Sunday, March 11, 2012

Klattar

Þetta er nú ekki svona beint uppskrift heldur meira hugmynd um hvernig hægt er að útfæra klatta úr hinum ýmsu afgöngum.  Í sveitinni í gamla daga voru stundum búnir til svona kartöfluklattar úr afgangs kartöflum og stundum var bætt einhverju kjöti eða hrísgrjónum út í.  Þar sem ég vil hafa allt frekar hollt þessa dagana og sem mest hrein hráefni þá ákvað ég að reyna að útfæra þetta á annan hátt. Ekki það að þetta hafi ekki verið hollt í sveitinni á sínum tíma, en mig langaði bara að breyta aðeins.  Það er hins vegar hægt að nota nánast hvaða hráefni sem er.  Þetta getur því hentað þeim sem ekki vilja kjöt líka.  Grunnurinn samanstendur af sætum kartöflum, lauk, eggjum og spelti. Svo er hægt að bæta við t.d. kjúkling, hrísgrjónum, grænmeti, baunum og öllu mögulegu kryddi. Aðalmálið er að gera deig sem ekki verður of blautt en samt þannig að það hangi vel saman.  Degið er síðan mótað í höndunum í lítil buff sem eru svo steikt á pönnu.



Þau hráefni sem ég notaði í klattana hér á myndinni eru:
Sætar kartöflur
Laukur
Afgangur af kjúkling í litlum bitum
Salt og pipar
Timian
Spelt ca. 2- 3 msk
2 egg

Mikilvægt að kartöflurnar séu mjög smátt skornar og ágætt að stappa þær gróflega fyrst.  Blanda svo bara öllum hráefnunum saman.  Móta lítil buff með höndunum og steikja við vægan hita á pönnu upp úr smjöri og kókosolíu.  Bera svo fram með góðu salati.

No comments:

Post a Comment