Sunday, April 21, 2013

Hrákaka með brómberjum og súkkulaði

Blandarinn minn bilaði í haust og ég hef því ekki verið nógu dugleg að gera boost-drykki og fleira þess háttar eins og áður.  Í haust frysti ég fullt af brómberjum úr garðinum í litlum skömmtum einmitt til þess að nota í drykki og fleira. En svo gleymdi ég þeim bara í frystinum og hef því lítið notað af þeim í vetur.  Ég ákvað því að gera tilraun með að nota þau í hráköku.  Það er auðvitað hægt að nota aðrar berjategundir í kökuna eins og t.d. hindber eða jarðaber eða blanda saman berjaafgöngum úr frystinum. Hér er mikilvægt að kókosolían hitni ekki um of svo að hún haldi eiginleikum sínum sem hrávara.

Marmelaðið sem hér er gert og notað sem fylling í kökuna er einnig hægt að geyma í kæli í nokkra daga og nota á kex eða brauð.  Ég hef gert margar útfærslur af slíku marmelaði þar sem ég nota afgangsber úr frystinum og sæti með döðlum.  Bæti stundum við pínu kanil, en hann eykur örlítið geymsluþolið ásamt því að bragðbæta. Þetta er afskaplega holl útgága af marmelaði  :)



Botn:

2 dl hnetur, t.d. pekanhnetur, kasjú eða valhnetur. Má líka blanda saman.
1 msk akasíuhunang
2 msk kókosolía mjúk eða brædd yfir vatnsbaði (má ekki hitna)
klípa af grófu salti.

Vinna hnetur í mjöl í matvinnsluvél. Bæta hinum hráefnunum saman við og vinna vel saman.  Þjappa í lítið form eða í muffinsform.  Á að vera um 1/2 cm þykkt.  Geyma í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling / Marmelaði:

200 g brómber eða önnur ber, fersk eða frosin. (ef frosin leyfa þeim að þiðna í ca. 20 mín)
6-8 döðlur

Vinna saman í matvinnsluvél eða blandara berin og döðlurnar.  Mér finnst best að láta döðlurnar liggja í bleyti í nokkrar mínútur áður þá verða þær mýkri.  Má bæta við fleiri döðlum ef þið viljið hafa marmelaðið sætara.  Setja marmelaðið yfir botninn og kæla.

Súkkulaði hjúpur eða sósa:

1 1/2 dl kókosolía (bræða yfir vatnsbaði en ekki láta hitna)
1-1 1/2 dl dökkt kakó (kakó er misjafnlega bragðsterkt og því betra að byrja að setja aðeins minna magn og smakka sig til.
1/3- 1/2 dl agavesýróp

Blanda vel saman öllum hráefnum og bara að smakka sig áfram, sumir vilja ekki of sterkt kakóbragð og aðrir vilja blönduna sætari.
Hér er síðan hægt að fara tvær leiðir, nota súkkulaðiblönduna sem sósu sem borin er fram með kökunni eða setja sósuna yfir kökuna og leyfa henni að standa í kæli í ca. 40-50 mín. þannig að sósan storkni og myndi hjúp.  Athugið að marmelaðifyllingin storknar ekki og kakan getur því orðið dáldið klessuleg þegar hún er skorin.

Um að gera að skreyta kökuna með ferskum berjum og bera jafnvel rjóma fram með henni.
Athugið að þetta er ekki stór uppskrift og kemst því bara í mjög lítil form, en hún dugar samt vel fyrir 4-6 persónur.  En þá er bara að tvöfalda.


Ég ætlaði að taka mynd af kökusneið á disknum mínum, en gleymdi mér aðeins og áðurn en ég vissi af var bara allt búið.

No comments:

Post a Comment