Wednesday, November 7, 2012

Orku jólakúlur

Póstkassinn er fullur af alls konar jólabæklingum á hverjum degi og maður þarf að kíkja á dagatalið bara til að vera viss um að það sé örugglega bara nóvember ennþá og nægur tími til jóla.  Því miðað við ógrynnið af jólatilboðum sem kemur hér inn gæti maður haldið að jólin væru bara í næstu viku. En það er víst nægur tími til stefnu.  En það er nú samt þannig að þó svo maður byrji nokkuð snemma á jólaundirbúningi þá vill samt alltaf verða dáldið mikið að gera hjá manni þegar nær dregur.  Þá er voða gott að hafa orkuríkar jólakúlur til að narta í þegar annríkið verður sem mest.  Þær eru sætar og bragðgóðar og innihalda ekki þessi leiðindaefni sem eiga það til að hreinlega sjúga úr manni orkuna.  Það tekur ekki nema örfáar mínútur að útbúa kúlurnar.  Til að gera kúlurnar að enn meira sælgæti er hægt að velta þeim upp úr súkkulaðisósu sjá t.d. uppskrift hér.  Það er rosalega gott, en ég geri það bara svona alveg spari, enda eru kúlurnar líka fínar bara svona án sósu.

Uppistaðan í þessum kúlum eru kasjúhnetur og rúsínur.  Orkurík hráefni sem innihalda jafnframt mikið af nauðsynlegum vítamínum og steinefnum ásamt því að innihalda andoxunarefni.  Kærkomin blanda fyrir aðventuna.



3 1/2 dl kasjúhnetur
3 tsk kanill
2 tsk kardimommur
1 tsk múskat
1 tsk vanilluduft
2 dl rúsínur
2 msk agavesýróp

Vinna hneturnar í matvinnsluvél þar til þær eru orðnar gróft mjöl.  Bæta þá í kryddum og blanda aðeins saman.  Setja rúsínur út í og agavesýrópið og vinna vel saman.  Ef blandan er of þurr til að hægt sé að móta kúlur úr henni er hægt að setja 1-2 msk af vatni út í, bara bæta við örlitlu í einu.  Þá er bara að móta kúlur úr blöndunni.  Ég fæ um 12-15 kúlur úr þessari blöndu.  

No comments:

Post a Comment