Wednesday, November 21, 2012

Holl og góð súkkulaðimús

Ég hef séð margar útgáfur af þessari súkkulaðimús á netinu.  Þetta er afskaplega einfalt og fljótlegt að útbúa.  Ég set hérna inn mína útgáfu sem ég er samt alltaf að breyta og reyna að bæta.  Aðaluppistaðan er avokado.  Til að sæta músina nota ég döðlur, agavesýróp og stundum smá banana.
Avokado er oftast flokkað sem grænmeti, en þó eru ekki allir á sama máli um það.  Avokado inniheldur talsvert af fitu, en það er góð fita sem við höfum bara gott af sé hún ekki í allt of miklu magni.  Að auki er avokado afskaplega næringarríkt og er góð uppspretta B- og C vítamína.  Það er því óhætt að láta eftir sér svona súkkulaðimús annars lagið.

Þessi uppskrift dugar fyrir 3-4.



2 vel þroskuð avokado
5-6 döðlur legg þær í bleyti í örlitlu vatni.
2-3 tsk agavesýróp. (set stundum 1 lítinn banana með og þá minnka ég sýrópið).
3 msk dökkt lífrænt kakó
smá klípa af grófu sjávarsalti
1 tsk vanilluduft
1 msk rifinn appelsínubörkur

Byrja á að vinna döðlur og avokado vel í matvinnsluvél það er í lagi þó að það fari örlítið vatn með döðlunum.  Bæta hinum hráefnunum saman við og hræra vel í matvinnsluvélinni.  Það borgar sig að smakka til og bæta út í smá agave sýrópi ef þarf.
Bera fram með ferskum ávöxtum.

No comments:

Post a Comment