Wednesday, September 5, 2012

Muffins með gulrótum og rúsínum

Skólinn hjá börnunum er byrjaður með öllu tilheyrandi, heimalærdómi og nesti.  Þau fá ekki hádegismat í skólanum hérna eins og heima á Íslandi, þannig að ég þarf að senda þau með gott nesti í skólann.  Þau fá reyndar ávöxt í skólanum á morgnana, en allt annað þurfa þau að koma með að heiman.  Mér finnst mikilvægt að börnin fái góða næringu í skólanum og legg mig því fram við að gera gott og girnilegt nesti fyrir þau.  Ég tala nú ekki um þegar maður er með táning á heimilinu.  Því miður sér maður alltof mikið af krökkum úti í sjoppu eða bakaríi á skólatíma og við vitum vel að þau eru ekki þar til þess að kaupa sér grófkornabrauð og grænmetislasagne.

Til að börnin (já eða við hin) borði nestið sitt sem þau taka með sér að heiman verður það að vera eitthvað sem þeim finnst gott, skikkanlega sett fram (svo ég hljómi nú eins og gamall leiðarvísir fyrir húsmæður frá 1950) og auðvitað þarf nestið að vera svolítið fjölbreytt.  Það er lítið spennandi að taka alltaf upp bónusbrauð með osti eða einn banana.



Hér fyrir neðan er uppskrift af muffins sem eru hollar og góðar og sóma sér vel í hvaða nestisboxi sem er.  Þær eru ekki mjög sætar en samt með svona smá sætabrauðsbragði.  Það er hægt að skera þær í sundur og setja alls konar álegg á þær.  Það er líka hægt að setja meira af grófum fræjum í uppskriftina.



1 1/2 bolli gróft spelt
1/2 bolli haframjöl
3 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk salt (sjávarsalt)
1 tsk kanill

Öllu þessu er blandað saman í eina skál.

1 msk hörfræ
1 msk chia fræ
1 1/3 bolli léttmjólk eða soyjamjólk
1/3 bolli ólífuolía
2 egg
2 tsk agave sýróp

Blanda þessum hráefnum saman í aðra skál og hræra lítillega. Leyfa að standa í ca. 5 mínútur.

1 stór vel þroskaður banani
1 tsk vanilluduft
3-5 rifnar gulrætur (meðalstórar) verða ca. 2 bollar

Stappa bananann og blanda þessum hráefnum saman í þriðju skálina.

Blanda banana- og gulrótarblöndunni saman við vökvann.  Blanda því svo öllu saman við þurrefnin.  Hræra vel saman en gæta þess að hræra ekki of mikið.

3/4 bolli rúsínur

Bæta rúsínum út í blönduna og blanda vel saman við.

Setja í muffinsform og baka við 175° í um 25 mín.

Athugið að þær lyfta sér ekki mikið þessar, þannig að ég set aðeins meira í muffinsformin heldur en ég geri venjulega þegar ég baka muffins.

Þar sem að þessar muffins eru ekki mjög sætar, þá eru þær mjög góðar með smjöri og osti.

No comments:

Post a Comment