Tuesday, October 4, 2011

Æðisleg haust gulrótarsúpa

Þegar kólnar svona hratt í veðri er veit ég fátt betra en að fá heita gómsæta súpu í matinn.  Ég fékk grunnuppskriftina af þessari súpu á einhverri góðri heilsuvefsíðu.  En ég er aðeins búin að breyta og bæta uppskriftina (vonandi).  Gulrætur eru eins og allir vita rosalega hollar og góðar fyrir líkamann.  Þær eru líka taldar til þeirra fæðutegunda sem mögulega vinna gegn krabbameini.  Það sama má segja um engifer en það er jafnframt bólguhamlandi og fullt af andoxunarefnum.  Þessi súpa er því full af fyrsta flokks hollustu sem er bara góð fyrir kroppinn.

2 meðalstórir laukar, saxaðir
ca 6 meðalstórar gulrætur, smátt skornar
2 cm engiferrót rifin niður
2 hvítlauksrif pressuð
4-5 bollar grænmetissoð (gerlaust helst)
safi úr 2 appelsínum.
salt
pipar
kókosmjólk ef vill
kókosolía eða önnur olía

Byrja á að brúna laukinn aðeins í olíunni, bæta svo gulrótum og engifer út í og mýkja aðeins.  Bæta grænmetissoði við, ásamt appelsínusafa. ( ég byrja á að setja aðeins minna af vökva og bæti þá frekar við seinna ef þess þarf).  Krydda með salti og pipar eftir smekk.  Leyfa þessu að sjóða við vægan hita í ca. 15-20 mínútur.  Þá þarf að sigta mesta vökvann frá og geyma aðeins.  Gulrótarhratinu ásamt smá vökva er skellt í matvinnsluvélina og maukað vel.  Sett aftur í pottinn ásamt vökvanum og hitað.  Ég hef bætt smá kókosmjólk út í svona í restina til að fá betri áferð á súpuna, en það er ekki nauðsynlegt. (Ég frysti stundum afganga af kókosmjólk í klakaboxi, fínt að setja 2-3 klaka út í ef þeir eru til).  Hef líka sett smá rifinn appelsínubörk yfir súpuna áður en ég ber hana fram.

No comments:

Post a Comment