Wednesday, July 31, 2013

Ýsa með timian og appelsínu

Soðinn ýsa með kartöflum og gulrótum er alltaf vinsælasti fiskrétturinn á mínu heimili.  Manninum mínum finnst ég hreinlega vera að eyðileggja fiskinn með því að reyna að gera einhverja fína ofnrétti úr honum.  En stundum bara verð ég að breyta aðeins til og prófa mig áfram með nýja rétti.  Ég mundi eftir að hafa séð einhversstaðar uppskrift af ýsu í appelsínulegi, en fann uppskriftina svo hvergi aftur.  Ákvað því bara að prófa mig áfram sjálf.  Ég á nánast alltaf fisk í frystinum og yfirleitt leynast ein eða tvær appelsínur einhvers staðar.  Hráefnin í þessa uppskrift eru því oftast til í kotinu.  Útkoman varð þessi fíni fiskréttur sem að allir voru ánægðir með, meira að segja eiginmaðurinn.

 
 


1 - 1,2 kg ýsuflök eða annar fiskur svo sem þorskur.
safi úr einni stórri appelsínu
1 1/2 msk rifinn appelsínubörkur
1/2 - 1 tsk salt (ég notaði herbamare)
1/2 tsk nýmalaður svartur pipar
1 1/2 tsk timian (aðeins meira ef ferskur)
örlítið rósmarín

Hreinsa fiskinn, skera í bita og raða í eldfast mót.  Hella appelsínusafa yfir.  Strá yfir kryddi og appelsínuberki.  Bakað í ofni við 180° C í 15-20 mínútur.  Berið fram t.d. með sætum kartöflum og góðu salati.

No comments:

Post a Comment