Sunday, March 11, 2012

Bananalummur

Það er svona amerískur stíll yfir þessum lummum eða pönnukökum.  Hins vegar er búið að laga uppskriftina til þannig að hún er orðin meinholl en samt sæt og góð.  Flottur morgunverður á sunnudagsmorgni ásamt góðum smoothie, já eða bara kaffibolla.




3 bananar (frekar litlir)
safi úr 1/2 sítrónu
2 msk fljótandi kókosolía
1 tsk hunang
2 egg
1 bolli haframjölshveiti (1 bolli af mjöli sett í matvinnsluvél og malað)
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk kanill
1/4 tsk múskat
1/2 tsk salt

Byrja á að stappa bananana samam í skál. Bæta út í sítrónusafa, olíu og hunangi og hræra vel í með sleif.  Bæta eggjum út í og hræra vel.  Í annari skál er þurrefnunum blandað saman.  Vökvanum er svo hellt rólega yfir þurrefnin og blandað vel saman en passa að hræra ekki of mikið.
Gott er að leyfa þessu að standa í nokkrar mínútur.  Upplagt að ganga aðeins frá í eldhúsinu á meðan og gera pönnuna klára.
Mér finnst best a steikja upp úr blöndu af kókosolíu og íslensku smjöri.  Bara passa að hafa ekki of mikið af því.  Þeir sem eru með svona viðloðunarfríar pönnur þurfa auðvitað ekki mikið af olíu.
Þegar pannan og feitin eru orðin heit, þá skelli ég einni lítilli ausu af degi á pönnuna.  Þetta á að vera um það bil lófastórt.  Steiki lummuna í ca. 3 mínútur og sný henni svo við og steiki hana þar í svona rúmlega mínútu.  Ég kem tveimur til þremur lummum á pönnuna í einu.  Passa bara upp á hitann á pönnunni.  Gott að byrja með góðan hita, en lækka hann svo strax.
Það er svo auðvitað smekksatriði hvað hver og einn setur ofan á lummuna sína.  Krakkarnir vildu auðvitað bara strax fá sýróp.  Ég fór aðra leið og skellti ferskum jarðberjum ofan á hjá mér, ásamt smá gervirjóma, af því að það er sunnudagur.  Þær eru líka góðar með bananabitum, möndluflögum, kókos já og öllu mögulegu.

No comments:

Post a Comment