Thursday, November 15, 2012

Hressandi mangó smoothie

Það er yndislegt að byrja daginn á hollum og góðum smoothie.  Möguleikarnir eru svo margir.  Margir vilja bæta próteindufti út í sína drykki, en ég hef lítið verið að eltast við það enda er ég ekki að reyna að byggja upp vöðvamassa neitt sérstaklega.  Ég borða bæði kjöt og fisk, ásamt kornvöru og hnetum og fæ því talsvert af próteini þar sem ég læt yfirleitt duga.  En fyrir þá sem vilja auka próteininntöku þá er ekkert að því að bæta próteindufti út í drykkina.
Mangó er einn af mínum uppáhalds ávöxtum.  Það er bæði sætt, safaríkt og bragðgott, ásamt því að vera trefjaríkt og innihalda mikið af nauðsynlegum vítamínum og næringarefnum.



1 lítið mangó, eða 1/2 stórt (mátulega þroskað)
1 stór appelsína (rúmlega 1 dl af safa)
1 tsk rifið engifer
2 msk sítrónusafi
1/2 tsk rifinn sítrónubörkur
ísmolar

Byrja á að skera mangóið í teninga og setja í blandarann.  Pressa safann úr appelsínunni og sítrónunni í gamaldags handpressu (það nota allir safavélar orðið). Rífa engiferið og sítrónubörkin og bæta öllu í blandarann.  Vinna vel í ca. 1 mínútu.  Gott að bæta ísmolum saman við.  Hella blöndunni í glas og njóta þess að drekka í sig alla hollustuna.

Athugið að það er auðveldlega hægt að útbúa þennan drykk þó að ekki sé til blandari á heimilinu.  Vel þroskað mangó er það mjúkt að það er auðvelt að skella því hreinlega bara í hrærivélina ásamt hinum hráefnunum, nú eða í matvinnsluvél.

No comments:

Post a Comment