Tuesday, September 18, 2012

Kryddað haframúslí með hnetum

Morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins ekki satt?  Það er mikilvægt að byrja daginn á hollum og góðum morgunverði sem gefur manni rétta næringu og orku til að takast á við verkefni dagsins.  Oftast fæ ég mér einhvers konar útgáfu af hafragraut, chiagraut og/eða smoothie, en stundum er líka gott að breyta aðeins til.  Á Íslandi keypti ég oft múslí frá Himneskt og notaði út í ABmjólk eða jógúrt.  Hér úti hef ég hins vegar ekki fundið "rétta múslíið" ennþá. Þannig að þá er bara að búa það til, enda er það líka í langflestum tilfellum miklu hollara en búðarmúslíið.  Það er frekar einfalt að útbúa sitt eigið múslí og í raun getur maður leikið sér endalaust með hráefnin.  Ég ákvað að breyta til og hafa mitt aðeins kryddað með örlítið sætum keim og ilmurinn...maður lifandi, mætti halda að það væru komin jól bara ;)

3 dl tröllahafrar
4 msk hörfræ
1/2 dl kókosflögur
1/2 dl möndlur
1/2 dl valhnetur eða aðrar hnetur
1 1/2 tsk kanill
1 tsk vanilluduft
6 tsk kókosolía (fljótandi)
3 tsk agave sýróp

rúsínur/döðlur

Saxa hnetur og möndlur smátt.  Blanda saman öllum þurrefnum.  Blanda saman sýrópi og kókosolíu og hella svo yfir þurrefnin og blanda mjög vel saman.  Setja í eldfast mót og baka við 150° í um 1 klst eða þar til það er orðið vel þurrt.  En mikilvægt er að hræra vel upp í blöndunni á um 15 mínútna fresti.
Þegar múslíið hefur kólnað er rúsínum eða döðlubitum bætt í.

Múslíið er svo geymt í góðu íláti.  Notað á AB mjólkina eða í jógúrtina með ávöxtum.  Svo er líka hægt að útbúa svona sætt parfait ;)


No comments:

Post a Comment