Tuesday, November 22, 2011

Kanil- og valhnetuhúðaður lax

Þessi er alveg himneskur og ilmurinn í eldhúsinu var alveg guðdómlegur.  Þetta er líka frekar ódýr matur svona miðað við margt annað.  Ég keypti svona frosinn lax í Krónunni, 4 bitar í pakkanum.  Mig minnir að þetta hafi verið tæp 700g á rúmlega 1200 til 1500 kr í mesta lagi. Lax er auðvitað mjög hollur eins og allir vita, eins er kanillinn mjög góður fyrir blóðsykurinn.  Ég nota alltaf íslenskt smjör og kókosolíu blandað saman þegar ég er að steikja fisk.  Rosalega góð blanda.

6-700gr lax
50 gr valhnetur
1-2 tsk kanill
salt 
pipar
kaldpressuð kókosolía og íslenskt smjör til helminga fyrir steikinguna.

Hnetur maukaðar í matvinnsluvél og kryddi bætt út í.  Svo er laxabitunum bara velt upp úr blöndunni. Steikt við frekar vægan hita á pönnu ca. 10 mín á hvorri hlið. (fer eftir þykkt bitanna).

Borið fram með hýðishrísgrjónum, salati og góðri kaldri sósu.  Ég notaði bara smá sýrðan rjóma sem ég átti í ísskápnum og bætti út í hann hvítlauksrifi og smá sætu sinnepi.

No comments:

Post a Comment