Tuesday, October 16, 2012

Októbersúpa með graskeri og rauðu karrý

Það er svo yndislegt að fá góða súpu sem yljar manni um kroppinn í haustkuldanum.  Hér í Noregi hjá mér hefur snöggkólnað síðustu daga og nú rignir líka endalaust.  Heit og góð súpa var því kærkomin.  Október er auðvitað tími graskeranna og því upplagt að grípa með fallegt grasker í búðinni.  Grasker nýtast líka vel. Hægt er að nota aldinkjötið sjálft í súpu eins og þessa sem kemur hér á eftir og í alls konar rétti, fræin eru svo góð í salöt, bakstur eða bara ristuð á pönnu og borðuð sem snakk. Graskerin eru trefjarík og hafa jákvæð áhrif á kólesteról í líkamanum. Þau innihalda mikið magn af hinum nauðsynlegu betakarótínum, sem eru meðal annars góð fyrir sjónina, frumuskiptingar, bein og húð.
Ég kem örugglega með fleiri graskersuppskriftir á næstunni, enda er enn talsvert eftir af graskerinu.

7-800 g grasker (aldinkjötið) skorið í bita.  (ég var með grasker sem var tæp 3 kg og notaði tæplega helminginn af því sem gaf þá um 800 g af aldinkjöti).

2 msk olía, t.d. kókosolía

Byrja á að skera graskerið í bita eða teninga.  Setja þá í eldfast mót og smá olíu yfir.  Baka í ca. 30 mín við 180°C.

1 stór laukur
3 hvítlauksrif
2 msk rautt karrýmauk (farið samt varlega, getur verið missterkt eftir tegundum)
salt
pipar
1 l vatn
11/2 teningur kjúklingakrafur lífrænn
1 krukka af niðursoðnum kjúklingabaunum eða soðnar heima svipað magn.
kókosmjólk, bæta í eftir smekk, ég notaði um 2 1/2 dl.
1/2 tsk cumin duft
1/2 tsk múskat

Á meðan graskerið mýkist í ofninum er súpan sjálf löguð.  Skera lauk og hvítlauk smátt.  Mýkja í olíu í góðum potti.  Bæta við karrímaukinu, salti og pipar.  Setja vatn út í ásamt kjúklingabaunum og krafti.  Leyfa að sjóða í nokkrar mínútur.  Krydda með cumin og múskati.
Þegar graskersbitarnir eru tilbúnir í ofninum er þeim bætt út í súpuna ásamt dálítilli kókosmjólk.  Þá er að mauka súpuna með töfrasprota eða setja hana í smáskömmtum í matvinnsluvélina.
Ná svo suðunni aftur upp í pottinum, þynna með kókosmjólk ef þarf og auðvitað smakka til.

No comments:

Post a Comment