Thursday, August 29, 2013

Sítrónu orkuboltar

Það er svo frábært að eiga svona holla bita þegar mikið er að gera. Mér finnst gott að taka nokkrar kúlur með mér í vinnuna og geta laumast í eina og eina inn á milli þess sem ég er að þjálfa.  Það hjálpar til við að halda orkunni uppi.  Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að þessar kúlur innihalda talsvert mikið af kaloríum.  Þannig að fyrir þá sem eru að telja er betra að fara varlega í kúlunum.  En það eru líka góðar fréttir.  Í kúlurnar set ég valhnetur og sesamfræ. Valhnetur eru góð uppspretta af omega-3 fitusýrum. Þær eru taldar vinna gegn krabbameini og ýmsum kvillum. Margir telja að valhnetur séu hollustu hneturnar sem við getum neytt.  Það sama má segja um sesamfræ, þau eru talin vera krabbameinshamlandi og talin lækka kólesteról og hjálpa til við að halda blóðþrýstingi í skefjum. Að eru þau rík af kalki sem mörgum okkar veitir víst ekki af að fá aðeins meira af.  Svo er það C-vítamín bomban sjálf sítrónan, ég gæti skrifað heila ritgerð hér um ágæti þessarar ofurfæðu.

Málið er bara að fara varlega í kúlurnar þær eru meinhollar, en ekki samt klára allan skammtinn á einum degi.  Þær geymast vel í ísskápnum í vel lokuðu íláti í nokkra daga.  Svo er um að gera að stinga einni og einni með í nestisbox fjölskyldumeðlima.



1 bolli valhnetur
1 bolli döðlur
3/4 bolli sesamfræ
safi úr 1 sítrónu, ca. 1/4 bolli
2 tsk rifinn sítrónubörkur (bara guli hlutinn, ekki hvíta)
1/2 tsk vanilluduft
1/2 bolli kókosmjöl

Mér finnst best að leggja döðlurnar í bleyti í smá stund, í kalt vatn eða ylvolgt.  Það er hægt að rista sesamfræin á pönnu fyrst ef þið viljið.  Mér finnst það gera betra bragð og minnka beiska braðgið sem getur stundum fylgt sesamfræjunum.  En þetta flokkast þá ekki sem hráfæði.  En þetta er bara smekksatriði.

Öllu nema kókosmjöli er blandað saman í matvinnsluvél og unnið þar til að myndast gott dáldið klístrað mauk.  Þá er að móta kúlur með teskeið og höndunum. Velta upp úr kókosmjöli og kæla.

No comments:

Post a Comment