu út í sódavatn og bera fram með vel kalt með klaka.

No comments:

Post a Comment