Saturday, April 21, 2012

Gómsæt aspassúpa

Ég held í alvöru að ég hafi varla kunnað að gera súpur hérna áður fyrr nema að baka þær upp úr hveiti og bæta svo að minnsta kosti hálfum lítra af rjóma í ásamt tilheyrandi óhollustu.  Nú er ég hins vegar farin að prófa mig áfram í nýjum aðferðum í súpugerð þar sem að rjómanum og hveitinu er helst sleppt.  Þessa uppskrift er ég búin að vera að fikra mig áfram með og held að ég sé að verða nokkuð sátt við útkomuna. Aspasinn er reyndar úr dós og er þá mikilvægt að velja aspas sem er án rotvarnarefna og annars óþverra.   Ég nota kókosmjólk til þess að fá þessa rjómakenndu áferð á súpuna.  Svo er bara að muna eftir því að fylla ekki blandarann um of af heitri súpu, því hún þarf sitt pláss í blandaranum þegar hann fer að vinna.  Hluti af eldhúsinu mínu varð grænt eftir þessa matargerð.  Það er víst ástæðan fyrir því að ég steingleymdi að taka mynd af súpunni.  Ég verð því að útbúa súpuna fljótlega aftur svo að hægt sé að skella inn mynd af grænu súpunni fínu.  Þessi uppskrift ætti að vera fyrir u.þ.b. fjóra.

3 msk smjör
1 laukur smátt saxaður
1/2 tsk salt
1/2 tsk karrý
1/4 tsk engifer (ég notaði ferskan, en má nota duft líka)
safi úr 1/2 sítrónu
börkur af 1/2 sítrónu (bara guli hlutinn, ekki nota þetta hvíta)
3 bollar vatn
3 msk grænmetiskraftur (smakka svo bara til og bæta í ef þarf)
1 bolli kókosmjólk (lite)
2 litlar dósir aspas, geymi vökvann og bæti aðeins í síðar ef þarf.
pipar grófur nýmalaður
sýrður rjómi til skreytingar

Byrja á að saxa lauk og mýkja hann í smá stund í smjörinu.  Bæta við kryddi og engifer. Bæta svo út í sítrónusafa og berki.  Leyfa þessu að malla í 2-3 mínútur.  Bæta vatni út í og krafti.  Ná upp suðu og sjóða í 5 mínútur.  Setja kókosmjólk út í og hita að suðu.  Bæta loks aspas saman við og hræra varlega í.  Kæla stutta stund og setja svo í blandara eða matvinnsluvél og mauka súpuna.  Muna að setja lokið á og ekki setja of mikið magn í einu í tækið.  Hita súpuna aftur, bæta smá safa af aspas saman við ef hún er of þykk.      Krydda með smá nýmöluðum pipar.  Setja smá sýrðan rjóma út á áður en hún er borin fram.  Berist fram með góðu brauði.

No comments:

Post a Comment