Thursday, August 1, 2013

Tamari möndlur í helgar nartið

Það eru tvö ár síðan að ég ákvað að taka sjálfa mig í gegn og gera tilraunir til heilbrigðara lífs.  Það var erfitt til að byrja með og ég var alltaf eitthvað svo hugmyndasnauð með það hvað ég gæti eldað og borðað.  Í kjölfarið setti ég í gang þessa bloggsíðu til þess að halda utan um það sem ég var að fikra mig áfram með í eldhúsinu.  Um leið varð bloggsíðan meiri hvatning fyrir mig að halda áfram.

Til að byrja með var erfitt að finna snarl og eitthvað til að narta í á milli mála.  Flögur, kex og fleira í þeim dúr var liðin tíð.  Í staðin komu inn grænmeti, ávextir, hnetur, fræ og fleira í þeim dúr.  Mér var ráðlagt að borða möndlur til að byrja með til að halda blóðsykrinum í skefjum og hjálpa mér í gegnum fyrstu vikurnar á "afeitruninni".  Það gekk bara nokkuð vel, en stundum langaði mér í eitthvað aðeins meira bragð og svona.  Ég keypti stundum til tilbreytingar Tamari möndlur úti í búð sem voru að sjálfsögðu rándýrar.  Ég hafði heyrt að það væri ekkert mál að útbúa sjálf svona tamari möndlur, þannig að þegar ég fjárfesti í fyrsta skiptið í Tamari sósu ákvað ég að prófa. Og já þetta var sko ekkert mál, enda er ég alveg hætt að kaupa Tamari möndlur úti í búð.

Tamari sósa er í raun japanskt afbrigði af sojasósu, búin til úr miso.  Hún er talsvert dekkri og bragðmeiri en venjuleg sojasósa.  Hún er inniheldur ekki glúten og er að öllu jöfnu laus við öll óæskileg aukaefni.  Hún er því góður kostur fyrir þá sem vilja sneiða hjá glúteini.

Möndlur eru meinhollar og stútfullar af næringarefnum á borð við fólinsýru, kalk, magnesium og E-vítamín.  Og já þær innihalda slatta af fitu, en engar áhyggjur því þetta er holla og góða fitan sem líkaminn okkar þarfnast (ómettaðar fitusýrur).


Handfylli, ca. 100 g af möndlum með hýði. 
smá skvetta af Tamari soja sósu  (ca 2 msk)

Möndlurnar eru settar á heita pönnu og ristaðar þar í stutta stund. Kanski 1-2 mínútur eða þar til þið finnið yndislega möndluangan.
Taka pönnuna af hitanum og hella Tamari sósunni yfir möndlurnar á pönnunni.  Setja aftur á vægan hita og hræra stanslaust í.  Brúna þar til sósan er uppþornuð á pönnunni. (tekur mjög stutta stund).  Það lítur út fyrir þarna að allt sé að brenna við pönnuna.  Þá er bara að stoppa og hella möndlunum yfir á smjörpappír og leyfa þeim að standa þar í smá stund.  Engar áhyggjur það er lítið mál að hreinsa pönnuna.  Ég hef líka prófað að setja möndlurnar inn í ofn í smá stund og rista þær betur þar, (minna álag á pönnuna þannig), en yfirleitt læt ég bara duga að brúna þær á pönnunni. 

Þá er þetta tilbúið.  Geyma möndlurnar í glerkrukku.  Ekki borða þetta allt á einu kvöldi :)
Það er t.d. fínt að hafa með sér nokkrar möndlur í nestisboxinu, brytja þær niður og setja út á salat nú eða bara narta í þær á milli mála þegar snakkþörfin er að taka völdin.

No comments:

Post a Comment