Wednesday, October 5, 2011

Orkuboltabitar með döðlum og sesamfræjum

Stundum er erfitt að vera í svona átaki og leyfa sér ekki nein sætindi nema á tyllidögum.  Þá er nauðsynlegt að hafa nóg af hugmyndum af sætri hollustu sem að hjálpar manni yfir erfiðasta hjallann.  Orkuboltabitarnir sem koma hér á eftir hafa einmitt bjargað mér í sykurþörfinni.  Þeir eru líka fullir af góðri næringu svo að það þarf ekkert samviskubit að hafa. Ég geymi þá í frystinum en get laumað mér í smá bita þegar mig langar virkilega í eitthvað gott.  Sonurinn hefur komist upp á lagið með þetta líka, hann tekur líka stundum smá bita með sér á æfingu.  Uppskriftin er mjög einföld og góð.



100 g valhnetur
100 g sesamfræ
180 g döðlur (lagðar í bleyti í smá stund)
240 g rúsínur gott að setja líka goji ber eða önnur þurrkuð ber
2-4 msk ferskur appelsínusafi

  1. Setjið valhnetur og sesamfræ í matvinnsluvél. Malið í nokkrar sekúndur eða þangað til hneturnar eru smátt saxaðar (en ekki maukaðar). Setjið í stóra skál.
  2. Ef döðlurnar voru í bleyti, hellið þá af þeim og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt rúsínum. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru smátt saxaðar án þess að vera maukaðar. Bætið svolitlu af appelsínusafa við ef illa gengur að blanda (athugið samt að blandan má ekki vera of blaut). Setjið út í stóru skálina.
  3. Setjið bökunarpappír eða plastfilmu ofan í 20 sm ferkantað form.
  4. Þrýstið blöndunni mjög fast ofan í botninn.
  5. Frystið í 30 mínútur.
  6. Takið úr frystinum og skerið í 12-16 bita.
  7. Geymið í frysti eða kæli.

No comments:

Post a Comment