Tuesday, October 4, 2011

Sæt og krúttleg kartöflumús

Það er góð tilbreyting að hafa sætar kartöflur sem meðlæti í stað hefðbundinna.  Þær sætu eru líka talsvert næringarríkari.  Þær eru taldar vera krabbameinshamlandi ásamt því að efni í sætu kartöflunum hjálpa til við að stjórna blóðsykrinum og því hægt að mæla með þeim fyrir fólk með sykursýki 2.
Sæta kartöflumúsin hefur verið mjög vinsæl á heimilinu hjá mér og meira að segja hinir mestu grænmetisgikkir hafa verið mjög ánægðir.  (Allir sem til þekkja vita að hér er auðvitað verið að ræða um eiginmann minn og litla bróður).
Músin er frábært meðlæti með hinum ýmsu réttum.  Ég nota hana mikið með kjúklingaréttum ásamt hýðishrísgrjónum.

2 (nokkuð stórar) sætar kartöflur
1/2 bolli kókosmjólk (light)
fínt saxað eða rifið engifer ca. 1 msk
1/2 tsk sjávarsalt

Þær sætu eru settar alveg heilar inn í ofn á ca. 190° þar til þær eru mjúkar í gegn.  Getur alveg tekið upp undir 50 mínútur.  Þegar þær eru orðnar mjúkar, þá er ágætt að leyfa þeim að kólna aðeins.  Skera þær svo í tvennt og skafa innan úr þeim allt maukið.  Setja í pott ásamt kókosmjólkinni, engiferinu og saltinu. Stappa þetta aðeins með stapparanum og hræra vel saman.  Hita þetta vel og svo bara njóta.

No comments:

Post a Comment