Tuesday, May 28, 2013

Bara rabarbarapæ með eplum

Ég elska hreinlega að hafa rabarbara í garðinum. Það minnir mig óneitanlega á gamla góða tíma í sveitinni þar sem hlaupið var út í garð og náð í nokkra rabarbarastilka til að búa til graut eða gott pæ þegar gesti bar að garði.  Gallinn er bara þetta súra bragð sem maður hefur víst vanist á að dempa niður með sykri og þá engu smá magni.  Þessa dagana er ég að prófa mig áfram með að vinna úr rabarbaranum og draga þá úr sykurmagni eða nota náttúrulegan sykur hefur lítil sem engin áhrif á blóðsykur.  Þetta er ekki auðvelt...en þetta er allt að koma.   Mér finnst nefnilega rabarbarinn góður þrátt fyrir allt og ekki skemmir að hann er bara nokkuð hollur, t.d. ríkur af C og K vítamínum og rauði hlutinn af stilknum er ríkur af A vítamínum.  Nú og svo inniheldur þetta ódýra hráefni nánast engar kaloríur (svona fyrir þá sem eru að telja).  Hér birtist fyrsta rabarbarauppskriftin en vonandi tekst mér að setja saman fleiri á næstu dögum.




4 góðir rabarbarastilkir ca. 2-300g
3 epli
2 tsk kanill
2 msk hörfræ
1 dl möndlur saxaðar

Skera rabarbara og epli í smáa bita og setja í eldfast mót.  Strá yfir kanil, hörfræjum og söxuðum möndlum.

1 1/2 dl tröllahafrar
1 1/2 dl gróft spelt
1 dl kókossykur
125 g smjör (ekta íslenskt)

Setja þurrefni í skál og mylja smjörið yfir og hnoða gróflega saman.  Þetta má alveg vera pínu þurrt.  Deigið er svo mulið gróflega yfir rabarbarann og eplin í eldfasta mótinu. Dreifa vel yfir allt.

Handfylli kókosflögur

Dreift yfir allt.  Baka í ofni við 180° C í ca. 20 mínútur.  Bera fram með t.d. kókosrjóma, kasjúrjóma, venjulegum þeyttum rjóma, hollum ís eða eins og ég gerði með blöndu af þeyttum rjóma, jógúrt og vanillu. En þá þeyti ég rjómann og bæti svo öðru eins af hreinu jógúrti út í og hræri saman við ásamt vanilludufti.


No comments:

Post a Comment