Thursday, September 20, 2012

Hafrabitar

Ótrúlega einfaldir og góðir bitar sem er gott að grípa í þegar manni langar í eitthvað að narta.  Það er enginn sykur eða sætuefni þessum bitum, döðlurnar sjá um að setja smá sætan keim í bitana. En hnetubragðið fær að njóta sín vel.  Þetta er því hollusta út í gegn.  Hægt er að leika sér svo mikið með hráefnin í þessari uppskrift, setja alls konar fræ, hnetur, þurrkaða ávexti og jafnvel banana og súkkulaði.  Ég hef prófað að setja pínu súkkulaði út í og það var rosalega gott.  Ég hef líka prófað að gera þessa uppskrift aðeins breytta og þá notað hana sem kökubotn með ferskum ávöxtum og rjóma.  Ég set fljótlega inn þá útgáfu.



3 1/2 dl haframjöl, ég nota tröllahafra
1 dl saxaðar valhnetur eða aðrar hnetur
1 dl döðlur skornar í bita, rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir
1/2 dl fræblanda, t.d. hörfræ, sesam, grasker, sólblóma.
1 tsk kanill
1 tsk sjávarsalt
1 tsk vanilluduft
1 egg
3 dl mjólk

Blanda saman þurrefnunum ásamt döðlum eða rúsínum. Hræra eggið og bæta mjólkinni í. Hella eggjablöndunni yfir þurrefnin og blanda vel.

Setja blönduna í lítið ferkantað form eða í eldfast mót.  Smyrja formið eða hafa bökunarpappír undir.  Baka í 35-40 mín. við 175°.

Leyfa bökunni að kólna í smá stund.  Skera svo í mátulega bita með pizzuhjóli eða góðum hníf.
Hægt er að pakka hverjum bita í plast og geyma í frysti, grípa svo með sér í nesti.


No comments:

Post a Comment